131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:24]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að það kom mér sannast sagna nokkuð á óvart fyrr í dag hve illa ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, tóku í þá hugmynd að frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um Ríkisútvarpið yrði tekið á dagskrá samhliða þessu frumvarpi. Eins og einnig hefur komið fram væri eðlilegt að önnur frumvörp og önnur þingmál sem tengdust Ríkisútvarpinu yrðu fléttuð inn í umræðuna. Af hálfu okkar kom fram sá ásetningur að fara ekki fram á lengda umræðu fyrir bragðið heldur einvörðungu hitt, að þingmönnum gæfist kostur á að reifa málin frá sem flestum sjónarhornum. Sú hugmynd var kynnt á fundi forseta þingsins í morgun en ákveðið að skjóta beiðninni til fundar þingflokksformanna sem gert var. Þar var tekin sú ákvörðun að vísa þessu til þingflokkanna og niðurstaða þingflokks Sjálfstæðisflokksins var að hafna beiðninni. Þingmenn Framsóknarflokksins tóku svo undir með Sjálfstæðisflokknum hvað þetta varðar.

Um hvað snýst málið? Málið snýst um að koma öllum þeim þingmálum sem tengjast Ríkisútvarpinu, sem tengjast því málefni sem við fjöllum um, inn í umræðuna samtímis og vísa þeim síðan út í samfélagið til umsagnar. Um það snýst málið, einvörðungu þetta. Þessu er hafnað. Ég vek athygli á því og ítreka það sem ég sagði fyrr í dag að frumvarp ríkisstjórnarinnar kom fram um miðjan síðasta mánuð, 15. mars. Frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kom fram tveimur dögum síðar, 17. mars. Þingmál Frjálslynda flokksins hefur þegar hlotið umræðu og búið að vísa því til nefndar. Þingmál Samfylkingarinnar kom fram í desember og bíður enn eftir umræðu og það eru eðlileg málefnaleg rök fyrir því að vísa öllum málunum samtímis út í samfélagið til umsagnar. Þessu var hafnað og menn komu hver á fætur öðrum úr stjórnarliðinu í ræðustól og tóku bakföll yfir þessari beiðni okkar og kváðust hvorki botna upp né niður í þessari furðulegu ósk. En hin einfalda skýring er sú að við vildum fá samhliða umræðu um þessi mál og samhliða yrði málunum skotið til umsagnar úti í samfélaginu. Fullkomlega eðlileg vinnubrögð. Þetta vildi ég sagt hafa í upphafi máls míns.

Við ræðum tillögur um grundvallarbreytingar á Ríkisútvarpinu. Gert er ráð fyrir að lög um Ríkisútvarpið verði hreinlega afnumin með einu striki og þess í stað verði Ríkisútvarpið gert að sameignarfélagi. Ég ætla fyrst og fremst að einskorða mig við hið breytta rekstrarform og hvaða afleiðingar það hefur í för með sér. Þá er fyrst að geta þess að um sameignarfélög gilda ekki ítarleg lög. Það veldur því að mörgum spurningum sem ella hefði verið hægt að svara er enn ósvarað. Það eru margir endar lausir í málinu, margt óljóst.

Þó er sitthvað fullkomlega ljóst. Ber fyrst að nefna að ekki er tekið á þeirri grundvallargagnrýni sem fram hefur komið á þingi og í samfélaginu í áranna rás, að óeðlileg séu þau pólitísku tök sem stjórnarmeirihluti hverju sinni hafði á stofnuninni. Mönnum hafði þótt þetta vera óeðlilegt og óæskilegt. Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Stjórn félagsins“ — þ.e. sameignarfélagsins um Ríkisútvarpið — „skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert.“ Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skulu fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara og skulu þeir kosnir í stjórn félagsins.“

Hér er talað mjög skýrt, eða hvað? Það er boðað til fundar í sameignarfélaginu til að kjósa stjórn. En áður en til þess fundar kemur á málið að vera frágengið í þessum sal og skal hlutfallskosning ráða. Með öðrum orðum, meirihlutavilji ríkisstjórnar sem situr hverju sinni skal ráða um stjórn Ríkisútvarpsins.

