131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[16:13]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið sf., en endurskoðun laga um Ríkisútvarpið og vinna við samningu frumvarps þess á sér töluverðan aðdraganda. Eins og kunnugt er var frumvarp til nýrra útvarpslaga lagt fram á 125. löggjafarþingi, í nóvember 1999, og samþykkt sem lög frá Alþingi í maímánuði árið 2000. Með hinum nýju útvarpslögum voru felld úr gildi útvarpslög frá 1985, með síðari breytingum, en þó ekki ákvæði laganna sem vörðuðu Ríkisútvarpið. Heiti þeirra laga varð lög um Ríkisútvarpið og voru þau síðan gefin út breytt með nýjum greinanúmerum, lög nr. 122/2000.

Núgildandi útvarpslög mynda almennan ramma um alla útvarpsstarfsemi í landinu, bæði sjónvarp og hljóðvarp. Í áliti menntamálanefndar, þar sem mælt var með samþykkt útvarpslagafrumvarpsins, kom fram það álit nefndarinnar að nauðsynlegt væri að endurskoða lagaákvæði um Ríkisútvarpið og endurmeta hlutverk þess í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Lagði nefndin áherslu á að þeirri vinnu yrði hraðað.

Mikil umræða hefur átt sér stað á undanförnum árum um nauðsyn þess að endurskoða lög um Ríkisútvarpið og sjálf hef ég lengi verið þeirrar skoðunar, ekki síst eftir að hafa fengið að kynnast starfsemi þess af eigin raun, og lýsti ég þessu strax yfir líka þegar ég tók við embætti menntamálaráðherra. Hófst þá vinna við að breyta fyrirkomulaginu varðandi Ríkisútvarpið.

Núverandi stjórnskipulag stofnunarinnar hefur ítrekað verið gagnrýnt og leyfi ég mér að halda því fram að það sé almenn skoðun hér á landi að rétt sé að breyta rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins með það að markmiði að styrkja rekstur þess og efla það mikilvæga menningarhlutverk sem stofnunin hefur að gegna í þjóðfélaginu. Þá hefur núverandi fyrirkomulag á fjármögnun stofnunarinnar með afnotagjöldum verið gagnrýnt lengi. Menntamálaráðuneytið hefur um nokkurt skeið unnið að tillögum til breytinga á lagaákvæðum um Ríkisútvarpið og nú á síðari stigum unnið náið að endanlegri útfærslu þessa frumvarps sem ég legg núna fyrir hið háa Alþingi, m.a. í samræmi við óskir menntamálanefndar Alþingis sem ég nefndi hér að framan.

Svo að vikið sé að helstu nýmælum sem frumvarp þetta hefur að geyma eru þau þessi: Í fyrsta lagi er ráðgert með frumvarpi þessu að leggja niður ríkisstofnunina Ríkisútvarpið og stofna samtímis sameignarfélag um reksturinn. Með því er rekstrarformi Ríkisútvarpsins breytt og reksturinn yfirfærður í félagsform. Ábyrgð ríkisins á rekstri sameignarfélagsins er ótakmörkuð sem fyrr.

Í öðru lagi er mælt fyrir um afnám afnotagjalda frá og með 1. janúar 2008 og lagt til að tekna til reksturs sameignarfélagsins verði aflað með sérstökum nefskatti sem lagður er á einstaklinga og lögaðila, auglýsingatekjum og öðrum tekjum sem Alþingi kann að ákveða sérstaklega.

Í þriðja lagi er stjórnun félagsins breytt. Útvarpsráð er lagt niður í núverandi mynd og við tekur sérstök rekstrarstjórn sem ræður útvarpsstjóra sem síðan ræður allt annað starfslið félagsins.

Auk framangreinds er lagt til að fella niður þátttöku þess í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ekki er mælt fyrir um þá breytingu í frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið sf. en lagt fram sérstakt frumvarp um breyting á lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem m.a. verður felld niður greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar. Það ræðum við hér á eftir, hæstv. forseti.

Sú leið hefur verið farin í auknum mæli á undanförnum árum, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, að breyta ríkisstofnunum í sjálfstæð félög, og þá ýmist þannig að félögin séu alfarið í eigu ríkisins, þau seld á markaði eða einhver hluti þeirra seldur öðrum aðilum. Frumvarpið byggir á því að ríkið eigi allan eignarhlut í Ríkisútvarpinu sf., og sala félagsins eða eignarhluta þess svo og slit þess séu óheimil án samþykkis Alþingis.

Við samningu frumvarpsins var ekki farin sú leið að stofna hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins. Ástæða þess er sú að Ríkisútvarpið hefur sérstöðu, hér er um að ræða félag sem ekki er ráðgert að selja og staða þess því ekki sambærileg stöðu t.d. Landsbanka Íslands, Búnaðarbankans eða Símans. Með því að stofna sameignarfélag um rekstur Ríkisútvarpsins gefst tækifæri á að nýta þá kosti sem félagarekstur hefur í för með sér en halda enn fremur í þau sérkenni sem einkenna Ríkisútvarpið og með þeim hætti sameina kosti bæði opinbers rekstrar og einkarekstrar.

