131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[16:10]

Magnús Stefánsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki alveg þessa uppákomu hér hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ef ég skil hvað hann var að fara þá var hann að fjalla um það hvort frumvarp vinstri grænna mætti fara umræðulaust gegnum þingið og til menntamálanefndar. Ég var á formannafundi þingflokksformanna eftir hádegið þar sem þessi ósk kom fram og þá lá náttúrlega fyrir dagskrá þessa fundar. Hún lá fyrir. Þessi ósk kom fram og ég veit ekki til að nein niðurstaða hafi verið fengin um það að þetta yrði ekki gert með þessum hætti eða einhverjum öðrum. Sá var a.m.k. minn skilningur og ég vona að hann sé réttur. Ég var beðinn um að ræða málið í mínum þingflokki og ég gerði það. Ég botna ekki alveg í því af hverju hv. þingmaður gýs á þessum tímapunkti upp út af þessu máli.

Hitt er annað mál að það var ágætt að hrista okkur aðeins upp því að umræðan í dag er búin að vera ósköp róleg. Það er út af fyrir sig ágætt að fríska aðeins við andann hér í þingsalnum. En ég lít ekki svo á að þessari ósk hafi verið hafnað enn þá þannig að ég botna ekkert í þessu.