Síðan á það að gerast að boðað er til þessa furðulega fundar í þessu sameignarfélagi og þar skal einfaldlega staðfesta það sem hér hefur verið ákveðið. Með öðrum orðum, verið er að geirnegla meirihlutavald, pólitíska yfirstjórn yfir Ríkisútvarpinu. Og hvað á hún að gera? Hún á t.d. að gefa út reglur um fréttaflutning. Hún á að hafa eftirlit með fréttaflutningi og sjá til þess að reglum sé framfylgt.

Það er ekkert óeðlilegt að stjórn stofnunar sinni slíku hlutverki. En þegar stjórnin er hins vegar skipuð með þeim hætti að það sé stjórnarmeirihlutinn hverju sinni sem ræður stjórninni, þ.e. stjórnarmeirihlutinn í landstjórninni sem ræður stjórn og yfirstjórn Ríkisútvarpsins þá er það orðið óeðlilegt. Ég hélt sannast sagna að það væru þau tengsl sem menn vildu höggva á því að flestir og margir hafa verið á því máli að viðhalda tengslum Ríkisútvarpsins og eigandans, þjóðarinnar, en ekki á þennan valdpólitíska hátt. Í stað þess að draga úr þessum tengslum er hert á þeim.

Varðandi kjör starfsmanna er alveg greinilegt að verið er að rýra þau. Hæstv. menntamálaráðherra neitaði að svara eða svaraði ekki öllu heldur þeim spurningum sem lagðar voru fram um lífeyrisréttindi, svo dæmi sé tekið, nýráðinna starfsmanna. Við fengum ekki að vita hvað þeirra bíður en vísað í fordæmin úr einkavæðingu undangenginna ára. Hver eru þau? Það er t.d. Póstur og sími. Þar var talað um að ekki ætti að skerða réttindi starfsmanna í neinu, en engu að síður var það gert. Og þegar vísað er í þessi fordæmi vakna ýmsar spurningar.

Ég held því miður að það standist ekki heldur að núverandi kjör starfsmanna samkvæmt þessu frumvarpi verði ekki skert. Í fyrsta lagi munu lífeyrisréttindi starfsmanna sem aðild eiga að B-deild lífeyrissjóðsins verða skert, þ.e. þeirra sem hafa kosið að styðjast við eftirmannsreglu, þeir munu ekki geta gert það eftir þessa formbreytingu.

Ég spyr einnig um önnur réttindi, t.d. ráðningarfesti. Nú er það svo að hægt er að segja upp opinberum starfsmönnum með tilteknum skilmálum. En það er ekki hægt að reka þá skýringalaust. Menn minnast þess að hér kom til umræðu á sínum tíma frumvarp frá ríkisstjórninni um svokallaða áminningarskyldu, að stjórnendum stofnana bæri að tilgreina ástæðu fyrir brottrekstri ef um slíkt væri að tefla. Nái þessi lög fram að ganga spyr ég: Eiga slík lög að gilda eða ekki?

Þegar kemur að eftirliti, eftirfylgni og innsýn í starfsemi stofnunarinnar, stjórnsýslu hennar, er verið að draga úr gagnsæinu. Stofnunin kemur ekki til með að heyra undir upplýsingalög og ekki undir stjórnsýslulög. Hvaða afleiðingar hefur það í för með sér?

Ég held því miður að sú fullyrðing hæstv. menntamálaráðherra standist ekki að ekki standi til að skerða kjör starfsmanna, enda var orðalagið á þann veg að rétt væri að standa vörð um kjör starfsmanna með eðlilegum hætti, ég held að ég muni þetta svona innan gæsalappa nokkurn veginn. Hvað þýðir það? Er ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra reiðubúin að ræða við stéttarfélög starfsfólksins og ganga frá öllu því sem óljóst er og semja um kjörin þannig að ekkert sé óljóst í þessu efni? Við höfum ekki fengið neinar vísbendingar um vilja til slíks en ég vil að það komi fram, þar sem ég gegni einnig formennsku í stærstu heildarsamtökum starfsmanna innan almannaþjónustunnar, að farið verður fram á slíkar viðræður að sjálfsögðu. Slík ósk var rædd á fundi með starfsmönnum Ríkisútvarpsins fyrir fáeinum dögum þar sem menn eru mjög uggandi um framtíðina einfaldlega vegna þess að svo margt er óljóst í frumvarpinu, og það sem ljóst er vísar því miður í þá átt að kjör starfsmanna verði skert, þeir búi ekki við sömu réttarstöðu og þeir gerðu áður.

