131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[16:00]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrir dyrum stendur að ræða um grundvallarbreytingar á Ríkisútvarpinu. Það hefur komið fram að allir flokkar á þingi hafa sett fram tillögur um þetta efni, Samfylkingin í desember, Frjálslyndi flokkurinn, ríkisstjórnin, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, sameiginlega í frumvarpi sem fram kom 15. dag marsmánaðar. Tveimur dögum síðar kom fram frumvarp frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það er grundvallarfrumvarp um fyrirkomulag og skipan Ríkisútvarpsins.

Nú heitir það í munni formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins eða staðgengils hans að þetta séu breytingartillögur. Það er alveg rétt. Við erum með breytingartillögur við lög um Ríkisútvarpið. Ríkisstjórnin hins vegar nemur í einu vetfangi brott lagaramma sem gildir um Ríkisútvarpið og geirneglir með sínum tillögum flokkspólitíska valdstjórn yfir Ríkisútvarpinu, skerðir stórlega réttindi starfsfólksins, dregur úr gagnsæi í starfsemi Ríkisútvarpsins sem hingað til hefur verið öllum sýnileg. Nú verður ekki hægt, nái frumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga, að lýsa inn í þessa stofnun eins og löggjafinn og Alþingi hefur heimild til að gera. Allt þetta verður numið brott. Og þetta á að gera í einu vetfangi.

Nú heitir það, þegar við viljum styrkja stoðir Ríkisútvarpsins, að þetta séu aumar breytingartillögur. En ríkisstjórnin sjálf ætlar að nema brott lagagrundvöll Ríkisútvarpsins, ráðast á starfsfólkið, draga úr gagnsæi og geirnegla flokkspólitíska stjórn yfir þessari stofnun. Það er hneyksli ef menn ætla að fara fram með þessum hætti. Það er hneyksli ef það á að reyna að knýja hér í gegn lagafrumvarp sem hefur þessar alvarlegu afleiðingar yfir Ríkisútvarpið.