131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:01]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki liðið ár síðan íslenskt þjóðfélag nánast logaði í illdeilum vegna fjölmiðlamálsins svokallaða enda er sá umbrotatími okkur öllum í fersku minni. Fjölmiðlanefndin fyrri hafði skilað af sér skýrslu sem var að flestra mati ágætlega unnin og þar komu fram margar skynsamlegar tillögur um það fyrirkomulag sem ætti að vera á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Í kjölfarið var frumvarp ríkisstjórnarinnar unnið og um það snerust deilurnar sem okkur eru í fersku minni.

Nú hefur ný skýrsla verið unnin og nýjar tillögur lagðar fram. Um þær virðist ríkja nokkuð góð sátt á milli stjórnmálaflokkanna enda skýrslan afar vel unnin. Það skiptir hins vegar öllu máli hvernig á málum verður haldið í framhaldinu. Úr ágætri heildarskýrslu fyrri fjölmiðlanefndar varð frumvarp sem skók samfélagið mánuðum saman og það má ekki henda aftur.

Tillögur fyrri fjölmiðlanefndar voru nokkurs konar hlaðborð sem ríkisstjórnin valdi síðan af. Sumt rataði inn í frumvarpið en annað ekki. Umdeilt ákvæði var í frumvarpinu sem bannaði að veitt yrði útvarpsleyfi til fyrirtækis sem væri í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði, krosseignarhald var bannað á milli ljósvaka og dagblaða og bannað var að veita útvarpsleyfi til fyrirtækis ef annað fyrirtæki átti meira en 25% eignarhlut í því. Frumvarpið var að margra mati talið stangast á við mannréttindaákvæði stjórnarskrár, það var harðlega gagnrýnt fyrir það að meðalhófsreglu hefði ekki verið gætt í samningu þess og síðast en ekki síst var það talið beinast gegn einu tilteknu fjölmiðlafyrirtæki öðrum fremur.

Í meðförum þingsins voru gerðar breytingar á frumvarpinu sem dugðu engan veginn til að lægja þær öldur sem um það höfðu risið og eins og flestir muna synjaði forseti Íslands að staðfesta frumvarpið. Að lokum var það fellt úr gildi af þinginu sem hafði samþykkt það nokkru áður.

Hvernig má það vera að nú skuli hafa náðst nokkuð samhljóða niðurstaða allra flokka um þennan sama markað, þ.e. fyrirkomulagið og leikreglurnar á sviði markaðsmiðlanna? Ég er ekki í nokkrum vafa um það, virðulegi forseti, að ástæðan er fyrst og síðast sú að það var gefið það svigrúm til skoðanaskipta og íhugunar um málið sem þurfti. Það hefði betur verið gert á fyrri stigum málsins, þá er ekki víst að komið hefði til þeirra átaka sem áttu sér stað fyrir ári síðan.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi fjölmiðlafrumvarpið fyrir margra hluta sakir, því væri beint gegn einu fyrirtæki, það fæli ekki í sér almennar reglur til framtíðar, vegið væri að fjölbreytni fjölmiðlanna og settar hömlur á þessa atvinnugrein umfram aðrar, sem gerði hana að lélegum fjárfestingarkosti. Við bentum líka á skort á reglum um gagnsæi eignarhalds og ritstjórnarlegt sjálfstæði en slíkar reglur auk ákvæða samkeppnislaga ættu að geta tekið á misnotkun á markaðsráðandi stöðu á fjölmiðlamarkaðnum. Samfylkingin lagði fram þingmál sem tók á þessum þáttum og byggði m.a. á tillögum Evrópuráðsins. Síðast en ekki síst var vinnubrögðunum mótmælt, að ekki hefði verið leitað eftir málefnalegu samstarfi sem hefði getað leitt til farsællar lausnar á málinu.

Sú skýrsla sem við ræðum nú er í mörgum grundvallaratriðum ólík frumvarpinu umdeilda og þeim tillögum sem þar birtust. Fyrir það fyrsta er nú leitað þverpólitískra lausna um málið og nefndin hefur náð nokkuð vel saman þrátt fyrir að umhverfið hafi verið mjög viðkvæmt í kjölfar fyrra málsins. Ekki er lengur lagt bann við því að markaðsráðandi fyrirtæki eigi í ljósvakamiðli, krosseignarhald er leyft á milli ljósvakamiðla og dagblaða og vikið er að mikilvægi þess að gagnsæi eignarhalds sé öruggt og leitast við að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði.

Vissulega eru þar lagðar til takmarkanir á eignarhaldi en sú tillaga er sett fram í heildarmynd sem er á engan hátt lík þeirri mynd sem fyrra málið var í. Tillögurnar virðast a.m.k. almennar, málefnalegar og hitta ekki eitt fyrirtæki öðrum fremur fyrir, enda sæta þessar tillögur ekki sömu tortryggni og þær sem voru lagðar fram í fyrra, a.m.k. ekki enn þá. Andrúmsloftið er allt annars eðlis í dag. Fólk trúði því nefnilega að þær tillögur sem voru settar fram í fyrra væru settar fram til höfuðs einu fyrirtæki sem er algjörlega óásættanlegt í jafnviðkvæmu umhverfi og fjölmiðlamarkaðurinn er.

Ég tel líka mikilvægt að fjölmiðlanefndin hefur sett tillögur sínar upp nú sem heildstæða mynd, það er með öðrum orðum ekki hægt að plokka eina tillögu eða tvær út en skilja aðrar eftir. Þær eru ekki hlaðborð hugmynda, heldur heildarmynd.

Virðulegi forseti. Ég held að fjölmiðlunum sé betur borgið í umhverfi sem gæti byggt á þessum tillögum en þeim sem við blöstu í fyrra. Nú þegar má ráða af umræðunni í samfélaginu að þessar tillögur fá ekki þá útreið sem frumvarp ríkisstjórnarinnar fékk áður. Það heyrast vissulega gagnrýnisraddir og auðvitað er hér á ferðinni sátt á milli stjórnmálaflokkanna sem alltaf felur í sér ákveðnar málamiðlanir. Maður þarf að gefa eitthvað eftir en fær annað í gegn og kannski fær enginn allt sem hann hefði óskað en allir eitthvað.

Ég er þó þeirrar skoðunar að einn verulegur hængur sé á því að nauðsynleg sátt hafi náðst um þennan markað enn þá og það er að Ríkisútvarpinu skuli hafa verið haldið utan við vinnu nefndarinnar. Það hvaða stakkur almenningsútvarpinu er skorinn hefur nefnilega gríðarleg áhrif á það hvernig markaðsmiðlarnir spjara sig og það er nauðsynlegt að skoða þessi mál í heild því að hvað hangir með öðru. Mér sýnist að áfram, miðað við stöðuna eins og hún er í dag, muni verða deilt um þátt RÚV á auglýsingamarkaði, tekjustofna þess og sjálfstæði, og er það miður. Reynslan sýnir okkur að það borgar sig að hafa víðtækt samráð um svo mikilvæg mál eins og fjölmiðlana. Ríkisútvarpið og staða þess á markaðnum er engin undantekning þar á. Þróun þess og staða hefur áhrif á allt fjölmiðlaumhverfið og því er það óskynsamlegt og óásættanlegt að halda því fyrir utan heildarmyndina. Með því móti vantar burðarbitann í mannvirkið sem kann ekki góðri lukku að stýra.