131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[18:00]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að ég tel að frumvarpið muni efla Ríkisútvarpið og það er mjög ánægjulegt að það skuli vera meginmarkmið stjórnarflokkanna. Ég sagði áðan í máli mínu að ég teldi það henta Ríkisútvarpinu illa að vera rekið sem ríkisstofnun og þar með einmitt bundið af þeim atriðum sem hv. þingmaður taldi upp. Það þarf meira svigrúm í rekstur Ríkisútvarpsins og ég tel að það muni fást með sameignarfélagsforminu, ekki síst vegna þess að það form byggir á almennum reglum.

Við vitum líka að fram fer gríðarleg vinna í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu þar sem verið er að útfæra reglurnar nánar. Það verður því mjög fróðlegt að sjá hvernig þær líta út þegar þær koma fram. En eins og ég segi er það skoðun mín og margra fleiri að það muni efla rekstur Ríkisútvarpsins að þar sé sveigjanleiki í rekstri, að það sé ekki eins niðurnjörvað og búi frekar við almennar reglur. Hluti af því að efla reksturinn er ekki síst sá að losna við til að mynda rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar sem við munum fjalla um í öðru máli, en ég hélt að við mundum fjalla um saman.

Það er því verið að létta ýmsum kvöðum af Ríkisútvarpinu og eins og fram kom í máli hæstv. menntamálaráðherra eru lífeyrisskuldbindingarnar í nefskattinum, þannig að verið er að leita ýmissa leiða til að styrkja Ríkisútvarpið.