131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:25]

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Skýrslan sem er hérna til umræðu er á margan hátt tímamótaplagg eins og margir hv. þingmenn hafa nefnt í dag. Hún er merkilegt skref í þá átt að ná sem víðtækastri samstöðu um leikreglur sem eiga að gilda fyrir fyrirtæki sem starfa á þessu sviði. Í ljósi þess hvernig umræður þróuðust hér á síðasta ári er merkilegt að nefndin, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka, skyldi ná samstöðu um að gera ákveðnar afmarkaðar tillögur í þessa átt.

Við skulum auðvitað hafa í huga að tillögur þessarar nefndar eru málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Það þarf þess vegna engum að koma á óvart að menn hafi misjafnar skoðanir á einstökum atriðum sem þar er að finna. Menn geta haft mismunandi sjónarmið, bæði varðandi markmið og leiðir, það er ekkert óeðlilegt. Eins og fleiri hafa sagt get ég sagt að skýrslan hefði vissulega litið öðruvísi út ef ég hefði ráðið efni hennar einn.

Það er hægt að nálgast löggjöf varðandi fjölmiðla út frá afskaplega mörgum sjónarmiðum. Skýrsluhöfundar benda á það að í löndunum í kringum okkur hafi verið farnar afar margar og ólíkar leiðir í því skyni að móta lagaramma um fjölmiðlastarfsemi. Þessar reglur hafa auðvitað mótast af aðstæðum á hverjum stað en það sem nágrannalöndin sem við berum okkur helst saman við eiga öll sammerkt er að þar gilda einhverjar sértækar reglur á þessu sviði. Skýrsla nefndarinnar felur í sér viðurkenningu á því að sömu sjónarmið eigi við hér á landi. Það er útgangspunktur skýrsluhöfunda varðandi alla tillögugerð sína. Það er afskaplega mikilvægt að það komi fram vegna þess að þegar við ræddum þessi mál hér á síðasta þingi var látið eins og það væri furðuleg stjórnlyndishugmynd að láta að sér hvarfla að setja með einhverjum hætti sérstakar reglur sem vörðuðu fjölmiðla umfram önnur fyrirtæki. Nú er sem sagt sátt um að það sé unnt að gera.

Það er líka merkilegt að við séum komin á þann stað í umræðunni að nefnd af þessu tagi nái samstöðu um að takmarka beri eignarhald á fjölmiðlum með einhverjum hætti vegna þeirrar sérstöðu sem fjölmiðlar hafa í nútímasamfélagi. Þetta var heldur ekki sjálfgefið hér í umræðum á síðasta þingi. Eins og í hinu tilvikinu var það álitið til marks um óskaplegt stjórnlyndi, forræðishyggju og virðingarleysi fyrir mannréttindum að menn skyldu láta að sér hvarfla að setja einhverjar reglur sem vörðuðu eignarhald á fjölmiðlum. Nú er hins vegar samstaða um þetta og það er merkilegt skref.

Það er fleira markvert í þessum tillögum eins og rakið hefur verið í ítarlegum ræðum hér að framan. Það er hins vegar kannski rétt að hafa það í huga og undirstrika að auðvitað er nálgun nefndarinnar sem skilar skýrslu sinni núna mjög ólík þeirri nálgun sem birtist í fjölmiðlafrumvarpinu eða -frumvörpunum sem við ræddum hér á síðasta þingi, ekki síst út frá því að þá ræddum við fyrst og fremst um eignarhaldið og hugsanlegar takmarkanir á því. Í þessari nefnd hefur hins vegar verið valin sú leið að fjalla um sviðið með miklu víðtækari hætti. Það skilar þeim árangri sem við höfum hér á borðinu.

Þetta er rétt að hafa í huga, líka að minnast þess að þegar við ræddum eignarhaldið hér á síðasta þingi minnist ég þess ekki að talsmenn stjórnarflokkanna í þeirri umræðu höfnuðu því að skoða hina þættina. Menn völdu þá leið á þeim tíma að takmarka það frumvarp við eignarhaldið en nú hafa menn valið aðra leið.

Ég verð að segja að mér finnst við vera komin á merkilegan og ánægjulegan stað í umræðunni. Við getum (Forseti hringir.) verið ósammála um ýmsa hluti og munum koma inn á það á næstu mánuðum en ég held hins vegar að við öll sem hér sitjum á þingi (Forseti hringir.) höfum þá skyldu að halda umræðunni um þessi efni áfram á grundvelli þeirrar málamiðlunar sem náðst hefur en ekki að tína út (Forseti hringir.) einstök atriði. Lýk ég hér með máli mínu, herra forseti.