Auk framangreinds er ástæða til að taka fram að það rekstrarform sem felst í sameignarfélagsforminu felur í sér ótakmarkaða ábyrgð á skuldum og skuldbindingum Ríkisútvarpsins, en ekki takmarkaða ábyrgð eins og hlutafélagaformið hefur í för með sér. Rétt þykir hins vegar að takmarka nokkuð svigrúm stjórnar til að baka félaginu fjárhagslegar skuldbindingar og er því að finna í lögunum ákvæði um að vilji stjórnin undirgangast nýjar ábyrgðir eða skuldbindingar sem nema hærri fjárhæð en sem svarar 10% af veltu næstliðins árs skuli leitað eftir heimild menntamálaráðherra. Sambærilegt ákvæði er að finna í lögum um sameignarfélagið Landsvirkjun en þar er miðað við 5% ef eigin fé.

Fjárhæð nefskatts, u.þ.b. kr. 13.500, er ákvörðuð með tilliti til núverandi tekna Ríkisútvarpsins, að þær haldist því sem næst óbreyttar, en að fjárframlag til Sinfóníuhljómsveitarinnar verði lagt af. Það hefur numið um 25% af tekjum hljómsveitarinnar, eða sem svarar til 120 millj. kr. á ári. Við útreikning nefskattsins er við það miðað að Ríkisútvarpið sf. standi straum af 2,6 milljarða kr. skuldabréfi stofnunarinnar vegna áður áfallinna lífeyrisskuldbindinga við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins en afborgun af því á ári nemur um 220 millj. kr.

Loks er nefndur sá möguleiki í athugasemdum í greinargerð frumvarpsins að menntamálaráðherra geri samning við Ríkisútvarpið sf. til nokkurra ára í senn þar sem kveðið verði á um markmið og annað í starfsemi Ríkisútvarpsins sem ríkisstjórn og menntamálaráðherra ætla félaginu að uppfylla. Er hér m.a. vísað til samsetningar útsendrar dagskrár með tilliti til innlends dagskrárefnis, efnis ætluðu börnum eða sérstökum aldurshópum, fræðslu- og heimildaefnis, íþróttaefnis og annars þess sem við kann að eiga hverju sinni. Ég kem að því síðar.

Með hliðsjón af því sem ég hef rakið eru meginatriði frumvarpsins þessi:

1. Rekstrarformi Ríkisútvarpsins verður breytt með því að stofnað verður sameignarfélag. Í meginatriðum hagi félagið starfsemi sinni í samræmi við almennar reglur um sameignarfélög og Ríkisútvarpið fái þann sveigjanleika í rekstri sem á að fylgja því að breytast úr ríkisstofnun í sameignarfélag. Þá er og gert ráð fyrir því að félagið verði sjálfstæður skattaðili og starfi þannig við sömu skilyrði í landinu og önnur félög.

2. Ríkið verður eigandi félagsins, og verður sala þess, slit eða innkoma nýrra sameigenda óheimil án samþykkis Alþingis.

3. Ríkissjóður leggur allar eignir, réttindi, viðskiptavild, skuldir og skuldbindingar Ríkisútvarpsins til sameignarfélagsins. Ríkisútvarpið sf. fær með lögunum leyfi til útvarps á þeim rásum og á þeim tíðnisviðum sem Ríkisútvarpið hefur til umráða eða kann síðar að verða úthlutað.

4. Starfsemi Ríkisútvarpsins sf. er skilgreind sem útvarp í almannaþágu („public service broadcasting“). Skyldur félagsins eru tilgreindar í samræmi við þetta hlutverk. Það er rétt að hafa það í huga.

5. Ríkisútvarpinu sf. er heimilað að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum í samræmi við tilgang þess og efna til samvinnu við aðra aðila, þó með fyrirvara um fjárhagslegan aðskilnað milli slíkrar starfsemi og aðalstarfseminnar þar sem það á við. Er m.a. verið að bregðast við ríkisstyrkjareglum sem gilda hér á landi samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en þar er kveðið á um reikningslegan aðskilnað útvarpsstarfsemi í almannaþágu og samkeppnisrekstrar.

6. Menntamálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu. Í því felst m.a. að hann kýs stjórn á aðalfundum félagsins sem hingað til hefur verið kjörin af Alþingi. Hins vegar árétta ég að horfið er frá því að ráðherra hafi ráðningarvald yfir tilteknum starfsmönnum Ríkisútvarpsins sf., eins og er samkvæmt gildandi lögum um Ríkisútvarpið með skipun útvarpsstjóra annars vegar og hins vegar ráðningu framkvæmdastjóra.

7. Hlutverk stjórnar er í meginatriðum hið sama og stjórna almennt í félögum sem starfa á samkeppnismarkaði. Stjórnin hefur yfirumsjón með rekstri og er ætlað að skipuleggja starfsemi félagsins ásamt stjórnendum þess. Felld eru brott öll ákvæði um deildaskiptingu fyrirtækisins enda þykja slík ákvæði ekki lengur eiga heima í lögum. Þá er það ekki talið meðal verkefna stjórnar fyrirtækisins að hafa afskipti af dagskrá. Útvarpsstjóri er æðsti yfirmaður dagskrárgerðar og tryggir þetta fyrirmæli ritstjórnarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins sf. Gert er ráð fyrir því að nánari útfærslu á innra skipulagi félagsins verði síðan lýst í stofnsamningi sameignarfélagsins.

