131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:01]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi lífeyrisskuldbindingarnar. Ég hafði einmitt farið nokkuð ítarlega yfir fjármögnunina, eins og RÚV er ætlað að fjármagna sig eftir þessa breytingu, og ég gat ekki séð að lífeyrisskuldbindingarnar væru inni í þeirri fjárhæð. Nefskatturinn á að gefa tæpa 2,5 milljarða. En nefndin sem fær málið til umfjöllunar verður auðvitað að fara mjög vel yfir þetta vegna þess að það er einn stærsti liðurinn í sjálfstæði Ríkisútvarpsins að það hafi eðlilegt svigrúm að því er varðar fjármögnunina.

Varðandi ráðningu útvarpsstjóra — núverandi útvarpsstjóri er ráðinn af núverandi menntamálaráðherra á árinu 2002 og skipaður til 1. janúar 2008 — þá skil ég það svo, ef ég hef skilið orð hæstv. ráðherra rétt, að sú stjórn sem kosin verður eftir að frumvarp þetta er orðið að lögum hafi svigrúm til þess að segja upp núverandi útvarpsstjóra (Forseti hringir.) og auglýsa starfið aftur, en ég spyr hæstv. ráðherra hver er vilji hennar í þessu efni?