131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:21]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ríkisútvarpið, þessi merka stofnun okkar Íslendinga, er enn og aftur til umræðu á Alþingi. Ég hef verið að skoða þetta frumvarp sem hæstv. menntamálaráðherra mælti hér fyrir fyrr í dag og þess meira sem ég skoða það því meira velti ég fyrir mér hvaða tilgangi frumvarpið eigi að þjóna. Ég er ekki að segja að eitthvað samsæri sé á ferðinni eða neitt svoleiðis, alls ekki. En ég velti því fyrir mér hvort ástæða sé til þess að leggja fram svona stórt og víðtækt frumvarp um gerbreytingu á rekstri Ríkisútvarpsins. Ég fór að hugsa um það í dag hvað sé eiginlega að Ríkisútvarpinu eins og það er í dag. Er svo ofboðslega mikið að útvarpinu að við þurfum að gerbreyta öllum lagarammanum í kringum það?

Ég er mjög efins um þetta. Ég get alveg fallist á að þetta með sinfóníuhljómsveitina, að aflétta þeirri byrði af herðum útvarpsins sé góð og eðlileg aðgerð. Ég get líka tekið undir það að ástæða er til að fara yfir rekstur og jafnvel skipulag Ríkisútvarpsins, gera kannski ákveðnar breytingar, til að mynda í rekstrarskipulagi og öðru þess háttar en ekki að breyta því í einhvern bastarð sem kallaður er sameignarfélag, mjög óútskýrt fyrirbæri. Mér skilst meira að segja að hæstv. viðskiptaráðherra sé að semja nýja löggjöf um sameignarfélög þessa dagana. Við vitum ekki hvað felst í þessu hugtaki, sameignarfélag, til framtíðar. Eftir því sem kemur fram í greinargerð með þessu frumvarpi er þar er verið að breyta lögum. Það sem er kallað sameignarfélag á þessum pappír í dag, frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið sf., er ekki víst að verði það sama og sameignarfélag eftir örfáar vikur.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á í ræðu sinni áðan að við ræddum um Ríkisútvarpið í fjölmiðlanefndinni svokölluðu. Ég átti þar sæti með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur. Það er alveg rétt sem hún benti á að við vorum frekar ósátt og höfum svo sem sagt frá því opinberlega að við hefðum gjarnan viljað fá að fara aðeins í málefni Ríkisútvarpsins og gera jafnvel tillögur um hvernig við vildum hafa það til framtíðar. Við formenn þingflokkanna gerðum ákveðinn skriflegan fyrirvara um störf okkar áður en við hófum vinnu í nefndinni. Sá fyrirvari var skrifaður og undirritaður og sendur út 25. október 2004. Þar lýstum við því yfir að við áskildum okkur rétt til að fjalla að einhverju leyti um málefni Ríkisútvarpsins. Við hnykktum síðan á þessu aftur í bókun sem við skiluðum af okkur sama dag og við skiluðum af okkur þessari miklu skýrslu. Ég stend enn þá fast á þeirri skoðun minni að ég tel að málefni Ríkisútvarpsins eigi að taka heildstætt samtímis og við tökum fyrir málefni annarra fjölmiðla á Íslandi.

Eins og ég sagði áðan er ég mjög efins um hið svokallaða sameignarfélagsform. Maður spyr sig hvort ekki sé alveg eins gott að breyta þessu bara í hlutafélag. Við vitum þó alla vega hvað hlutafélag er. Norska ríkisútvarpið er hlutafélag. Það virðist ganga mjög vel. Þar dettur engum í hug að selja það hlutafélag. Það er mjög virt ríkisstofnun, mjög öflugt hlutafélag. Það er bundið í norsk lög að það skuli vera hlutafélag og er búið að vera þannig frá því 1996 að því ég best veit og bara gengið mjög vel, norska ríkisútvarpið, NRK A/S, „aksjeselskap“ á norsku, eins og stendur í lögunum norsku sem ég er með fyrir framan mig. Það virðist ganga mjög vel. Ég sé í sjálfu sér ekkert voðalega mikið athugavert við að taka umræðu um hvort við ættum að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag í staðinn fyrir að breyta því í eitthvað sem við köllum sameignarfélag. Þar fyrir utan þá spyr ég mig þeirrar spurningar hvort það sé yfir höfuð nokkur ástæða til að gera stórkostlegar breytingar á Ríkisútvarpinu, þ.e. með lagasetningu.

