131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:45]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fagna frumvarpinu sem við ræðum hér og lýsa yfir ánægju minni með að hæstv. menntamálaráðherra hafi lagt það fram. Því er ekki að leyna að meðgöngutíminn var orðinn nokkuð langur. Margir hafa beðið eftir frumvarpi um Ríkisútvarpið í mörg ár.

Frumvarpið mun hafa í för með sér miklar breytingar á Ríkisútvarpinu. Meginlínan er sú að stjórnarflokkarnir eru sammála um að reka áfram almannaútvarp í eigu ríkisins. Ég met það svo að áralöng biðstaða sem ég fjallaði um áðan hafi að einhverju leyti bitnað á stofnuninni. Það er því ánægjulegt að nú verði breyting á. Stjórnarflokkarnir lögðu upp með ólík markmið en hafa náð saman líkt og áður hefur komið fram.

Án efa eru stóru tíðindin í þessu frumvarpi líklega rekstrarformið. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði gert að sameignarfélagi. Í lögum um RÚV verður sérákvæði þess efnis að eini eigandinn verði ríkið. Sama leið var farin við stofnun hlutafélaga um Búnaðarbanka og Landsbanka, Lyfjaverslun ríkisins og stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Hér er farin sú málamiðlun að færa reksturinn í félagsform en hafna því alfarið að slíkt sé fyrsta skref í söluferli, eins og jafnan hefur verið þegar ríkið hefur stigið það skref að færa ríkisstofnanir í hlutafélagaform.

Um þetta efni segir í greinargerð í frumvarpinu um RÚV, með leyfi forseta:

„Við samningu frumvarps þessa var ekki farin sú leið að stofna hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins. Ástæða þess er sú að Ríkisútvarpið hefur sérstöðu — hér er um að ræða félag sem ekki er ráðgert að selja og staða þess því ekki sambærileg stöðu t.d. Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Með því að stofna sameignarfélag um rekstur Ríkisútvarpsins gefst tækifæri á að nýta þá kosti sem félagarekstur hefur í för með sér en halda enn fremur í þau sérkenni sem einkenna Ríkisútvarpið og með þeim hætti sameina kosti bæði opinbers rekstrar og einkarekstrar.

Auk framangreinds er ástæða til að taka fram að það rekstrarform sem felst í sameignarfélagsforminu felur í sér ótakmarkaða ábyrgð á skuldum og skuldbindingum Ríkisútvarpsins, en ekki takmarkaða ábyrgð eins og hlutafélagaformið hefur í för með sér.“

Samfara þessu er í frumvarpinu gert ráð fyrir að yfir RÚV verði rekstrarstjórn líkt og yfir öðrum sameignarfélögum og útvarpsráð verði því lagt niður. Þar tel ég um mikið framfaraspor að ræða.

Með nýja frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Alþingi kjósi stjórn sem hafi m.a. það hlutverk, með leyfi forseta:

„a. Að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum, ákveða laun hans og önnur starfskjör.

b. Að taka ákvarðanir um lán til þarfa félagsins og taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. …

c. Að taka allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur félagsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna …

d. Að samþykkja fyrir fram fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár.

e. Að gefa út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í útvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, og gæta þess að reglum sé fylgt.“

Ég verð að segja að önnur stór tíðindi varðandi þetta frumvarp eru að leggja eigi niður afnotagjöldin. Afnotagjaldið er afar óvinsælt í innheimtu og hefur að mínu mati skaðað ímynd Ríkisútvarpsins verulega. Það er einnig kostnaðarsamt að innheimta gjaldið. Haldið er úti tækjaleitarflokki sem bankar upp á á heimilum þar sem ekki eru skráð viðtæki og flestir kunna einhverjar skrýtnar sögur af þeirri leit. Kostnaður við innheimtuna hefur numið einhverjum tugum milljóna á ári og því hefur verið ákveðið að taka upp nefskatt í staðinn.

Rökin fyrir því eru aðallega þrenns konar. Í fyrsta lagi hefur þessi leið í för með sér sparnað þar sem sérstakur kostnaður við innheimtu afnotagjalds fellur niður.

Í öðru lagi er sá annmarki á núverandi fyrirkomulagi að allir þeir sem gerast áskrifendur að einkarekinni sjónvarpsstöð og kaupa sér sjónvarpstæki til að njóta þjónustu hennar verða sjálfkrafa greiðendur afnotagjalda til Ríkisútvarpsins þar sem greiðsla afnotagjaldsins er bundin við eign á viðtæki. Með því að afnema tengsl viðtækjaeignar við greiðslu til RÚV eru neikvæð áhrif á viðskipti sjónvarpsnotenda við einkaaðila upprætt að þessu leyti.

Í þriðja lagi leiðir breytingin til þess að kostnaður tekjulægstu einstaklinga við að njóta útvarps í almannaþágu fellur niður. Alls leggst gjaldið á um 160 þúsund einstaklinga á aldrinum 16–70 ára og um 22 þúsund lögaðila. Gjaldið lýtur sömu lögmálum og sérstakt gjald sem lagt er á samkvæmt lögum um málefni aldraðra til tekjuöflunar fyrir Framkvæmdasjóð aldraðra.

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra fór yfir helstu breytingarnar og ég ætla ekki nánar út í þær. Ég tel að frumvarpið muni efla stofnunina og að það henti RÚV að mörgu leyti illa að vera ríkisstofnun vegna þess að Ríkisútvarpið þarf meira svigrúm í rekstri og nýleg dæmi lýsa því afar vel.

Ég vildi koma örstutt inn á eitt atriði, þ.e. svæðisstöðvarnar. Ég vona innilega að hv. menntamálanefnd taki þann þátt sérstaklega til skoðunar. Ég segi þetta ekki síst í ljósi ummæla í greinargerðinni þar sem er fjallað er um starfsemina úti á landi.

Ég hef fengið þær skýringar að ekki standi til að draga neitt úr þeirri starfsemi. En í frumvarpinu segir, með leyfi forseta, á bls. 16:

„Þriðja breytingin, sem lögð er til, er á þá leið að þeirri starfsemi, sem um ræðir í greininni, skuli komið upp utan höfuðborgarsvæðisins, en ekki í hverju kjördæmi, og er þessi tillaga gerð sérstaklega með hliðsjón af örri tækniþróun á sviði útvarps og að ekki þurfi að setja upp aðstöðu til dagskrárgerðar í hverjum landsfjórðungi.“

Landsbyggðarkjördæmin eru ekki nema þrjú og eru starfsstöðvar í þeim öllum. Ég vona að þær muni halda áfram að starfa kröftuglega. Það eru starfsstöðvar í flestum þessara gömlu landsfjórðunga en þó ekki á Vesturlandi.

Ég flutti þingsályktunartillögu um daginn um staðbundna fjölmiðla og þar var mikið fjallað um þessi mál. Þar ríkir þverpólitísk samstaða um að efla einmitt þennan þátt fjölmiðlanna. Það er því von mín að svolítið verði rætt um þennan þátt, ekki síst í þeirri fjölmiðlaumræðu sem fram undan er.

Virðulegi forseti. Við munum að sjálfsögðu fara rækilega yfir þetta frumvarp í hv. menntamálanefnd. Ég vil í lokin enn ítreka ánægju mína með að frumvarpið sé komið fram. Það eru skiptar skoðanir um það en eflaust bara um hvaða leiðir skuli velja. Ég held að flestir séu sammála því að efla Ríkisútvarpið. En það er virkilega kominn tími til að við stígum þau skref og vil ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir það.