131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[18:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fjallað hefur verið um fyrr á þessum degi hefur náðst ágæt sátt í fjölmiðlanefndinni um fyrirkomulag og samkeppnis- og lagaumhverfi fjölmiðlarekstrar eftir hatrammar deilur milli stjórnar og stjórnarandstöðu í því máli. Sú niðurstaða tryggði að vikið er á brott mikilvægum hömlum sem setja átti á fjölmiðlarekstur á sl. þingi, eins og að leggja bann við því að markaðsráðandi fyrirtæki mættu ekki eiga í ljósvakamiðli og ekki lengur lagt almennt bann við því að fyrirtæki eigi meira en 35% í fjölmiðli.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur öll tök á því í því máli sem við fjöllum um að ná sátt um lagaramma og starfsgrundvöll Ríkisútvarpsins með skipan þverpólitískrar nefndar um málið sem skili niðurstöðum sínum í haust þannig að samtímis væri hægt að ræða lagagrundvöll og starfsramma fjölmiðla almennt um leið og lögfest verði ný lög um Ríkisútvarpið. Það sem mælir líka með því að málið fari í slíkan farveg er sú breyting sem áformuð er á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sem á að breyta í sameignarfélag í eigu íslenska ríkisins. Frumvarp um sameignarfélög er í vinnslu hjá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu og samkvæmt frumvarpinu, ef gera á það að lögum á þessu þingi, þarf það að byggja á almennum, ólögfestum reglum félagaréttarins um sameignarfélög sem dregið hefur verið í efa að standist. Lög um Ríkisútvarpið þurfa því að taka breytingum þegar frumvarp viðskiptaráðherra liggur fyrir og laga rekstur Ríkisútvarpsins að efni laga um sameignarfélög þegar þar að kemur. Það er því full ástæða til að fresta málinu til haustsins og ræða það samhliða frumvarpi um fjölmiðlana og starfsumhverfi þeirra.

Ég ætla aðallega að ræða fjármögnun RÚV. Tryggir og öruggir tekjustofnar eru einn mikilvægasti þátturinn í starfsumhverfi RÚV þar sem því verði skapað eðlilegt svigrúm til að sinna því margþætta hlutverki sem því er ætlað og ítarlega kemur fram í 18 töluliðum í 3. gr. frumvarpsins.

Það er einkum tvennt sem ég gagnrýni í frumvarpinu og það er stjórnskipulagið og fjármögnunin. Það sem mestu máli skiptir um sjálfstæði RÚV er að stjórnskipulag þess sé með þeim hætti að þar verði slitið á öll pólitísk ítök í stofnuninni til að styrkja RÚV og auka allt sjálfstæði þess. Markmiðið með rekstri RÚV er að auka öryggisþáttinn og fyrst og síðast að efla alla dagskrárgerð og menningartengt efni og að útvarpið verði öflugur lýðræðislegur vettvangur upplýsinga og umræðu um allt land þar sem allar ákvarðanir byggja á faglegum forsendum án nokkurrar íhlutunar pólitískra afla. Mikilvægt er einnig að Ríkisútvarpið geti keppt á jafnréttisgrundvelli á við aðra fjölmiðla um starfsfólk að því er varðar ráðningakjör og starfsmannahald, en með breytingu á rekstrarforminu skil ég málið svo að starfsmenn verði ekki lengur ríkisstarfsmenn og muni framvegis semja um kjör sín beint við RÚV en réttarstaða þeirra varðandi biðlaunarétt og lífeyrisréttindi verði áfram óbreytt.

Hitt er annað mál sem er öllu verra að með því að losa um ríkisrekstrarformið verður RÚV undanþegið upplýsingaskyldu og upplýsingalögum, sem er fráleitt. RÚV yrði ekki B-hluta stofnun heldur E-hluta stofnun. Vil ég í því sambandi minna á frumvarp hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um breytingu á þingsköpum sem er enn meiri þörf en nokkru sinni að verði að lögum, ef þetta frumvarp á að ná fram að ganga, en þar er kveðið á um skýlausan rétt alþingismanna til upplýsinga um málefni fyrirtækis sem ríkissjóður á að hálfu eða meira. Þetta frumvarp kallar svo sannarlega á að það frumvarp verði sérstaklega skoðað.

