131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[18:48]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ég hafi farið yfir það í ræðu minni hvers vegna ég tel að efnisákvæði frumvarpsins feli í sér framför hvað varðar rekstrarumhverfi RÚV. Ég nefndi að með frumvarpinu verður útvarpsráð, eins og við þekkjum það í dag, lagt niður og þar með lýkur afskiptum pólitískra fulltrúa — sem hv. þingmaður tilheyrði einu sinni — af dagskrá Ríkisútvarpsins. Að sama skapi mun framkvæmdastjóri fyrirtækisins, útvarpsstjóri, sjá um allar mannaráðningar en ekki fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Þetta tel ég að sé mjög gott og skref í rétta átt.

Hv. þingmaður spurði mig einnig hvort ég liti á Ríkisútvarpið í þessari mynd sem almannaútvarp eða venjulega útvarpsstöð. Þegar ég horfi á þá víðu skilgreiningu hlýt ég að líta á Ríkisútvarpið sem almannaútvarp í almannaþjónustu. Ég tel hins vegar að þrengja verði hina víðu hugtaksskilgreiningu til að tryggja að Ríkisútvarpið sinni bara þeirri kjarnaþjónustu sem ég tel að sé verjandi fyrir Ríkisútvarp þegar við erum með það á annað borð en sé ekki að þvælast fyrir einkastöðvunum á afþreyingarmarkaði.

Ég vona að ég hafi skilið spurningu hv. þingmanns rétt en ég tel að þetta sé svona. Ég tel mjög mikilvægt, ef menn ætla sér á annað borð að reka útvarp í almannaþágu, að þeir skilgreini hvað felist í því. Ég tel að undir (Forseti hringir.) þá skilgreiningu falli ekki hvað sem er í útvarps- og fjölmiðlalögum.