8. Útvarpsstjóri verður æðsti stjórnandi Ríkisútvarpsins sf. í daglegum rekstri, bæði framkvæmdastjóri og yfirmaður allrar dagskrárgerðar. Er sjálfstæði útvarpsstjóra aukið frá því sem nú er. Það verður stjórn félagsins sem ræður útvarpsstjóra og hefur yfir honum að segja. Útvarpsstjóri ræður síðan aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins sf. án umsagnar eða tillagna annarra aðila eins og útvarpsráðs í dag.

9. Eins og ég hef þegar nefnt gerir frumvarpið ráð fyrir því að útvarpsráð verði lagt niður og þar með hætt afskiptum þess af dagskrá samkvæmt gildandi lögum. Er þetta enn einn liðurinn í þeirri stefnu að treysta sjálfstæði Ríkisútvarpsins sf. og starfsmanna félagsins.

10. Ríkisútvarpið sf. verður stofnað með setningu laganna og framlag ríkissjóðs verður 5 millj. kr.

11. Tryggilega er búið um réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins. Allir þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem við gildistöku laganna eru ráðnir ótímabundinni ráðningu eða eru skipaðir skulu eiga rétt á störfum hjá Ríkisútvarpinu sf. við yfirtöku þess á starfsemi Ríkisútvarpsins. Er gert ráð fyrir að með hinum fyrirhuguðu lögum verði þeim veittur fortakslaus réttur til starfa hjá félaginu, sambærileg þeim sem þeir gegndu áður hjá Ríkisútvarpinu. Þá eru ákvæði um rétt starfsmanna hins nýja félags til aðildar að A-deild LSR auk þess sem biðlaunaréttur til starfsmanna helst óbreyttur þiggi þeir starf hjá hinu nýja félagi. Með þessu er reynt að valda sem minnstri röskun á högum starfsfólks. Réttindi þess eiga að vera óbreytt og óskert.

12. Tekjustofnar félagsins breytast þannig að sérstakt gjald, nefskattur, er lagt á þá einstaklinga sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögaðila sem skattskyldir eru skv. 2. gr. sömu laga. Fram að þeim tíma, þ.e. til og með 31. desember 2007, verður lagt á og innheimt afnotagjald með sama hætti og verið hefur. Þannig er gert ráð fyrir því að frá og með 1. janúar 2008 falli niður öll ákvæði núgildandi laga um Ríkisútvarpið er varða afnotagjald og innheimtu þess. Til að tryggja stofnuninni sömu tekjur og hún nýtur í dag er talið að gjald það sem lagt er á hvern einstakling og lögaðila þurfi að nema um 13.500 kr. á ári. Alls leggst gjaldið á um 160 þús. einstaklinga á aldursbilinu 16–70 ára og um 22 þús. lögaðila. Gjaldið lýtur sömu lögmálum og sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um málefni aldraðra til tekjuöflunar fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra. Tekjutrygging gjaldsins þýðir að tekjulausir eða tekjulágir einstaklingar greiða ekkert gjald.

13. Ákvæði útvarpslaga eiga að gilda um Ríkisútvarpið sf. að því leyti sem ekki eru sett sérákvæði um félagið samkvæmt þessu frumvarpi.

14. Með frumvarpinu er leitast við að einfalda innra skipulag Ríkisútvarpsins og einungis lýst helstu atriðum varðandi innra skipulag Ríkisútvarpsins sf. Því eru ekki tekin upp í frumvarpinu ýmis ákvæði sem er að finna í gildandi lögum um Ríkisútvarpið, um rekstrarleg atriði sem eðlilegast er að stjórn félagsins og daglegir stjórnendur taki ákvarðanir um.

15. Í stórum dráttum munu gilda svipaðar reglur um Ríkisútvarpið sf. og giltu áður um Ríkisútvarpið samkvæmt útvarpslögunum og nú samkvæmt gildandi lögum um Ríkisútvarpið frá árinu 2000 að því leyti sem ekki hefur verið gerð grein fyrir breytingum hér að framan.

Ég tel rétt í þessari framsöguræðu, virðulegi forseti, að fara nokkrum orðum um þá formbreytingu sem frumvarp þetta byggir á að verði á rekstri Ríkisútvarpsins verði það að lögum. Ég hef þegar gert grein fyrir því af hverju sú leið var farin að stofna frekar sameignarfélag um rekstur Ríkisútvarpsins en t.d. hlutafélag. Vísa ég í því sambandi til sérstöðu Ríkisútvarpsins sem m.a. felst í því að ekki er ráðgert að það verði selt á frjálsum markaði eins og til að mynda var gert með ríkisbankana. Sameignarfélagsformið felur á móti í sér tækifæri til að nýta þá kosti sem félagarekstur hefur í för með sér en halda enn fremur í þau sérkenni sem einkenna Ríkisútvarpið og með þeim hætti sameina kosti bæði opinbers rekstrar og einkarekstrar. Þá felur sameignarfélagsformið í sér ótakmarkaða ábyrgð á skuldum og skuldbindingum Ríkisútvarpsins, en ekki takmarkaða ábyrgð eins og hlutafélagaformið hefur í för með sér.

