131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[16:06]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég allt að því kem af fjöllum við það skyndilega að sjá hérna hv. þm. Ögmund Jónasson koma í pontu, stappa niður fæti og fyllast heilagri reiði. Þetta mál varðandi frumvarp vinstri grænna var rætt á fundi í forsætisnefnd í morgun í fyrsta skipti þegar fulltrúi Vinstri grænna bar þar fram þessa ósk, hafði ekki gert það fyrr, og því var vísað til fundar formanna þingflokka.

Venjan er sú að mál eru tekin hér á dagskrá þingsins eftir númeraröð. Sú venja hefur aðeins mótast að mál sem búið er að fjalla um hérna áður og mæla fyrir og hafa farið til nefndar og til umsagnar fá að fara í gegn umræðulaust. En það er alveg út í hött að gefa til kynna að þetta sé eitthvert offors hjá stjórnarflokkunum, eitthvert offors hjá ríkisstjórninni. Þetta er bara spurningin um vinnulag í þinginu.

Það hefur verið venja þegar komið hefur fram ósk um að mál fari í gegn umræðulaust að það sé háð samþykki allra þingflokka. Menn hafa brugðist við því þegar ástæður eru til, og fyrst og fremst hefur þetta verið gert þegar mál hafa verið rædd hér í þinginu áður, koma fram breytt eftir umsagnarferli og það er verið að leitast við að koma þeim til nefndar aftur.

Mér finnast þessi viðbrögð hv. þm. Ögmundar Jónassonar gjörsamlega út úr kú, öll þessi heilaga reiði og stapp hér og verið að álasa ríkisstjórnarflokkunum — og ríkisstjórninni sjálfri, eins og hún hafi komið að þessari ákvörðun — um eitthvert offors í þessu máli. Þetta er gjörsamlega út í hött. (ÖJ: Heimskuleg vinnubrögð.)