131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[19:19]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sem kom fram í svari hv. þingmanns Jóhönnu Sigurðardóttur núna sé afskaplega mikilvægt, þ.e. að það er að verða veruleg breyting, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, á verksviði þess fjölskipaða stjórnvalds sem í dag er útvarpsráð en verður eftir breytinguna stjórn þessa fyrirtækis. Það er verið að takmarka mjög, miðað við frumvarpið, afskipti stjórnarinnar af öðrum málum en rekstrarmálefnum. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt skref og það get ég ekki skilið öðruvísi en svo að verið sé að draga úr beinum pólitískum afskiptum af þessari stofnun.

Varðandi síðan það hvernig stjórn stofnunar af þessu tagi eigi að vera skipuð þá held ég að meðan við höfum útvarp eða fyrirtæki af þessu tagi sem er í eigu ríkisins muni menn alltaf geta komið með kenningar um að hið pólitíska vald, ráðherravaldið eða hvað menn vilja kalla það, hafi einhver ítök. Þannig er nú með allar stofnanir í eigu ríkisins að til einhvers sækja hinir ráðnu forstöðumenn eða forstjórar umboð sitt. Við vitum hvernig það gengur fyrir sig. Það er í langflestum tilvikum með þeim hætti að þeir eru valdir af ráðherra eða stjórn sem valin er með einhverjum hætti sem á rætur sínar í hinu pólitíska valdi sem liggur á Alþingi. Ef menn vilja stíga það skref til fulls að klippa með öllu á hin pólitísku afskipti þá held ég að þeir verði að sætta sig við að þetta fyrirtæki hverfi úr eigu ríkisins. En ég á ekki von á því að hv. þingmaður sé að mæla með þeirri skoðun hér.