Til að efla sjálfstæði RÚV þarf bæði að gera rekstrarlegar og skipulagslegar breytingar sem m.a. binda endi á flokkspólitísk ítök en svo verður ekki búið að RÚV með þeim ákvæðum sem í frumvarpinu eru um stjórnskipulag þess.

Hvað kemur raunverulega í stað útvarpsráðs sem var vettvangur pólitískrar samtryggingar og hrossakaupa? Jú, það kemur stjórn sem kosin er með sama hætti og útvarpsráð, á Alþingi, þó pro forma sé stjórnin kosin á aðalfundi í sameignarfélaginu. Þannig verður stjórn félagsins áfram pólitískt skipuð þó vissulega auki það sjálfstæði RÚV að stjórnin hefur ekki afskipti af dagskrá en hefur einungis rekstrarleg afskipti af RÚV. Og þó skipan útvarpsstjóra sé breytt og það vald tekið úr höndum menntamálaráðherra ræður stjórnin, sem er pólitískt skipuð, útvarpsstjóra og hver treystir sér, má spyrja, í raun og sanni til að halda því fram að það verði ekki ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma sem ráða bak við tjöldin hver verður útvarpsstjóri hverju sinni?

Það er líka mjög óæskilegt við slíkar kringumstæður að útvarpsstjóri sé í ráðningarsambandi við stjórn fyrirtækisins eða stjórn RÚV sem leitt getur til hagsmunaárekstra. Það er því ljóst að stjórnin sem við tekur af útvarpsráði verður áfram pólitískt skipuð og það verður hinn pólitíski meiri hluti á hverjum tíma sem ræður útvarpsstjóra.

Ég tel að hæstv. menntamálaráðherra eigi að reyna í samstöðu með stjórnarandstöðunni að ná farsælli niðurstöðu varðandi sjálfstæði RÚV en hér blasir við, verði þetta óbreytt að lögum. Það ætti t.d. að skoða leiðir sem tryggja aðgang starfsmanna sjálfra að ákvarðanatöku og þeim viðfangsefnum sem fimm manna pólitísk stjórn á að hafa samkvæmt frumvarpinu og mætti í því sambandi skoða annað fyrirkomulag eins og sjálfseignarfyrirkomulagið, þó að undir það sé vissulega hægt að taka að það er ekki fullkomið, eða jafnvel að samin verði sérstök ákvæði í lögum um rekstrarform RÚV þar sem markmiðið væri lagarammi um stjórnskipulag sem kæmi í veg fyrir pólitíska íhlutun bæði við skipan stjórnar og við ráðningu útvarpsstjóra og vægi starfsmanna mundi einnig vega við skipan stjórnar og ráðningar útvarpsstjóra.

Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hafi skoðað aðra skipan þessara mála þar sem losað væri um pólitísk ítök flokkanna eða ef ráðherra er fastur í þessari skipan, að ítök flokkanna ættu enn að vera til staðar í nýrri stjórn, hvort hún hafi hugleitt t.d. það sem fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni að t.d. fulltrúar starfsmanna ættu einn til tvo fulltrúa í þeirri fimm manna stjórn og hvort hún sé tilbúin til þess að hugleiða þá niðurstöðu í meðferð málsins í þinginu.

Ég spyr líka: Gæti hæstv. ráðherra hugsað sér að skoða nýja leið í stjórnskipulagi stofnunarinnar við ráðningu útvarpsstjóra, t.d. með því að atkvæði starfsmanna á RÚV hefðu ákveðið vægi á móti atkvæðum stjórnar við ráðningu útvarpsstjóra. Allt væri þetta til að auka lýðræðið í stofnuninni og tryggja fagleg vinnubrögð sem þessari stofnun eru svo nauðsynleg.

Ég nefni í því sambandi mál sem ég hef flutt og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar um atvinnulýðræði þar sem lagt er til að farin verði sú leið sem víða hefur verið farin í löndunum í kringum okkur, þ.e. að gert er ráð fyrir aðild starfsmanna að stjórnun fyrirtækja. Ég hvet því ráðherra til að reyna að ná sátt og samstöðu um lagarammann um RÚV sem ráðherrann hefur full tök á og við höfum reynsluna fyrir okkur í fjölmiðlamálinu þar sem ágæt sátt náðist í því máli sem ég hef fulla trú á að væri einnig hægt að ná í þessu máli ef hæstv. ráðherra mundi bíða með það fram á haust með þeim rökum sem ég hef sett hér fram.