Enda er það svo að þegar forsvarmenn ríkisstjórnarinnar og fyrri ríkisstjórna hafa verið að kynna einkavæðingarfrumvörpin er alltaf uppi sami söngurinn sem við heyrðum hér áðan líka. Það er talið um sveigjanleika, nauðsyn á auknum sveigjanleika. og ég spyr: Til hvers? Hvað er það sem þarf að verða sveigjanlegra? Þarf ekki að skýra þetta nánar?

Ég held að eitt verði sveigjanlegra. Það er meðferðin á starfsfólkinu, hún verður sveigjanlegri. Það verður auðveldara að reka það og til stendur að skerða réttindi þess og draga þannig væntanlega úr tilkostnaði við rekstur stofnunarinnar — á kostnað starfsmanna. Út á það gengur frumvarpið. Það gengur fyrst og fremst út á að skerða kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins og færa starfsemina bak við lokuð tjöld. Út á það gengur frumvarpið fyrst og fremst. Í því er sveigjanleikinn fólginn.

Við fengum þennan söng og heyrðum þetta lag á sínum tíma þegar Síminn var einkavæddur. Þar átti allt að verða sveigjanlegt. Og hvað gerðist? Jú, jú, það varð margt sveigjanlegra, t.d. í fjárfestingum. Í einu fjárfestingarævintýrinu tapaði Landssíminn 500 milljónum kr. í fjárfestingarævintýri í Bandaríkjunum. Þetta fékkst ekki rætt hér á þinginu. Hvers vegna? Menn gátu skýlt sér á bak við hlutafélagalögin, nokkuð sem útilokað var að gera ef um var að ræða opinbera stofnun. Það er þetta sem menn eru að gera. Það er þetta sem á að verða sveigjanlegra. Síðan er þetta kórónað með því að geirnegla valdpólitíska yfirstjórn á Ríkisútvarpinu.

En hvað er þá til ráða? Við höfum teflt fram öðrum hugmyndum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við höfum lagt fram ítarlegt frumvarp til laga um Ríkisútvarpið. Í meginatriðum erum við að gera tvennt. Við verðum að færa stjórnsýsluna rækilega inn í stofnunina og gera hana sem allra faglegasta. Við viljum líka styrkja starfsmannalýðræði, atvinnulýðræði sem kallað er, innan vébanda stofnunarinnar.

Í 3. gr. frumvarps okkar er kveðið á um réttindi og skyldur framkvæmdastjórnar en þar sitji útvarpsstjóri, framkvæmdastjórar allra deilda Ríkisútvarpsins og jafnmargir fulltrúar kjörnir af starfsmönnum, einn frá hverri deild, og fulltrúi dagskrárráðs — ég mun gera nánar grein fyrir því hvaða hugmyndir liggja þar að baki — en hann hafi málfrelsi og tillögurétt. Útvarpsstjóri verði formaður þessarar framkvæmdastjórnar og skuli framkvæmdastjóri fjármáladeildar vera varamaður hans.

