131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[15:54]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Á fundi þingflokksformanna með forseta í morgun fór hv. þm. Ögmundur Jónasson fram á það að frumvarp vinstri grænna færi umræðulaust í gegnum þingið í þeim tilgangi að það frumvarp yrði sent út til umsagnar samhliða frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið sf.

Frumvarp vinstri grænna er breytingartillaga við lög um Ríkisútvarpið en hins vegar er frumvarpið, sem við ætlum að ræða á eftir, um Ríkisútvarpið sf. sem er allt annað frumvarp, sjálfstætt frumvarp og ekki breytingartillaga við lögin um Ríkisútvarpið. Ég gat þess strax í morgun að mér þættu ekki góð vinnubrögð að í stórum stíl væri verið að láta frumvörp fara umræðulaust í gegnum þingið án þess að þau væru kynnt við 1. umr.

Ég held að það sé mjög mikil lýðræðisleg nauðsyn að við fáum að ræða þau frumvörp hér við 1. umr., koma með athugasemdir og skoða efnisinnihaldið í þingsal áður en þau fara til nefndar og eru síðan send út til umsagnar. Hér hefur áður verið rætt um það hvernig lýðræðisleg umræða eigi að fara fram. Stundum hefur það verið gert til þess að flýta fyrir málum þegar allir væru sammála um það að láta umræðuna vera stutta hér í þingsal, en almennt viljum við auðvitað hafa umræðu hér efnislega og góða við 1. umr. Full ástæða er til að gefa sér tíma til að skoða tillögur vinstri grænna. Ég er ekki að segja að ég sé sammála þeim en ég vil gjarnan fá að skoða þær hér og ræða þær í þingsal áður en þær fara út til umsagnar og við getum þá áttað okkur á því með hvaða hætti við viljum að umfjöllunin sé hér áfram í þinginu.

Með því að tala um þetta sem einhverja sérstaka valdníðslu eða að verið sé að tefja fyrir málum er mjög komið aftan að þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað og átti sér stað á fundi þingflokksformanna í morgun. Við erum að tala um prinsippmál. Eigum við almennt að hafa það þannig að frumvörp (Forseti hringir.) fari órædd í gegnum þingið? Við erum þeirrar skoðunar að við viljum ekki (Forseti hringir.) hafa það þannig.