131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[16:08]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla í upphafi að gera verulegar athugasemdir við stjórn forseta á fundinum. Hér er undir þessum lið um stjórn fundarins tekin upp efnisleg umræða um mál. Það gerði hv. þm. Ögmundur Jónasson og það gerði hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson, og ég tel að forseti eigi að gera athugasemdir við það þegar menn eru farnir að ræða hér efnislega um mál undir þessum lið. Þessi liður er hugsaður til þess að ræða stjórn fundarins og á þeim forsendum hófst þessi umræða hér núna.

Ég fer þess á leit við forseta að þegar svona lagað kemur upp sé reynt að hafa þá stjórn á að menn séu ekki í efnislegri umræðu um einstök mál þegar við ætlum að ræða stjórn fundarins.

Hæstv. forseti. Það er mín afstaða að það sé full ástæða til að ræða hér við 1. umr. breytingartillögu hv. þingmanna Vinstri grænna við lög um Ríkisútvarpið og þar séu mörg efnisleg atriði sem full ástæða er til að ræða hér við 1. umr. Því er engin ástæða til að hleypa því frumvarpi umræðulaust hér í gegn til að það fái ekki efnislega umræðu í þinginu, engin ástæða til þess. (ÖJ: Bara að koma í veg fyrir að það fái umsögn úti í þjóðfélaginu.) (Gripið fram í: Já.) (ÖJ: Það er málið.)