Hafa ber í huga að ríkisreknar útvarpsstöðvar eru hugsaðar sem opinberar þjónustustofnanir. Er þeim ætlað að flytja vandað efni, sérstaklega af innlendum og menningarlegum toga, sem ekki sé víst að útvarpsstöðvar, sem eingöngu eru reknar með viðskiptasjónarmið í huga, telji arðvænlegt að láta gera eða flytja. Einnig er sú krafa gerð til ríkisstöðvanna að þær tryggi vissa fjölbreytni í efnisvali og efnismeðferð og tryggi að skoðanir og sjónarmið í þýðingarmiklum þjóðfélagsmálum, er almenning varða, komist á framfæri, sem og að um mál sé fjallað málefnalega og af hlutlægni. Á seinni tímum er því m.a. haldið fram að almenningur eigi kröfu á því að geta gengið að a.m.k. einni opinni sjónvarpsrás, og styðst sú röksemd við hugmyndina um hið svokallaða upplýsingasamfélag. Það er skýr stefna í öllum Evrópuríkjum að starfrækt skuli útvarp í almenningsþágu í formi opinberra þjónustufyrirtækja, nú orðið víðast hvar við hlið útvarps einkaaðila í viðskiptalegum tilgangi.

Þar sem ríkið rekur útvarpsstarfsemi verður að gera þá kröfu að sá rekstur sé eins hagkvæmur og við verður komið. Þykir þetta best verða gert þannig að fjárhagslegum rekstri fyrirtækisins verði hagað sem líkast rekstri einkafyrirtækis og þá í sameignarfélagsformi. Það er þekkt víða í Evrópu að ríkisútvarpsstöðvarnar séu reknar af sjálfstæðum félögum.

Helstu kostir þess að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sameignarfélagsform er að ábyrgð stjórnenda verður aukin og þeir verða sjálfstæðari í störfum sínum. Þá gefst með breytingu í sameignarfélag færi á að skilgreina verkaskiptingu á milli daglegra stjórnenda og stjórnar. Í frumvarpinu hefur verið leitast við að skerpa nokkuð skilgreininguna á verkaskiptingunni milli framkvæmdastjóra eða útvarpsstjóra og samstarfsmanna hans og stjórnar, sem er í 9. og 10. gr. Þá skiptir miklu að stjórnendur í sameignarfélagi geta brugðist skjótar við breyttum markaðsaðstæðum og öðrum breytingum á aðstæðum en stjórnendur ríkisstofnunar. Þar með á fyrirtækið að vera betur í stakk búið til að standast samkeppni og skila hagnaði.

Loks má nefna að sameignarfélagi eru ekki settar eins þröngar skorður í starfsemi sinni og ríkisstofnun. Að sjálfsögðu er þó ekki gert ráð fyrir því í frumvarpi þessu að Ríkisútvarpið geti eftir rekstrarformsbreytingu ráðist í verkefni sem eru alls óskyld grundvallarhlutverki þess. Það er rétt að hafa það í huga. Hins vegar er beinlínis gert ráð fyrir því að fyrirtækið geti tekið upp samvinnu við aðra aðila, staðið að stofnun nýrra fyrirtækja, gengið inn í starfandi félag, allt innan marka tiltekinna tengsla við hina reglulegu starfsemi þess, sbr. 2. mgr. 3. gr., 5. og 6. gr. frumvarpsins. Er mælt fyrir um að slíkur rekstur verði fjárhagslega aðskilinn grunnrekstri félagsins, sbr. 2. mgr. 6. gr. Aukið sjálfstæði félagsins og svigrúm þess til athafna á svo að skila sér til allra starfsmanna þess í betri möguleikum til framtaks í starfi og þar með áhugaverðari starfsvettvangi. Því mæla öll rök með því að breyta Ríkisútvarpinu í sameignarfélag þó að ríkið verði áfram eigandi félagsins.

Þá ber að geta þess að nýtt frumvarp um sameignarfélög er í vinnslu hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Af efni frumvarps þessa er ljóst að byggja verður fyrst um sinn á almennum ólögfestum reglum félagaréttar um sameignarfélög, en þegar fyrrgreint frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra verður orðið að lögum má gera ráð fyrir því að taka þurfi tillit til efnis þeirra við rekstur Ríkisútvarpsins.

Frá þessu er a.m.k. ein undantekning, og lýtur hún að því hversu margir eigendur koma að rekstri sameignarfélagsins. Af almennum reglum félagaréttarins leiðir að eigendur sameignarfélags verði að vera a.m.k. tveir. Hér er hins vegar farin sú leið að einungis einn eigandi verður að félaginu, þ.e. íslenska ríkið. Sú leið sem hér er lögð til byggist á fyrri framkvæmd þegar félög hafa verið stofnuð um rekstur ríkisstofnana. Má sem dæmi nefna 2. gr. laga nr. 75/1994, um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi, og 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Í fyrrgreindum ákvæðum — og það er rétt að veita þessu athygli — var veitt heimild til stofnunar hlutafélaga þrátt fyrir þann áskilnað í þágildandi hlutafélagalögum að fleiri hluthafa þyrfti til stofnunarinnar.