Ég vil þá næst víkja að fjármögnun RÚV og vísa þar til ágætrar skýrslu sem gerð hefur verið um fjármögnun Ríkisútvarpsins sem kom fram í maí 2004 og gerð var af Þorsteini Þorsteinssyni, forstöðumanni markaðssviðs Ríkisútvarpsins. Ég hef farið ítarlega í gegnum þá skýrslu og þær leiðir sem þar eru valdar og ég verð að segja að mér finnst að hæstv. menntamálaráðherra hafi valið óskynsamlegustu leiðina af þeim sem þar koma fram.

Í skýrslunni kemur m.a. fram viðhorfskönnun sem gerð var fyrir RÚV 2002 sem sýndi að 41% aðspurðra vildu að RÚV yrði fjármagnað með beinum framlögum úr ríkissjóði, 33% með afnotagjöldum einstaklinga, 18 ára og eldri, og aðeins 26% með nefskatti, sem segir ákveðna sögu. Einnig eru aðrar leiðir nefndar í skýrslunni sem ég hef fullan hug á að vita hvort ráðherrann hafi látið skoða sérstaklega, sem er gjaldtökuleið sem taki mið af íbúðum eða fasteignum. Ég tel að afar mikilvægt sé við mat á fjármögnunarleiðum að tryggja eins og kostur er sjálfstæði Ríkisútvarpsins þannig að við séum líka að ræða um tryggan tekjustofn sem haldi a.m.k. raungildi sínu og sé ekki háður ákvörðunum stjórnvalda við fjárlagagerð hverju sinni. En ég sé þó að það er vissulega erfitt að finna slíka leið og stjórnvöld fara iðulega þá leið, þó að lögfestur sé ákveðinn tekjustofn, að koma með bandorm við fjárlagagerðina með „þrátt-fyrir“-ákvæði til að skerða tekjustofninn.

Ef við förum aðeins í afnotagjaldið kemur fram í skýrslunni að í samanburði sem gerður hefur verið á afnotagjöldum milli landa kemur í ljós að afnotagjöldin eru langhæst á Íslandi eða 32.360 kr. á ári. Það er t.d. helmingi lægra í Bretlandi og mun lægra annars staðar á Norðurlöndunum. Því væri full ástæða til að lækka afnotagjöldin og finna aðrar leiðir. Það hefur líka verið þannig að afnotagjöld hafa ekki sjálfkrafa hækkað, eins og fram kemur í þessari ágætu skýrslu, í samræmi við verðlagsbreytingar en frá árinu 1994 hefur raungildi afnotagjalda rýrnað um 24,3% á árunum 1994–2003 þó að frá árunum 1998–2004 hafi hækkanir þó verið í samræmi við almenna verðlagsþróun.

Nefskatturinn sem hæstv. ráðherra hefur valið hefur mjög marga galla. Það er t.d. galli að þarna er verið að ræða um ákveðið gjald, 13.500, sem vissulega er ekki hátt, en þar er um að ræða að þetta á að leggjast á ungmenni frá 16 ára aldri og allt til 70 ára aldurs. Þeir sem eru 70 ára greiða þetta en þeir sem eldri eru þurfa ekki að greiða þetta ef tekjur þeirra eru innan þess tekjuviðmiðs sem er í lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra. Og hvað er nú það viðmið? Ég tók ekki eftir því að hæstv. ráðherra nefndi það í framsöguræðu sinni. Það er 855.231 kr. eða 71 þúsund kr. á mánuði. Það er nú ekki hærra en það, þetta er meira að segja lægra en persónuafslátturinn. Nefskatturinn kæmi því illa við mjög fjölmennan hóp lágtekjufólks. Ef ráðherrann ákveður að nefskatturinn taki mið af 18 ára aldri, sem hefði verið eðlilegra, en miða ekki við 16 ára aldur, þá þyrfti að hækka gjaldið um 2.000 kr.

