131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:18]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Við sjáum fram á að það verði einhverjar breytingar í alþjóðasamningum. En þær verða aldrei þannig að þær kollvarpi kerfinu. Það verður alltaf einhver aðlögun fyrir bændur þannig að þeir geti aðlagað sig breyttu fyrirkomulagi og það hafa menn sannarlega verið að gera. Það hefur verið svo farsælt einmitt í mjólkurframleiðslunni að menn hafa getað keypt og selt kvóta og hagrætt hjá sér. Búin hafa verið að stækka og bændum hefur verið að fækka. Það hefur allt verið á þá leið að það hefur verið mjög hagfellt fyrir heildina. Búin standa betur undir lífsafkomu heimilanna og það er vel.

Eins og ég sagði fyrr í dag þá vorum við á fundi með sauðfjárbændum í dag. Þar ríkir líka mikil bjartsýni. Það er vegna þess að menn sjá fram á að hægt er að lifa af landbúnaði á Íslandi. Íslenskur landbúnaður er í tísku eins og hæstv. ráðherra hefur oft talað um. Hann hefur talað kjark og bjartsýni í íslenska bændur. Það skiptir ekki litlu máli. Þess vegna eru allar úrtöluraddir mjög hvimleiðar þegar menn eru að gera nokkuð góða hluti. Það er alveg með endemum hvað hv. þm. Jóhann Ársælsson — eins ágætur maður og hann nú er — getur oft verið ansi neikvæður út í landbúnaðinn. Auðvitað á hann bara að taka höndum saman með okkur. Við erum að breyta heilmiklu í öllum þessum lagabálkum og hann bara hjálpar okkur við það.