131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:34]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og fleiri byrja á því að þakka þá ágætu skýrslu sem hér er til umræðu. Það er ánægjulegt auðvitað að nefndin sem vann skýrsluna hafi komist að einróma niðurstöðu um þessi mál sem mjög hefur verið deilt um undanfarið árið, getum við sagt. Niðurstaðan sýnir að það var rétt sem stjórnarflokkarnir héldu fram í þeirri umræðu sem varð á síðasta ári, að ástæða væri til að huga að lagasetningu um fjölmiðlaumhverfið og eignarhald á fjölmiðlum. Nú liggja fyrir tillögur í sjö liðum, eins og hér hefur verið nefnt. og áhersla er lögð á að fjallað sé um þær allar í einni heild.

Eitt af því sem ég tel að sæti hvað mestum tíðindum við þessa niðurstöðu er að nú virðist staðfest að það sé orðin þverpólitísk sátt um að ríkið eigi að taka þátt í rekstri á samkeppnismarkaði á einu sviði, þ.e. á fjölmiðlamarkaði með rekstri Ríkisútvarpsins. Ég vek sérstaka áherslu á því að í skýrslunni er áréttað og vísað til þess að það séu viðtekin sjónarmið í Evrópusamstarfi að sérstaða fjölmiðlamarkaðarins sé svo mikil að þar nægi venjuleg markaðsnálgun ekki, eftirlit samkeppnisyfirvalda einna með samruna fyrirtækja nægi ekki til þess að tryggja fjölmiðlafjölbreytni.

Stjórnsýsla tengd fjölmiðlamálum kemur nú með einum eða öðrum hætti inn á borð fimm ráðuneyta. Útvarpsréttarnefnd og málefni Ríkisútvarpsins heyra undir menntamálaráðuneyti. Póst- og fjarskiptastofnun heyrir undir samgönguráðuneyti og hún úthlutar tíðnum til útvarpsrekstrar. Dómsmálaráðuneytið annast þau mál sem snerta prentlögin. Samkeppnisstofnun fjallar um samruna á fjölmiðlamarkaði, eins og á öðrum mörkuðum, og heyrir undir viðskiptaráðuneyti. Loks eru málefni upplýsingasamfélagsins á forræði forsætisráðuneytisins. Þetta fyrirkomulag stjórnsýslunnar er sniðið að öðrum tímum en okkar samtíma þar sem tækniþróunin er svo ör að fullkominn samruni hefðbundinna fjölmiðla, fjarskiptafyrirtækja og upplýsingatækninnar virðist í augsýn innan skamms.

Í skýrslunni kemur fram að Íslendingar hafi hingað til ekki tekið mikinn þátt í alþjóðlegri samvinnu á sviði fjölmiðlunar og þar sem mörg þau vandamál sem stjórnvöld munu glíma við í framtíðinni þarf að leysa á alþjóðavettvangi sé afar mikilvægt að byggja upp sérþekkingu hér á landi og leggja áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir.

Í samræmi við þetta tel ég athyglisverðar þær tillögur nefndarinnar að stjórnsýsla í fjölmiðlamálum verði einfölduð þannig að málefni fjölmiðla séu sem flest á verksviði eins og sama stjórnvaldsins sem starfað gæti sjálfstætt og/eða í tengslum við núverandi Póst- og fjarskiptastofnun. Annars vegar er lagt til að hlutverk núverandi útvarpsréttarnefndar verði rýmkað þannig að hún verði gerð að sjálfstæðri stofnun sem heyri undir menntamálaráðuneyti en hin leiðin felur í sér að sérstakt stjórnvald fari með málefni fjölmiðla undir núverandi Póst- og fjarskiptastofnun. Lögð er áhersla á að sérstök stjórn verði yfir þessum málaflokki í heild og fari jafnvel með úrskurðarvald. Nefndin leggur áherslu á sjálfstæði og hlutlægni slíkrar stjórnar að hætti eftirlitsstofnana.

Hæstv. forseti. Ég tel fyllsta tilefni til þess að huga frekar að tillögum nefndarinnar um að koma stjórnsýslu fjölmiðlamála fyrir á grundvelli Póst- og fjarskiptastofnunar. Sú leið er í samræmi við þá þróun sem nú á sér stað í fjarskiptatækninni og samruna hennar og hefðbundinna fjölmiðla. Póst- og fjarskiptastofnun hefur nú þegar með höndum tíðniúthlutanir fyrir ljósvakamiðla og hefur aðhalds- og eftirlitshlutverki að gegna gagnvart fjarskiptafyrirtækjunum. Þau ríki sem hafa verið í fararbroddi stjórnsýslu í þessum málum, Bretland og Finnland, hafa farið þá leið að byggja stjórnsýslu þeirra á sínum fjarskiptastofnunum. Það að fela Póst- og fjarskiptastofnun verkefni sem nú heyra undir önnur ráðuneyti er ekki einfalt mál í útfærslu en ég hygg að sú leið hljóti að finnast og hér er e.t.v. enn ein röksemdin fyrir því að menn fari að huga að endurskoðun á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins fyrr en síðar. Það er mikilvægt að sú verkaskipting sé sem skilvirkust og endurspegli sem best þau verkefni sem stjórnvöld eru að fást við á hverjum tíma.