131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:07]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa fagnað því að sátt virðist í sjónmáli um fjölmiðlamarkaðinn á grundvelli þessarar skýrslu og þar með þá meginniðurstöðu hennar að það sé bæði rétt og eðlilegt að setja löggjöf um eignarhald fjölmiðla og annað sem í umhverfi fjölmiðla ríkir til þess að tryggja eðlilega fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi, gagnsæi um eignarhald og þá hagsmuni sem að baki fjölmiðlunum búa, og síðast en ekki síst til að tryggja eðlilegt val neytenda.

Varðandi eignarhaldið virðist nefndin hafa komið sér saman um athyglisverða leið þar sem eignarhaldsreglur hafa aðeins áhrif á þá fjölmiðla sem náð hafa verulegri markaðshlutdeild og verulegri útbreiðslu hér á landi. Sú leið ætti að stuðla að því að nýjum aðilum sem vilja spreyta sig í fjölmiðlarekstri sé ekki gert erfitt fyrir. Eignarhaldsreglurnar munu aðeins eiga við um þá aðila sem náð hafa miklum áhrifum í þjóðfélagsumræðunni vegna eignarhalds síns á fjölmiðlum.

Einnig fagna ég yfirlýsingum forsvarsmanna þess fyrirtækis sem mest var í umræðunni í tengslum við frumvarpið í fyrra um að þeir telji þær skorður sem skýrslan gerir ráð fyrir að settar verði eignarhaldinu séu viðunandi.

Vegna samruna fjölmiðla og fjarskiptafyrirtækja er öll fjölmiðlun að renna saman í nýtt stafrænt umhverfi. Skýrsla fjölmiðlanefndar sýnir fram á þetta og þetta er einn helsti útgangspunktur hennar. Sú umræða sem fram fór um fjölmiðlamál á síðasta ári tók ekki jafnmikið mið af þessu nýja umhverfi og vert hefði verið, enda fór það svo að á sama tíma og sú umræða stóð yfir hélt þróunin áfram og breytingar urðu á fjölmiðlamarkaði, bæði hvað varðar eignarhald miðla og tækniþróun.

Markmiðið með þeirri stefnu sem skýrsla fjölmiðlanefndar kynnir er liður í að tryggja fjölbreytni og fjölræði á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Ég tel að það leiði af sjálfu sér, virðulegi forseti, að til þess að það markmið sé trúverðugt verði að leggja áherslu á að tryggja öllum landsmönnum sambærilegan aðgang að fjölmiðlum í nýju umhverfi.

Ég rifja þetta upp hér vegna þess að við núverandi aðstæður er ljóst að hluti landsmanna mun að óbreyttu ekki eiga kost á að njóta ávaxta tækniþróunarinnar vegna þess að hann á ekki kost á háhraðagagnaflutningum en aðgangur að ADSL-tækni eða sambærilegri gagnaflutningstækni er forsenda þess að fólk geti tekið á móti stafrænum útsendingum fjölmiðla og fært sér í nyt þá nýju og fjölbreyttu möguleika sem verða munu fylgifiskur stafrænnar sjónvarpstækni.

Í skýrslunni kemur fram að fjölmiðlanefndin telur það ekki samræmast hagsmunum neytenda að val þeirra á því hvaða sjónvarpsefni þeir eiga möguleika á að notfæra sér ráðist af því við hvaða fjarskiptafyrirtæki þeir eiga viðskipti. Ég tek undir þessi sjónarmið. Dreifiveiturnar mundu með þessum breytingum einbeita sér að dreifingu og keppa um verð fyrir þjónustu sína til hagsbóta fyrir neytendur. Efnisveitum yrði gert skylt að bjóða efni sitt á sama verði á ólíkum dreifileiðum og eftirlit haft með því að hvorki efnis- né dreifiveitum yrði mismunað í verði.

Virðulegi forseti. Flestir landsmenn geta nú lent í þeim vanda að eiga takmarkað val vegna viðskipta sinna við ákveðið fjarskiptafyrirtæki. En um leið er stór hluti fólks á landsbyggðinni enn í þeirri stöðu að eiga ekkert val í þessum efnum vegna þess að í dag eiga þúsundir Íslendinga einfaldlega ekki kost á ADSL eða annars konar háhraðatengingum. Ég fagna því að skýrsla fjölmiðlanefndar bregður skýru ljósi á mikilvægi þess að úr þessu verði bætt. Það er óviðunandi annað en að allir landsmenn geti verið þátttakendur í þeirri þróun sem er að verða í þessum efnum.

Þetta leiðir hugann að öðru stóru máli sem mjög hefur verið til umfjöllunar hér á Alþingi og á enn eftir að koma til umræðu á næstu vikum og mánuðum, en það er sala Símans. Það er ljóst að fyrirtækin á markaðnum munu ekki á eigin vegum leggja í kostnað við að byggja upp stafrænt dreifikerfi sem nær til allra landsmanna. Fyrirtækin munu láta staðar numið þegar háhraðatengingar ná til um 93% landsmanna. Til þess að tryggja öllum landsmönnum aðgang þarf því að grípa til annarra ráða og það hlýtur að verða horft til þess fjarskiptasjóðs sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að verði stofnaður í aðdraganda þess að eignarhlutur ríkissjóðs verði boðinn til sölu á almennum markaði. Sá sjóður mun hafa það að markmiði að bæta aðgengi fólks í dreifbýli að gagnaflutningsþjónustu með því að efla GSM-samband og síðast en ekki síst með því að kosta aðgerðir til þess að tryggja háhraðagagnaflutninga í dreifðum byggðum landsins. Með skýrslu fjölmiðlanefndarinnar er enn sýnt fram á hve brýnar þessar aðgerðir eru. Þær tryggja ekki einungis aðgang að þeirri þjónustu fjarskiptafyrirtækja sem við nú búum við, heldur eru forsenda þess að landsmenn allir standi jafn vel að vígi gagnvart þeirri spennandi þróun sem nú er í fullum gangi og ekki sér fyrir endann á.