131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Starfslok og taka lífeyris.

247. mál
[18:36]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að taka þátt í umræðunni og gera grein fyrir tillögum nefndarinnar sem hann var í og forsætisráðherra hefur nú skýrsluna frá. Ég get algjörlega fallist á að sú tillaga sem hér er flutt var hugsuð sem einungis hluti af því sem hv. þingmaður var að lýsa að hefði verið unnið í nefndinni. Það sem kveikti hjá mér hugmyndina um að flytja þessa tillögu kom fram í fyrri ræðu minni. Það voru þær breytingar sem gerðar voru á lögum um eftirlaun þingmanna og ráðherra. Þar var gengið lengra en margir töldu vera gott. Þingmaður getur sem sagt farið á eftirlaun 56 ára gamall í vissum tilvikum og ráðherrar geta tekið eftirlaun mun fyrr en reiknað var með áður.

Ég hef margoft orðið var við að fólk sem missir atvinnu, sem það hefur kannski haft að lifibrauði nánast alla sína starfsævi, hefur lent í miklum erfiðleikum. Það hefur orðið að lifa af atvinnuleysisbótum, jafnvel nokkur ár þó að það hafi verið búið að vinna sér inn lífeyrisréttindi. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur auðvitað borgað það sem hann á að borga í slíkum tilfellum, en viðkomandi hefur þurft að lifa við þann kost sem sú upphæð gefur mönnum. Hún er því miður ekki svo há að hún standi undir almennum lífskjörum. Ég hef þess vegna talið að í þeim tilfellum þyrfti — ég er ekki að tala um almenna reglu, að menn geti bara tekið ákvörðun um að nú ætli þeir ekki að vinna lengur, heldur er ég að tala um það þegar lagðar eru niður stofnanir eða fólk á þessum aldri missir atvinnuna, lendir á atvinnuleysisskrá og hefur ekki möguleika á að taka eða fá ný atvinnutækifæri. Þetta eru auðvitað sorglegar aðstæður sem fólk lendir í með þessum hætti. Ríkið er hvort sem er að borga þá hluta brúsans í formi atvinnuleysistrygginga. Ég held að full ástæða sé til að verkalýðsfélögin kalli eftir breytingum á þessum reglum sem færu í þá átt sem hér er lagt til og menn sameinist um þetta, þ.e. opinberir aðilar, atvinnurekendur, Atvinnuleysistryggingasjóður og verkalýðsfélögin, að búa til þann möguleika handa fólki sem lendir í þessum vanda það seint að ekki er úrræði fyrir viðkomandi aðila að fara í endurhæfingu eða nám til þess að hefja ný störf á vinnumarkaðnum.

Það var nú kannski ekki miklu flóknara en þetta sem fékk mig til að flytja tillöguna. Ég vona satt að segja að hæstv. forsætisráðherra svari hv. þingmanni sem allra fyrst og það jákvætt um að þessi mál komi til afgreiðslu þingsins. Ég mun sannarlega styðja slíkt mál en reyni auðvitað að hafa áhrif á að inn í það verði þá tekin, a.m.k. í nefndinni, umræða um að mynda eitthvert úrræði fyrir þá sem ég hef haft sérstaklega í huga með flutningi þessarar þingsályktunartillögu.