Í greinargerð frumvarps þessa er með ítarlegum hætti fjallað um tekjustofna þá sem Ríkisútvarpinu sf. er ætlað að spila úr. Veigamesta breytingin frá núverandi fyrirkomulagi er, eins og ég hef þegar nefnt, að í stað núverandi afnotagjaldsfyrirkomulags verði tekinn upp nefskattur. Í almennum athugasemdum frumvarpsins er gerð nokkur grein fyrir mismunandi tekjustofnum sem evrópskum útvarpsstöðvum eru fengnir og þeirri þróun sem orðið hefur í Evrópu í þessum efnum á undanförnum árum. Meginatriði í þeirri umfjöllun er að ákvarðanir um tekjuöflun til útvarps í almannaþágu verði hér eftir sem hingað til á valdsviði hvers aðildarríkis Evrópusambandsins og búast megi við að það sama muni gilda áfram á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hér á landi hefur það fyrirkomulag verið tíðkað lengi að Ríkisútvarpið fái greidd afnotagjöld, lagt hefur verið gjald á eigendur útvarpsviðtækja. Þá hefur Ríkisútvarpið tekjur af auglýsingum og í framkvæmd hefur stofnunin einnig tekjur af þáttum sem í þessu tilliti er jafnað til auglýsinga, svo sem af kostun einstakra dagskrárliða, og fjarsölu.

Allt frá upphafi sjónvarpsreksturs á árinu 1966 hafa verið leyfðar auglýsingar í sjónvarpi Ríkisútvarpsins og stofnunin haft af þeim tekjur. Sú ráðstöfun hefur ætíð verið nokkuð umdeild, upphaflega gagnrýnd af dagblöðunum sem töldu með þessu vegið að tekjuöflunarmöguleikum sínum, en á síðari árum hefur gagnrýnin einkum komið frá keppinautum á sjónvarpsmarkaði sem einnig hafa gagnrýnt lögbundið afnotagjald til Ríkisútvarpsins. Í skýrslu starfshóps um endurskoðun á útvarpslögum frá 1996 kom fram sú tillaga meiri hluta starfshópsins að Ríkisútvarpið hyrfi alveg af auglýsingamarkaði. Var augljóslega á því byggt í skýrslunni, að því er sjónvarpsstöðvar varðar, að í vændum væri mikil samkeppni milli einkarekinna sjónvarpsstöðva. Sú hefur hins vegar ekki orðið raunin.

Ef sjónvarp Ríkisútvarpsins hyrfi af auglýsingamarkaði við núverandi aðstæður yrði í reynd engin samkeppni um auglýsingaframboð í sjónvarpi. Þar yrðu nánast tveir aðilar eftir á auglýsingamarkaði. Er rétt að undirstrika að m.a. hafa auglýsendur sagt líklegt að verð á auglýsingum muni hækka ef Ríkisútvarpið verði tekið af markaði, og þar af leiðandi yrði hugsanlega óbein afleiðing af því hækkað vöruverð til neytenda. Hver sem þróunin kann að verða í framtíðinni þykir ekki rétt að leggja það til nú að hætt verði auglýsingum í sjónvarpi Ríkisútvarpsins.

Önnur sjónarmið koma hins vegar til álita um auglýsingar í hljóðvarpi en eiga við um auglýsingar í sjónvarpi. Á hljóðvarpssviðinu er veruleg samkeppni en hún er hins vegar að mestu leyti bundin við þéttbýlissvæði. Hljóðvarpsstöðvum hefur yfirleitt ekki tekist að byggja upp dreifikerfi sín þannig að þær nái til landsins alls, trúlega vegna þess að auglýsingatekjur þeirra hafa ekki leyft slíkar fjárfestingar. Í þessu frumvarpi er ekki gerð tillaga um að Ríkisútvarpinu sf. verði bannað að afla tekna með auglýsingum í hljóðvarpi. Kemur þar fyrst og fremst tvennt til. Annars vegar þarf að taka slíka ákvörðun með góðum fyrirvara svo að þeir aðilar sem fyrir eru á markaðnum og aðilar sem við breyttar aðstæður gætu haft hug á að fara inn á markaðinn hafi nægan tíma til þess að laga sig að nýju umhverfi. Hins vegar hefur hljóðvarp Ríkisútvarpsins svo mikla útbreiðslu að ótækt þykir að svipta viðskiptalífið og allan almenning svo öflugum auglýsingamiðli án þess að gerðar hafi verið aðrar ráðstafanir sem líklegar séu til að bæta upp þann missi — og þá með það einnig í huga að búið verði í haginn fyrir samkeppni á þessum markaði. Eins og málum er nú háttað verður naumast hjá því komist að líta á auglýsingaþjónustu í hljóðvarpi Ríkisútvarpsins sem þátt í opinberu þjónustuhlutverki þess. Þykir af framangreindum ástæðum ekki fært að leggja það til nú að auglýsingum verði hætt í hljóðvarpi Ríkisútvarpsins.

