131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[18:02]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hreinskilin svör. Mér finnst athyglisvert að heyra það frá þjóðkjörnum fulltrúa almennings að það henti illa fyrir almenningsfyrirtæki eins og Ríkisútvarpið að fara að lögum um upplýsingagjöf, fara að stjórnsýslulögum. Mér finnst þetta mjög athyglisvert og tímanna tákn að menn telji að það sé einhver hindrun í vegi þess að reka öflugt Ríkisútvarp að fara að lögum um að veita upplýsingar. En hv. þingmaður sagði rétt áðan að þetta tvennt, að fara að upplýsingalögum og stjórnsýslulögum, væri ákveðinn þröskuldur fyrir fyrirtækið.

Ég er því algjörlega ósammála og við í Frjálslynda flokknum. Við teljum einmitt heilladrjúgt fyrir Ríkisútvarpið að fara að upplýsingalögum. Við höfum séð það t.d. hvað varðar fyrirtæki sem sett hefur verið hf. fyrir aftan en eru nær alfarið í eigu ríkisins að þegar fá á upplýsingar um starfshætti þeirra, svo sem Landssímann, er ítrekað komið að lokuðum dyrum, meira að segja þegar spurt er að því hvort fyrirtækin fari að samkeppnislögum. Þetta er mjög sérstakt.

Í framhaldinu væri fróðlegt að vita: Hvað er það í upplýsingalögunum sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir telur að komi sér illa fyrir Ríkisútvarpið að fara að?