131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[18:50]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir svörin. Ég er sammála honum um það að ef hin nýja stjórn væri ekki skipuð pólitískum fulltrúum sem hafa beint umráðavald yfir útvarpsstjóranum og eiga m.a. að semja sérstakar reglur um fréttaflutning, sem ég hygg að séu ekki um það hvenær fréttir verði fluttar, en hæstv. menntamálaráðherra upplýsir kannski um það á eftir hvort hugsunin hafi verið að útvarpsráð hið nýja ætti að skipuleggja það, segja fyrir um það að fréttir séu fluttar á tímunum 8, 10, 12, 14, 16, eða 8.10, 10.10, 12.10, 14.10 o.s.frv. og það sé tekið sérstaklega fram í lögunum í e-lið 9. gr. Ef myndin væri svo fögur sem hv. þingmaður dregur upp er ég alveg sammála honum um það.

Ég ætlaði sérstaklega að þakka honum fyrir hitt, vegna þess að sú gagnrýni er auðvitað mjög hvöss, bæði frá þeim sem líta á málin frá sjónarmiði Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps og líka frá þeim sem líta yfir allan markaðinn og taka sér stöðu í markaðsstöðvunum, að það er ósköp einfaldlega verið að gera einhverja vitleysu með því að hafa hlutverk Ríkisútvarpsins svo vítt að Stöð 2, Skjár 1, ef hann væri með fréttastöð, og markaðsstöðvar víða um heiminn gætu gengið inn í skilgreininguna, og að hinu leytinu að gefa hinar víðtæku heimildir, sem eftir bókstafsins hljóðan gætu leitt til þess að Ríkisútvarpið sf. færi ósköp einfaldlega að keppa eins og hvert annað fyrirtæki á þeim markaði sem hér liggur fyrir vegna þess forskots sem það hefur með afnotagjöldum, nefskatti eða hvað sem ríkisstuðningurinn heitir, að þá gæti það rutt hinum stöðvunum út.

Það er enginn að græða á ljósvakarekstri á Íslandi, það er enginn stórgróði í því. Menn eru að berjast áfram meira og minna af hugsjón og metnaði. (Forseti hringir.) Það er enn þá þannig, forseti sæll.