Síðan spyr ég hæstv. ráðherra: Af hverju er ekki gert ráð fyrir því að þessi nefskattur taki hækkunum í samræmi við verðlagsbreytingar? Á þetta að vera háð duttlungum ráðherra á hverjum tíma?

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi hugsað út í að skatturinn getur komið mjög illa við fjölskyldur þar sem eru ungmenni. Í fjögurra manna fjölskyldu þar sem eru ungmenni á aldrinum 16–18 ára getur sú fjölskylda þurft að borga 54 þús. kr. á ári í nefskatt og ef það er fimm manna fjölskylda sem er innan þessa viðmiðs er þetta enn þá meira. Ég spyr: Á ekki að grípa til neinna jöfnunaraðgerða varðandi slíkan hóp? Hér er örugglega um mjög mörg heimili að ræða sem munu þurfa að greiða miklu, miklu meira en aðrir, sem er mjög ósanngjarnt.

Hér er talað um í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Almennt mætti þó miða við að haga skattlagningunni þannig að hvert þriggja manna heimili yrði nokkurn veginn jafnsett eftir sem áður, sem mundi þýða að gjaldið lækkaði fyrir fámennari heimili, en hækkaði fyrir heimili þar sem fullorðnir einstaklingar 16 ára og eldri væru 4 eða fleiri.“

Nú hafði ég samband við menntamálaráðuneytið til að vita hvað hér væri á döfinni af því að ég sá ekki að það hefði neina lagastoð í frumvarpinu að grípa til slíkra jöfnunaraðgerða, hvort það væri þá ekki eitthvað sem vantaði inn í frumvarpið. Þá var mér sagt að það væri ekki hugmyndin að grípa til neinna jöfnunaraðgerða varðandi fjölmenn heimili og þetta hefði verið inni í einhverjum fyrri drögum og láðst að taka þetta út. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er rétt í þessu? Er hugmyndin að grípa til einhverra sérstakra jöfnunaraðgerða þar sem um er að ræða heimili sem lenda kannski í því að borga 50–60 þús. kr. í þennan nefskatt?

Síðan er gallinn við nefskattinn, sem er líka náttúrlega við afnotagjöldin, að lögaðilar taka mjög lítinn þátt í fjármögnun RÚV. Þetta var eitthvað sáralítið varðandi afnotagjöldin en verður þó um sirka 300 milljónir af þessum áformuðu 2,5 milljörðum kr. sem taka á inn með nefskatti en var 0,4%, sem mig minnir að lögaðilar hafi borgað í afnotagjöldum, sem er náttúrlega nánast ekki neitt.

Þá vil ég víkja að þeirri leið sem ég tel að eigi að skoða og ég vil taka fram að ég er ekki að festa mig í því að þetta sé endilega sú tillaga sem ég legg til en mér finnst þetta álitlegur kostur sem eigi virkilega að skoða ásamt því að skoða þá leið sem líka er talað um í skýrslunni, að athuga t.d. það að RÚV sé fjármagnað af fjárlögum og gerður ákveðinn langtímasamningur við RÚV, sem er nauðsynlegur til að tryggja festu og stöðugleika í starfsemi RÚV og tæki mið af ákveðnum kröfum um árangursstjórnun. Þetta er ein leiðin sem ég tel að ætti skoða og svo sú varðandi fasteignaskattinn sem ég vil nota restina af tíma mínum til að ræða hér.

Í skýrslunni um RÚV er sú leið talin mjög jákvæð og vil ég vitna til þess að þar eru kostirnir tíundaðir, t.d. á bls. 5.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Fasteignakerfið er sú leið sem virðist falla best að þeim skilyrðum fyrir fjármögnun sem sett eru fram í skýrslunni.“

Fasteignaleiðin er því leið sem mælt er með.

Síðan á bls. 36 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Innheimta byggð á fasteignagrunni hefur þá kosti að gjaldið mundi lækka þar sem greiðendur yrðu fleiri. Svo til allir landsmenn kæmu að fjármögnun RÚV og innheimta yrði ódýrari og kostnaðarvitund almennings, eigenda Ríkisútvarpsins, héldist að nokkru leyti.“

Meira er um þetta sagt sem sýnir jákvæða kosti þessarar leiðar sem ég hef ekki tíma til að lesa.

