131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[18:52]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef gagnrýnt að Ríkisútvarpið hafi verið að taka með hatrömmum hætti þátt í samkeppni við einkaaðila á markaðnum, svo sem um kaup á erlendu afþreyingarefni. Ég hef talið að ef menn væru á annað borð þeirrar skoðunar að ríkið ætti að reka fjölmiðil eins og þennan ætti sá fjölmiðill að einbeita sér að öðrum þáttum í dagskrárgerð sinni og reyna að efla frekar innlenda dagskrárgerð og menningarlega dagskrárgerð og flytja fréttir. Það hefði ég talið að væri grunnurinn í rekstri ríkisútvarps.

Ég vil síðan taka það fram og ítreka það sem ég sagði áðan að skilningur minn á e-lið 9. gr. er ekki sá að menn ætli að setja reglu um að stjórn fyrirtækisins setji sérstaklega reglur um fréttaflutning í þeim skilningi að stjórnin muni skipa fréttastofunum með hvaða hætti fréttir séu fluttar, alls ekki. Ég tel að það væri mjög óeðlilegt ef stjórn Ríkisútvarpsins sf. væri að segja fréttamönnum hvernig þeir ættu að sitja og standa.

Ég tel að í reglunni felist frekar að setja ytri umgjörð utan um það hvernig fréttatímunum er stillt upp og ekki síður að setja t.d. vanhæfisreglur sem mundu mæla fyrir um það að fréttamenn væru ekki að flytja fréttir af eigin hagsmunamálum, eins og gerst hefur á síðustu dögum. Það er ekki til þess að efla traust almennings á fréttastofunni og það er líka mjög óeðlilegt að slíkt sé gert. Mér þætti því eðlilegt að slíkar vanhæfisreglur (Forseti hringir.) féllu undir e-lið 9. gr.