131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[17:59]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að sú merking sem ég legg í e-lið 9 gr. er að þetta sé almennur rammi, að setja eigi siðareglur eins og tíðkast í öllum helstu fjölmiðlum landsins. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki jafntortryggin og hv. þm. Mörður Árnason. Ég vil ætla það að fólk vinni þetta faglega og ekki verði pólitísk afskipti af fréttaflutningi, ekki frekar en hingað til.

Við skulum fara vandlega í þetta. Það er eðlilegt að við tökum þetta atriði sérstaklega fyrir í menntamálanefnd og fáum að heyra í hlutaðeigandi aðilum ef hv. þingmanni líður svo illa yfir þessu ákvæði. Ég veit að það hefur komið fram gagnrýni frá fleirum og því er ekki óeðlilegt að fjalla frekar um það.

Ég ítreka að ég held að það sé enginn illur vilji á bak við þetta ákvæði í frumvarpinu.