131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Starfslok og taka lífeyris.

247. mál
[18:23]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér þingsályktunartillögu um rétt til að flýta starfslokum og töku lífeyris. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita eftir samstarfi við launþegasamtök og samtök atvinnurekenda um að gera launþegum kleift að ljúka störfum og fá lífeyri fyrr en reglur lífeyrissjóða gera nú ráð fyrir.“

Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 130. löggjafarþingi en varð ekki útrædd og er hún því endurflutt.

Íslenskur vinnumarkaður er sveigjanlegur og miklar breytingar í atvinnulífinu raska oft högum fólks. Fyrirtæki eru sameinuð til hagræðingar eða starfsemi lögð niður og kröfur til menntunar og starfsþjálfunar breytast hratt. Þeir sem hafa aflað sér sérþekkingar í einhverri atvinnugrein og unnið lengi við hana geta þess vegna lent í verulegum erfiðleikum vegna tæknibreytinga eða annarrar röskunar á starfsumhverfi. Þeir sem í slíkum vanda lenda seint á starfsævinni geta staðið frammi fyrir því að hafa unnið sér inn fullan rétt til lífeyris sem tekur gildi við t.d. 67 ára aldur en þurfa að hefja vonlitla atvinnuleit og lifa á atvinnuleysisbótum í nokkur ár áður en lífeyristaka getur hafist.

Alþingi ákvað síðastliðinn vetur að koma til móts við ráðherra og þingmenn af svipuðum ástæðum og hér hefur verið getið. Sú ákvörðun var umdeild og kröfur launþegasamtaka um samræmingu lífeyrisréttinda voru settar á oddinn í framhaldi af þessu.

Það hlýtur að vera skylda Alþingis að leita leiða til að aðrir geti notið svipaðra möguleika við óvænt starfslok og Alþingi taldi nauðsynlegt að tryggja ráðherrum og þingmönnum. Möguleikar til að koma áformum um lækkaðan eftirlaunaaldur af sérstökum ástæðum til framkvæmda ættu að vera góðir.

Lífeyrissjóðir hafa eflst mjög og launþegar sem nálgast eftirlaunaaldur eru nú flestir búnir að greiða í lífeyrissjóði svo lengi að þeir eiga töluverð lífeyrisréttindi þó að þeir hafi ekki náð tilskildum aldri. Það er því eðlilegt að lífeyrissjóðir leggi mikið af mörkum til að koma til móts við vanda sjóðfélaga sem á þurfa að halda. Atvinnuleysistryggingasjóður hlýtur að hafa skyldu til að koma til móts við þetta mál enda fengju viðkomandi aðilar greiðslur úr honum ef þeir gætu ekki tekið eftirlaun. Það eru því sterk rök fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður gangi myndarlega fram í þessu máli. Samtök launþega hafa sett fram kröfur um jöfnun lífeyrisréttinda og munu örugglega vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja framgang máls eins og þessa. Engin ástæða er til að halda að samtök atvinnurekenda séu mótfallin því að jafna lífeyrisréttindi með þessum hætti. Komist tillagan til framkvæmda þarf að móta skýrar reglur um hvaða skilyrði þurfi til svo að viðkomandi launþegi geti hafið töku lífeyris.

Flutningsmönnum er kunnugt um að sveigjanleg starfslok hafa verið til skoðunar í nefnd sem forsætisráðherra skipaði og hafa skoðað tillögur hennar. Þar er ekki lagt til að fara þá leið sem hér er nefnd. Einnig má geta þess að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir flutti ásamt fleiri þingmönnum á 126. löggjafarþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í því frumvarpi var lagt til að opinberum starfsmönnum yrði gert kleift að fresta starfslokum. Sú tillaga sem hér er sett fram snýr hins vegar eingöngu að því að flýta starfslokum við sérstakar aðstæður og hvernig fjármagna beri það. Ef tillagan verður samþykkt felur það í sér einföld og skýr skilaboð Alþingis til launþega um vilja til þess að auka og jafna rétt launþega til að hefja töku lífeyris ef sérstakar ástæður valda atvinnumissi seint á starfsævinni.