131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:53]

Einar Karl Haraldsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásta Möller vakti upp mál sem var til mikillar umræðu á Alþingi, þ.e. ráðning fréttastjóra útvarps, og taldi að Auðun Georg Ólafsson hefði fengið óviðurkvæmilegar móttökur hjá fréttamönnum á útvarpinu. Ég skal ekki tjá mig um það hér en aðeins koma því á framfæri að þar bera þeir stjórnmálamenn sem hvöttu hann til að sækja um embættið og þeir ráðamenn sem réðu ráðningunni án þess að hann hefði forsendur til að sinna starfinu örugglega skipta ábyrgð og kannski bróðurpartinn af henni.

Ég ætlaði ekki að ræða það, heldur hitt að það er augljóst að hann gengur sár frá gerningnum og mér finnst ekki við hæfi af Ríkisútvarpinu að skjóta því fyrir sig að ekki hafi verið skrifað undir starfssamning við hann. Það var augljóst að búið var að ráða manninn formlega. Hann var mættur til vinnu. Það er nánast ótrúlegt að hann skuli ekki fá plástur á sárin í formi einhvers konar skaðabóta eða sárabóta fyrir það hvernig málinu lyktaði.

Til samanburðar má nefna að þegar forstjóri Íslandsbanka greip fram fyrir hendurnar á framkvæmdastjóra sínum í sambandi við ráðningu á útibússtjóra fékk sá útibússtjóri sárabætur án þess að hann mætti nokkru sinni til vinnu.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort henni finnist viðskilnaður Ríkisútvarpsins og meiri hluta útvarpsráðs við Auðun Georg Ólafsson vera sæmandi.