Afnotagjald RÚV hefur einnig verið umdeildur tekjustofn. Þeir sem andvígir eru opinberum útvarpsrekstri hafa andmælt gjaldinu sem gjaldtöku fyrir þjónustu sem þeir óski ekki eftir. Er sú röksemd skiljanleg þegar litið er á hana frá sjónarhóli þeirra sem telja ekki þörf fyrir það að ríkið standi að rekstri fjölmiðla. Einnig hafa ýmsir þeir sem aðhyllast eða geta sætt sig við útvarpsrekstur ríkisins látið í ljósi efasemdir um að innheimta afnotagjalds sé eðlilegasta leiðin til tekjuöflunar fyrir Ríkisútvarpið. Starfshópurinn um endurskoðun á útvarpslögum, sá sem fyrr er nefndur, lagði t.d. til að afnotagjalda- og innheimtukerfi Ríkisútvarpsins í núverandi mynd yrði lagt niður, enda væri sú skipan í senn þunglamaleg, kostnaðarsöm og óskilvirk. Lagði starfshópurinn til að Ríkisútvarpinu yrðu fengnar tekjur með nefskatti, innheimtum af öllum landsmönnum eldri en 16 ára og af öllum lögaðilum í landinu. Til vara lagði starfshópurinn til að Ríkisútvarpið yrði flutt frá B-hluta og yfir á A-hluta ríkisreiknings þannig að rekstur stofnunarinnar byggðist á framlagi fjárveitingavaldsins samkvæmt samþykkt fjárlaga hverju sinni. Það er rétt að geta þess að nýleg skoðanakönnun gerð af hálfu Gallups leiddi í ljós að nefskattsleiðin nýtur mests fylgis meðal þjóðarinnar.

Við samningu frumvarps þessa hefur fjármögnun á rekstri Ríkisútvarpsins komið til skoðunar. Varð niðurstaðan sú að leggja til að fjármögnun í formi afnotagjalds yrði felld niður frá 1. janúar 2008 en þess í stað kæmi sérstakt gjald sem leggst á skattskylda einstaklinga og lögaðila. Sú niðurstaða styðst aðallega við þrenns konar rök. Í fyrsta lagi hefur þessi leið í för með sér sparnað þar sem sérstakur kostnaður við innheimtu afnotagjalds fellur niður. Í öðru lagi fylgir sá annmarki núverandi fyrirkomulagi að allir þeir sem gerast áskrifendur að einkarekinni sjónvarpsstöð og kaupa sér sjónvarpstæki til að njóta þjónustu hennar verða sjálfkrafa greiðendur afnotagjalda til Ríkisútvarpsins þar sem greiðsla afnotagjaldsins er bundin við eign á viðtæki. Með því að afnema tengsl viðtækjaeignar við greiðslu til Ríkisútvarpsins eru hin neikvæðu áhrif á viðskipti sjónvarpsnotenda við einkaaðila upprætt að þessu leyti. Í þriðja lagi leiðir breytingin til þess að kostnaður hinna tekjulægstu einstaklinga við að njóta útvarps í almannaþágu fellur niður.

Á árinu 2003 námu afnotagjöld rúmlega 2,1 milljarði króna af tæplega 3 milljarða króna rekstrartekjum Ríkisútvarpsins, þ.e. tæplega 69% af rekstrartekjum. Við þá breytingu á rekstri Ríkisútvarpsins sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir er á því byggt að réttindi starfsmanna verði tryggð með eðlilegum hætti og kveðið á um rétt þeirra til sambærilegra starfa hjá sameignarfélaginu, biðlaunarétt og lífeyrisréttindi. Haft hefur verið að leiðarljósi að ekki verði hallað á réttindi starfsmanna stofnunarinnar við breytingu á rekstrarform hennar. Meðal annars hefur verið höfð hliðsjón af fyrri framkvæmd þegar ríkisstofnunum hefur verið breytt í rekstrarfélög, svo og niðurstöðu dóma sem gengið hafa í málum út af réttarstöðu starfsmanna við breytingu ríkisfyrirtækja í sjálfstæð fyrirtæki. Starfsmönnum Ríkisútvarpsins er í bráðabirgðaákvæði II í frumvarpinu tryggður réttur til sambærilegra starfa hjá Ríkisútvarpinu sf. og þeir hafa haft hjá stofnuninni.

Jafnframt er mælt fyrir um rétt starfsmanna þegar þeim hefur verið boðin sambærileg staða og þeim veittur eðlilegur frestur til að segja til um það ef þeir hyggjast ekki nýta þann rétt til starfa sem umrætt ákvæði tryggir þeim. Þá er mælt fyrir um að þeir starfsmenn sem hafa áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna og ráðast enn fremur til starfa hjá sameignarfélaginu eigi ekki rétt á bæði lífeyrisgreiðslum og launagreiðslum að því tilskildu að þau haldi óskertum launum sínum hjá félaginu.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir meginþætti og mun núna fara yfir einstakar greinar frumvarpsins eftir því sem þörf er á.

Ég hef farið nokkuð ítarlega yfir það að Ríkisútvarpið sé sameignarfélag í eigu ríkisins og að frumvarpið styrki nú enn frekar sjálfstæði Ríkisútvarpsins með breyttri stjórnun þess. Ritstjórnarlegt sjálfstæði er treyst með því að útvarpsstjóri er æðsti yfirmaður dagskrárgerðar og sjálfstæði hans aukið, auk þess sem ekki þarf lengur að leita tillagna pólitísks kjörins útvarpsráðs um ráðningu starfsfólks, og afskipti þess af dagskránni eru afnumin.