Þessari framkvæmdastjórn er ætlað að bera ábyrgð á almennum rekstri, mannaráðningum, samræmingu á starfi deilda og annarri stjórn Ríkisútvarpsins. Með öðrum orðum, verið er að færa stjórnsýsluna rækilega inn í stofnunina, ábyrgð á mannaráðningum, allar mannaráðningar eru þar innan með þó einni undantekningu. Þar er komið að dagskrárráði, sem við köllum svo, og mætti þess vegna endurskýra og tala um sem notendaráð vegna þess að hugmyndin þar að baki er að í dagskrárráð, sem hafi eftirlit með því að Ríkisútvarpið fullnægi skyldum og kvöðum sem settar eru á það lögum samkvæmt, sé kosið eða sé skipað samkvæmt sjónarmiðum, dagskrárráðið endurspegli sjónarmið einnig héðan frá Alþingi. Hver þingflokkur eigi fulltrúa í þessu dagskrárráði, ekki stjórnarmeirihluti heldur viðhorfin sem eru til staðar hér í þinginu. Fulltrúar sveitarfélaganna, eða Samband íslenskra sveitarfélaga skipi tvo fulltrúa, að Bandalag íslenskra listamanna eigi rödd í dagskrárráði Ríkisútvarpsins og Neytendasamtökin, sem er eðlilegt í ljósi auglýsinga og annarra þátta. Með öðrum orðum, þetta er ráð viðhorfa, þetta er ekki valdstjórn.

Eina mannaráðningin eða eina stjórnsýsluhlutverkið sem dagskrárráð hafi með hendi sé tillaga um ráðningu útvarpsstjóra. Og annað, að þegar um er að ræða ráðningu starfsmanna sem sinna dagskrárgerð skuli framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins og útvarpsstjóri jafnan skjóta tillögum sínum til umsagnar í dagskrárráði. Fyrir þessu gerum við rækilega grein í frumvarpi okkar.

Síðan kemur að tekjunum. Við teljum að Ríkisútvarpið verði áfram að reiða sig á auglýsingatekjur. Það er einfaldlega svo að ef dregið yrði úr auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins þá er um tvennt að ræða, þ.e. að draga saman í rekstri, minnka umfang dagskrárgerðarinnar eða hækka afnotagjöld eða ígildi þeirra, skatta. Við teljum einfaldlega að það sé takmarkaður vilji til slíks, við gerum því ráð fyrir auglýsingum í útvarpi og sjónvarpi. Við höfum verið mjög gagnrýnin hins vegar á svokallaða kostun, teljum það mjög óheppilegan farveg, en í stað afnotagjalda sem miðist við viðtæki, eins og nú tíðkast, og í stað nefskattsins sem ríkisstjórnin leggur til erum við með hugmyndir um að gjaldið verði tengt fasteign. Við erum að reyna að finna þarna aðra fleti, en leggjum ríka áherslu á að sjálfstæði Ríkisútvarpsins þegar kemur að tekjuöfluninni sé tryggt. Ef þetta yrðu peningar sem kæmu úr skatthirslum ríkisins hef ég ekki trú á því að Alþingi, sem stæði frammi fyrir þeim vanda að leysa málefni eða vanda skulum við segja Barnaspítalans eða Ríkisútvarpsins, ég held að það mundi hiklaust alltaf velja Barnaspítalann. Þetta er sú leið sem menn hafa farið í öllum löndum í kringum okkur og sú rödd sem heyrist úr ríkisútvarpsstöðvum í Evrópu almennt að mikilvægt sé að tryggja sjálfstæðan fjárhag Ríkisútvarpsins.

Þetta eru, hæstv. forseti, helstu hugmyndirnar sem við viljum skjóta inn í umræðuna. Aðrar hugmyndir hafa komið fram og eðlilegt að þær séu skoðaðar einnig. En ég tek undir þau orð hv. þm. Marðar Árnasonar áðan að líta eigi á frumvarp ríkisstjórnarinnar sem og okkar frumvarp, sem og þingmál Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins sem hugmyndir á meðal hugmynda og það séu eðlileg vinnubrögð núna að kalla til þverpólitísks samstarfs um þetta mál. Ríkisstjórnir koma og fara, Ríkisútvarpið verður til frambúðar, um það er þverpólitísk samstaða. Við deilum hins vegar um hvernig við eigum að skipuleggja rekstur þess og standa að þessum lagabreytingum. (Forseti hringir.) Eigum við ekki að reyna að ná samstöðu um þær breytingar?