Mér finnst að við hefðum átt að taka góða umræðu um þetta í fjölmiðlanefndinni svokölluðu, skila af okkur áliti sem við hefðum síðan getað rætt í staðinn fyrir að ræða hér frumvarp sem er skrifað af einhverjum sem við vitum ekkert hverjir eru, frumvarp sem mér sýnist afskaplega óskýrt að mörgu leyti og að verið sé að gera kannski óþarfa breytingar. Tökum t.d. þennan nefskatt. Ímyndar fólk sér að það eigi eftir að vera meiri friður um þennan nefskatt en afnotagjöldin í dag? Það held ég ekki. Það verður eilífur ófriður um þennan nefskatt, ekki minni ófriður en um afnotagjöldin. Það er ég alveg sannfærður um. Einnig er rætt um að setja útvarpið á fjárlög. Félagar mínir í Frjálslynda flokknum hafa talað fyrir því. En ég hef leyft mér að vera þeim ósammála í því efni því ég er logandi hræddur við að Ríkisútvarpið verði sett á fjárlög. Ég logandi hræddur við það að þá verður búið að taka mikilvægan tekjustofn frá þessari stofnun, þessu fyrirtæki, og að tekjur þessa fyrirtækis verði þá að mjög stórum hluta algerlega háðar fjárveitingum frá stjórnmálamönnum. Við vitum það bara að stjórnmálamenn sem á hverjum tíma hafa ýmis verkefni sem þeir þurfa að setja peninga í hafa þá tilhneigingu að skera niður svona pósta eins og t.d. fjárveitingar til útvarpsreksturs eða fjölmiðlunar. Ég er ansi hræddur um að slíkt fyrirtæki sem væri háð vilja fjárveitingavaldsins, þ.e. þingmanna hvað þetta varðar, mundi fljótt lenda í fjárhagskröggum. Þá er betra, eðlilegra og sanngjarnara að svona fyrirtæki hafi ákveðinn tekjustofn. Við getum kallað afnotagjöld. Við getum kallað það nefskatt. Það yrði alltaf einhvers konar skattlagning og sú skattlagning yrði alltaf umdeild. Hún yrði alltaf óvinsæl af þegnunum. Þannig er það bara alltaf. Skattar hafa alltaf verið óvinsælir. Það mun ekkert breytast þó við reynum að kalla það eitthvað annað eða skilgreina þá upp á nýtt. Það er ekkert flóknara en það.

Mig langaði aðeins til að benda á örfá atriði í þessu frumvarpi. Það hafa margir talað hér á undan mér og bent á margt. Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að endurtaka það. Mig langaði örlítið til að koma að athugasemd um 4. gr. frumvarpsins þar sem talað er um efni á erlendu máli. Síðasta setningin 4. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.“

Mig langar við þetta tækifæri til að minna á að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram lagafrumvarp á Alþingi. Við gerðum það í haust. Það frumvarp varðar textun á íslensku efni. Það fjallar um það að sjónvarpsstöðvum skuli skylt að texta allt íslenskt efni sitt innan fimm ára eftir að þessi lög taki gildi. Þar erum við að taka tillit til þeirra sem eru heyrnarskertir eða heyrnarlausir. Þeir eru nú hvorki fleiri né færri en rúm 10% þjóðarinnar. Mér fyndist sjálfsagt og eðlilegt ef við ætlum að búa til ný lög um Ríkisútvarpið að við tækjum þetta með inn í myndina og létum Ríkisútvarpið þar með ganga á undan með góðu fordæmi, ef svo má segja, og sýndum þessum stóra þjóðfélagshópi þá sanngirni og virðingu sem honum ber og leyfðum þeim einnig að fylgjast með því sem fram fer í þeim miðli sem væri þá miðill allrar þjóðarinnar, væri sjálf þjóðargersemin. Hvað eigum við að segja? Jú, við getum kallað það þjóðargersemi í þessari fjölmiðlaflóru okkar sem er alla jafna mjög góð.