Öll ákvæði frumvarpsins sem ætlað er að styrkja sjálfstæði Ríkisútvarpsins sf. sem útvarps í almannaþágu eru í samræmi við tillögu og tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 1996 til aðildarríkja þess um tryggingu fyrir sjálfstæði útvarps í almannaþágu, einkum að því er varðar ritstjórnarlegt og stofnanalegt sjálfstæði.

Í 3. gr. er fjallað um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins sf. og hlutverk þess sem útvarps í almannaþágu er skilgreint. Er sú skilgreining sett fram með mun nákvæmari hætti en er í gildandi lögum um Ríkisútvarpið. Almennt má segja að fylgt sé nokkuð hefðbundinni skilgreiningu á skyldum útvarps í almannaþágu, að flutt sé vandað og fjölbreytt dagskrárefni sem nái til allra landsmanna, lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi séu virt, lögð sé rækt við þjóðleg gildi, efnisval sé miðað við þarfir sem flestra þjóðfélagshópa, gætt sé óhlutdrægni, stutt við ýmiss konar menningarstarfsemi, haldið uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu — það er rétt að vekja athygli á því að það er í fyrsta skipti sem öryggishlutverk Ríkisútvarpsins er lögfest — og starfsemin sé innt af hendi með sem fullkomnustum tækjabúnaði.

Varðandi þetta ákvæði vil ég minna á að ríkisstyrkjareglur sem í gildi eru á Evrópska efnahagssvæðinu leggja þær skyldur á herðar okkar að skilgreint sé í löggjöf hvað telst falla undir útvarpsstarfsemi í almannaþágu sem nýtur ríkisstyrkja. Mikilvægt er að heimildir í þessu sambandi séu víðtækar til að hefta ekki þátttöku Ríkisútvarpsins í þeirri hröðu framþróun sem er í útvarpsrekstri og þeirri tækniþróun sem henni fylgir.

Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að í útvarpsrekstri í almannaþágu á Vesturlöndum séu fordæmi fyrir því að viðkomandi fagráðherra geri stjórnunarsamning við það félag sem annast slíkan útvarpsrekstur fyrir hönd ríkisvaldsins. Ég tel að skoða beri þann kost gaumgæfilega að gera samning af þessu tagi milli Ríkisútvarpsins annars vegar og menntamálaráðuneytisins hins vegar. Í slíkum samningi yrði hlutverk Ríkisútvarpsins sem útvarps í almannaþágu skilgreint með nánari hætti og jafnframt sett fram ákveðin og skýr markmið um það hvernig Ríkisútvarpinu beri að uppfylla það hlutverk sem því er ætlað samkvæmt lögum. Horfi ég ekki síst til þess hvernig hægt er að efla metnaðarfulla innlenda dagskrárgerð. Slíkur samningur mundi jafnframt verða til að skýra þær kröfur sem gerðar eru til Ríkisútvarpsins á hverjum tíma og hvernig ætlast er til að það uppfylli þær kröfur. Þetta er ekki ósvipað og gert hefur verið milli stjórnvalda og BBC í Bretlandi. Þannig væri tryggt að það aukna svigrúm sem Ríkisútvarpið öðlast með samþykkt þessa frumvarps nýttist sem best í þágu þeirra samfélagslegu skyldna sem Ríkisútvarpinu er ætlað að uppfylla.

Í 6. gr. frumvarpsins er síðan fjallað um þátttöku Ríkisútvarpsins í nýrri starfsemi. Mælt er fyrir um heimild til handa Ríkisútvarpinu til að standa að annarri starfsemi sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti, þar á meðal á sviði fjarskipta og margmiðlunar eða öðrum sviðum sem fjölmiðlum tengjast.

Síðan segir að félagið geti gert þetta hvort sem er innan eigin vébanda eða með því að standa að öðrum fyrirtækjum í þessu skyni sem félagið á eitt eða með öðrum aðilum. Undir ákvæði þessarar greinar fellur m.a. hvers konar nýsköpunarstarf á þeim sviðum sem hér um ræðir.

Ríkisútvarpið hefur nú þegar stigið fyrstu skrefin á þeirri braut sem hér er mörkuð með þeirri þjónustu sem það hefur tekið upp á heimasíðunni ruv.is. Ör þróun á sér nú stað á sviði margmiðlunar, tölvutækni, fjarskipta og sjónvarps sem halda mun áfram á næstu árum. Mikilvægt er að Ríkisútvarpið fylgist með þessari þróun og taki þátt í henni eftir því sem skynsamlegt verður metið og að sjálfsögðu af hæfilegri varkárni þó að framtíðarsýn beri að skipa í fyrirrúm. Það verður í verkahring stjórnar Ríkisútvarpsins sf. og daglegra stjórnenda að taka einstakar ákvarðanir í þessu efni.

Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um það að halda skuli fjárreiðum alls reksturs, sem félagið kann að verða aðili að samkvæmt heimild þeirri sem í greininni felst, aðskildum frá fjárreiðum reksturs, þ.e. hinum hefðbundna rekstri Ríkisútvarpsins. Það er kannski rétt að taka það fram að sérstaklega þarf að gæta þess að starfsemi Ríkisútvarpsins sf. verði að þessu leyti í samræmi við reglur samkeppnislaga — ég undirstrika það — með síðari breytingum og samkeppnisreglur EES-samningsins.

