131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[16:03]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Gæfulega byrjar það. Manni líður eins og vélstjóra um borð í gömlum skuttogara sem alltaf er að bræða úr sér. Þegar talað er um fjölmiðla verður allt vitlaust í þessum sal.

Frjálslyndi flokkurinn hefur staðið mjög ábyrgur að öllum þessum málum, og hefur gert alveg frá upphafi. Ég fór í gegnum það í ræðum mínum áðan og hér hefur líka verið talað um að það sé einmitt liggjandi inni þingmál frá flokknum. Við erum hér með þingsályktunartillögu sem var mælt fyrir fyrir mörgum vikum og er sennilega í menntamálanefnd núna, tillaga til þingsályktunar um rekstur Ríkisútvarpsins. Þrír þingmenn flokksins, sá sem hér stendur, formaður flokksins, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, og hv. þm. Sigurjón Þórðarson, eru flutningsmenn að henni.

Sú tillaga hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd, skipaða fulltrúum allra þingflokka, til að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins. Nefndin ljúki störfum innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.“ — (ArnbS: Það þarf ekkert að ræða þetta frekar.)

Þetta er okkar mál og kannski hefði farið betur á því að mark hefði verið tekið á þessari tillögu og hún afgreidd héðan frá þinginu og þessi ágæta nefnd verið skipuð. (Gripið fram í.) Kannski hefði fjölmiðlanefndin sem var að skila af sér fengið þetta verkefni. Ég hef lýst því áður yfir í heyranda hljóði í fjölmiðlum að sú ágæta nefnd, og ég þekki þá nefnd mjög vel, hefði farið létt með það að koma með góðar tillögur um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins. Þar er á ferðinni fólk sem á mjög gott með að vinna saman, fólk sem getur rætt út um hlutina og komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Ég var á fundi áðan með formönnum þingflokka og kannast við þá umræðu sem hér er komin af stað. Hv. þingmaður, þingflokksformaður Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, kom með þá tillögu um að fá að setja þetta frumvarp vinstri grænna fram hjá 1. umr. og beint inn í nefnd til að fá umsagnir um hana um leið og umsagnir yrðu fengnar væntanlega um tillögu okkar í Frjálslynda flokknum — það er jú búið að mæla fyrir henni — og svo líka frumvarp hæstv. menntamálaráðherra.

Ég fæ ekki séð af hverju frumvarp vinstri grænna þarf endilega að fara formlega í gegnum 1. umr. Ég er alveg sannfærður um það að frumvarp þeirra mun verða dregið inn í umræðurnar um frumvarp hæstv. menntamálaráðherra, hvort sem stjórnarmeirihlutanum líkar betur eða verr. Það verður rætt hér síðdegis, það verður rætt í kvöld, það verður rætt inn í nóttina, það liggur bara fyrir. Ég sé í raun og veru ekkert því til fyrirstöðu að líta stórt á þetta og leyfa þessu frumvarpi að fara fram hjá 1. umr. beint út til umsagnar. Hér eru menn eingöngu að hengja sig í formsatriði og þvæla málinu að óþörfu.

Hvers vegna getum við ekki reynt að afgreiða þessi mál eins og fólk? Okkur tókst það í fjölmiðlanefndinni. Hvað er eiginlega málið?