Mig langar líka að minna á annað, litla þingsályktunartillögu sem liggur fyrir þinginu og enn þá á eftir að mæla fyrir. Hún gengur út á að útvarpa beint frá öllum fundum Alþingis. Mér þykir rétt að minna á það fyrst ég stend í ræðustól. Ég tel að það sé eðlileg krafa að útvarpað verði beint frá öllum fundum Alþingis þegar fundir standa yfir, að það yrði eitt af lögbundnum hlutverkum Ríkisútvarpsins í framtíðinni að sinna því hlutverki. Það stendur í stjórnarskránni að þingfundir skuli haldnir í heyranda hljóði. Í nútímanum þar sem fjölmiðlun er svo öflug væri það sjálfsögð og eðlileg krafa að þingfundum væri útvarpað þannig að öll þjóðin gæti fylgst með því sem gerist á hinu háa Alþingi. Ég tel að þeim málum sé ekki nægilega vel hagað eins og háttar til í dag þótt vissulega hafi margt verið gert til bóta.

Að lokum langar mig að minnast aðeins á fjölmiðlanefndina sem ég á sæti í, einmitt vegna þess að ég minntist áðan á að ég teldi að fjölmiðlanefndin hefði átt að fá tækifæri til að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins og gera tillögur hvað varðar nýja löggjöf fyrir útvarpið, fyrst fólk vill á annað borð fara út í einhverjar stórkostlegar breytingar á þeirri löggjöf sem fyrir er.

Mig langar einmitt að koma aðeins inn á þetta með dreifikerfin. Ríkisútvarpið á í alvarlegum vanda í dag, mjög alvarlegum vanda. Það er sá vandi að Ríkisútvarpið býr ekki yfir stafrænu dreifikerfi og hefur ekki aðgang að stafrænu dreifikerfi. Stafrænt dreifikerfi er framtíðin. Það dreifikerfi sem Ríkisútvarpið notar í dag er úrelt og mun ekki ganga upp til framtíðar. Ef Ríkisútvarpið á að vera samkeppnishæft í framtíðinni verður það að búa yfir möguleikum til stafrænna útsendinga, bæði á hljóðvarpi en ekki síður á sjónvarpi.

Í skýrslu fjölmiðlanefndarinnar höfum við einmitt gert tillögu um að fyrirtækjum sem framleiða efni eða eru að senda út skuli gert kleift að fá aðgang að dreifikerfum. Við vitum að önnur fyrirtæki en Ríkisútvarpið byggja upp stafræn kerfi. Þau koma til með að byggja upp kerfi sem bjóða upp á möguleika til stafrænna útsendinga. Með tillögum okkar opnum við m.a. dyr fyrir Ríkisútvarpið til að fá aðgang að því að geta dreift efni sínu stafrænt í framtíðinni. Ég tel að þessi tillaga muni hafa töluvert að segja um framtíð Ríkisútvarpsins og möguleika þess í samkeppni til framtíðar. Það er m.a. ein af röksemdum mínum fyrir því að fjölmiðlanefndin fengi að skoða málefni útvarpsins og setja þau í samhengi við annað starf nefndarinnar.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt um þetta mikið lengra. Ég ætla bara að ítreka þá skoðun mína að ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að þetta frumvarp komi til 1. umr., fari síðan inn í menntamálanefnd og þá verði leitað eftir umsögnum um það. En síðan vil ég eindregið ráðleggja stjórnarmeirihlutanum á Alþingi að doka aðeins við og leyfa þessu máli að þroskast og þróast í sumar samhliða því sem við sjáum umræðuna um málefni fjölmiðla þroskast og þróast. Þá mætti koma með vandaða og heildstæða löggjöf aftur í haust og ná lendingu í þessum málum í eins mikilli sátt og mögulegt er. Það er mjög breið pólitísk samstaða á Alþingi og í íslensku þjóðfélagi um að verja Ríkisútvarpið. Það skiptir miklu máli og er mjög dýrmætt. Það veitir mikilvægt mótvægi við aðra fjölmiðla í landinu. Ég tel að svo eigi að vera áfram.

Ég er mjög hlynntur því að við stöndum vörð um Ríkisútvarpið og reynum að gera veg þess sem bestan. Þetta fyrirtæki skiptir það miklu máli fyrir menningu þjóðarinnar að ég tel að við ættum að halda því nokkurn veginn eins og við höfum haft það, þótt að sjálfsögðu megi ræða ákveðnar breytingar á stjórnarfyrirkomulagi og öðru þess háttar. En frumvarpið sem hér er til umræðu finnst mér vekja svo miklu fleiri spurningar en svör að full ástæða sé til að við stöldrum aðeins við og hugsum okkar gang í stað þess að rasa um ráð fram og gera einhverja vitleysu sem við síðan eigum eftir að sjá eftir.