Sú gagnrýni hefur komið fram að með því að veita Ríkisútvarpinu aukið svigrúm sé hætta á að það muni beita aðstöðumun sínum til að klekkja á einkareknum fyrirtækjum og ryðja sér til rúms á stöðugt fleiri sviðum í skjóli stærðar sinnar og öruggra lögbundinna tekjustofna. Þessar áhyggjur eru skiljanlegar, en ég tel þær ástæðulausar. Með formbreytingu Ríkisútvarpsins úr ríkisstofnun í félag eykst svigrúm þess óneitanlega til muna, enda er ein helsta röksemd formbreytingarinnar að auka verði rekstrarlegan sveigjanleika og svigrúm Ríkisútvarpsins frá því sem nú er og gera það nútímalegra. Það svigrúm á hins vegar að nýta til þess að sinna hinu mikilvæga hlutverki sem útvarp í almannaþágu af auknum krafti.

Um starfsemi Ríkisútvarpsins verður að ríkja breið sátt. Ef Ríkisútvarpið fær að beita afli sínu og ríkisstyrkjum til að berja á einkareknum fjölmiðlum á samkeppnismarkaði og færa út kvíarnar stefnulaust væri rofin sú sátt sem hefur ríkt um Ríkisútvarpið. Það getur hins vegar þjónað markmiðum Ríkisútvarpsins sem menningarstofnunar að fara í einstaka tilfellum út fyrir hið hefðbundna svið útvarps og sjónvarps. Innan veggja Ríkisútvarpsins er t.d. að finna gífurleg menningarleg verðmæti, hljóðvarps- og sjónvarpsupptökur er hafa ómetanlegt menningarlegt gildi. Ég tel mikilvægt að þessi verðmæti rykfalli ekki einungis í hirslum RÚV, heldur að Ríkisútvarpið hafi svigrúm til að gera þau aðgengileg almenningi, hvort sem er í gegnum netið eða með sölu á geisla- eða DVD-diskum. Þetta gæti átt við um útvarpsleikrit, tónleika eða sjónvarpsþætti á borð við margrómaðar Stiklur.

Um stjórn Ríkisútvarpsins sf. er fjallað í 8. gr. Skal stjórnin kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara en áður var kosið til stjórnar á aðalfundi. Skulu menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara.

Með framangreindum hætti er sjálfstæði stjórnarinnar treyst gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þá eru ákveðnar hæfisreglur til stjórnarsetu orðaðar í 2. mgr. 8. gr.

Starfssvið stjórnarinnar er orðað í 9. gr. frumvarpsins. Eins og ég hef komið inn á hér að framan er hlutverk hennar að ráða útvarpsstjóra og veita honum lausn frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör. Þá tekur stjórnin allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins sem ekki falla undir daglegan rekstur. Einnig fellur það undir starfssvið stjórnar félagsins að taka lán til þarfa félagsins og ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í því skyni. Þegar samþykki er nauðsynlegt fyrir skuldbindingum samkvæmt framansögðu, þegar þær fara yfir meira en 10% af veltu, er kveðið á um samþykki menntamálaráðherra.

Mér þykir rétt að nefna sérstaklega í tengslum við það hlutverk stjórnar að gefa út reglur um fréttaflutning að frumvarp þetta byggir á því, eins og ég hef þegar rakið, að hlutverk Ríkisútvarpsins sf. sé að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða. Reglusetning stjórnarinnar mun eðli málsins samkvæmt taka mið af þessu hlutverki félagsins. Með þessu er stjórninni ætlað að tryggja þau markmið sem sett eru með frumvarpinu um trausta og áreiðanlega fréttamennsku. Þetta felur á engan hátt í sér að stjórninni sé ætla að hafa einhver áhrif á fréttaflutning félagsins en sjálfsagt er og eðlilegt að reglur til að ná framangreindum markmiðum séu settar. Ætlast ég til, og vona og veit, að hv. menntamálanefnd muni sérstaklega fara yfir þetta atriði.

Hæstv. forseti. Ég sé að tími minn er brátt á enda í þessari fyrstu lotu. Ég undirstrika að Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki sem menningarstofnun í íslensku samfélagi. Það er því mikilvægt að lagarammi Ríkisútvarpsins sé skýr á hverjum tíma og til þess fallinn að tryggja að Ríkisútvarpið geti sinnt þeirri starfsemi sem því er ætlað.

Í nýrri skýrslu fjölmiðlanefndar er lögð mikil áhersla á að treysta beri stöðu Ríkisútvarpsins á hljóðvarps- og sjónvarpsmarkaði og telur nefndin mikilvægt að hlutverk RÚV sem almannaþjónustuútvarps verði styrkt eftir föngum. Vil ég sérstaklega taka undir þau sjónarmið fjölmiðlanefndar og tel að með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar megi ná einmitt þeim markmiðum sem fjölmiðlanefndin umrædda hefur sett fram í sínu ágæta plaggi.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað (Forseti hringir.) til hv. menntamálanefndar að lokinni þessari umræðu.