Gallinn þó á þeirri leið sem lögð er til í skýrslunni er að lagt er til að álagningin á fasteignir taki mið af fasteignamati eða ákveðnu hlutfalli fasteignamats og rætt um 0,17% í skýrslunni. Gallinn á þeirri leið væri sá að það gæti reynst ósanngjarnt gagnvart tekjulágum einstaklingum sem búa kannski í stóru húsnæði.

Þess vegna hef ég skoðað þá leið, virðulegi forseti, hvort ekki ætti að hafa fasteignaskattinn eða fjármögnun á fasteignum með þeim hætti að einstaklingar borguðu bara ákveðna fjárhæð per íbúð en lögaðilar tækju miklu meiri þátt í þessu en þeir hafa gert hingað til og álagningin á þá mundi miðast við fasteignamat með líkum hætti og gert er nú varðandi fasteignagjöld.

Ef við lítum til fasteignamatsins eða stofnsins sem nú er byggt á, t.d. varðandi fasteignagjöldin, var hann um 432 milljarðar árið 2003. Í ár yrði hann u.þ.b. 475 milljarðar. Ef við stilltum dæminu upp þannig, það eru auðvitað til margar leiðir í því, en ef við stilltum dæminu upp þannig að lögaðilar borguðu helminginn af þessum 2,5 milljörðum og einstaklingar helminginn þá kæmi þetta út með þeim hætti að að leggja þyrfti 0,26% á fasteignamatið á lögaðila, sem er nú 1,32%, sem er nú ekki mjög mikið, en einungis 0,26% gæfu 1.250 millj. kr. Ef einstaklingar sem eiga íbúðir ættu að borga afganginn þyrftu þeir að borga 11 þús. kr. á hverja íbúð, ef íbúar 70 ára og eldri væru ekki undanskildir. Við erum því að tala um lægra gjald á einstakling og þá mundi ráðherrann losna við það vandamál sem ég held að hún þyrfti að glíma við ansi lengi, þegar fjölskyldurnar sem eru með mörg ungmenni byrja eðlilega að kvarta yfir því að þurfa að borga margfalt meira gjald fyrir útvarpsnotkun en aðrir. Við erum einungis að tala um 11 þús. kr. á hverja íbúð og þá værum við laus við þetta ungmennavandamál í gæsalöppum, ef svo mætti að orði komast, og einungis þyrfti að hækka fasteignagjöldin að því er varðar lögaðila um 0,26%, sem er í dag 1,32%. Ef allir sem eiga íbúð og eru 70 ára og eldri væru undanskildir þyrfti gjaldið á hverri íbúð að fara í 12.700 kr. Við gætum hugsað okkur ýmsar leiðir í því, t.d. þá afsláttarleið sem núna er í afnotagjöldunum fyrir lífeyrisþega eða þá sem eru eldri en 70 ára, en þetta er leið sem ég tel að við ættum að skoða. Með þessari leið sveigjum við, eins og ég segi, fram hjá þeirri ósanngirni að heimili þar sem einn, tveir eða þrír unglingar eru þurfi að borga margfalt hærra gjald en aðrir. Gjaldið færi ekki yfir það sem stjórnarflokkarnir ætla að leggja á hvern einstakling, fremur mundi það lækka, og þeir sem eru í leiguíbúðum, af því að væntanlega mundu þeir sem leigja út íbúðir þurfa þá að borga þetta gjald, þeir mundu láta það koma fram í leigunni, en þeir sem leigja núna þurfa að borga afnotagjald sem samsvarar 32.500 kr. og leigan mundi ekki þá hækka nema sem samsvaraði 12 þús. kr. Síðan mundu lögaðilar greiða meira en þeir greiða núna, sem er eðlilegt vegna þess að útvarp og sjónvarp eru jú líka í fyrirtækjum og eðlilegt að þeir aðilar greiði einnig.

Ég bið hæstv. ráðherra að íhuga vel að fara aðrar leiðir varðandi (Forseti hringir.) fjármögnun á RÚV en hún ætlar sér að fara og hef lagt líka fyrir hana nokkrar spurningar sem ég vænti að hún svari síðar í umræðunni.