131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:53]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það vekur athygli mína að hv. þingmaður notaði, um það sem heitir stjórn Ríkisútvarpsins í frumvarpinu, orðið „rekstrarstjórn“ sem hvergi er að finna í frumvarpinu. Hún fer þar í slóð hæstv. menntamálaráðherra sem einnig notaði það orð, sennilega vegna þess að útvarpsráð er ekki lengur nógu fallegt orð. Þó er sú stjórn kosin á sama hátt og útvarpsráð, og reyndar örar hér á Alþingi og er því í enn meiri tengslum við þá stjórnmálaflokka sem eiga að henni aðild.

Það er rétt að reksturinn, eins og ég nefndi í ræðu minni og hrósaði því, er á verksviði þessarar stjórnar en hefur ekki verið áður nema að litlu leyti hjá núverandi útvarpsráði. Hjá þessu útvarpsráði er það. En vænt þætti mér um að hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sem virðist ákaflega ánægð með þetta mál, skýrði fyrir mér þann lið sem hún las upp, e-lið 9. gr., þar sem stjórn Ríkisútvarpsins, sem hún kallaði rekstrarstjórn, á, með leyfi forseta: „að gefa út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í útvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, og gæta þess að reglum sé fylgt.“

Hvers konar rekstur er þetta? Hvers konar afskipti eru þetta af fréttaflutningi í hinni faglegu stofnun, Ríkisútvarpinu? Hvað á það að þýða að hið nýja útvarpsráð geri þetta? Þetta gerir ekki einu sinni hið gamla útvarpsráð, heldur eru þær reglur settar á fréttastofunum sjálfum. Það eru fréttastjórarnir sem fylgjast með því að þeim sé fylgt. Það er á valdi núverandi útvarpsstjóra að gera athugasemdir við það en ekki útvarpsráðs.

Ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um þetta og hvort hún sé jafnánægð með þessi rekstrarákvæði í e-liðnum og hún er ánægð með frumvarpið að öðru leyti.