131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[19:15]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem ég vil gera athugasemdir við.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það varðandi umfjöllun hennar í upphafi um félagaformið að þótt ég hefði persónulega talið heppilegra að hafa það í frumvarpinu að breyta ætti fyrirkomulaginu í hlutafélagaform þá gengur sameignarfélagsformið líka upp. Vegna ummæla hennar um að það þyrfti að breyta þessum lögum þegar fram væru komin lög eða lagareglur um sameignarfélög sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur boðað þá er það nú ekki endilega svo vegna þess að sérlögin sem gilda um Ríkisútvarpið sf., ef þetta frumvarp nær fram að ganga, munu væntanlega taka fram ákvæðum almennu laganna þar sem þau fara ekki fullkomlega saman.

Eins verð ég að játa að ég áttaði mig ekki alveg á fullyrðingu hv. þingmanns í sambandi við það að með þeim breytingum sem eru fyrirhugaðar á stjórnskipan stofnunarinnar með þessu frumvarpi væri verið að auka pólitísk ítök — ég gat ekki betur heyrt en að hv. þingmaður segði það í sínu máli — vegna þess að þó að vissulega verði áfram fyrir hendi ákveðin pólitísk ítök í formi þess að Alþingi kýs einstaklinga sem síðan eru skipaðir eða kosnir í stjórnina á aðalfundi þá get ég ekki séð að verið sé að auka hin pólitísku ítök heldur þvert á móti að minnka þau, fjarlægja t.d. útvarpsstjórann eða forstjóra fyrirtækisins frá ráðherranum sem hefur skipunarvaldið hvað það varðar í dag. Ég held því (Forseti hringir.) að ef þetta er metið þá sé nú verið að draga fremur úr hinum pólitísku afskiptum en auka þau.