131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[20:57]

Einar Karl Haraldsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að taka það fram þegar frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. er til umræðu að lagasetning um Ríkisútvarpið, hlutverk þess og verkefnasvið er löngu tímabær. Frá því að einkaréttur Ríkisútvarpsins var afnuminn 1985 hefur því verkefni ekki verið sinnt að móta heildarlöggjöf um Ríkisútvarpið. Það hefur á margan hátt verið í lausu lofti þann tíma.

Þá er spurning hvernig við lítum á það frumvarp sem fyrir liggur. Nokkuð hefur verið gert úr því að það liggi yfir því leyndarhjúpur hverjir hafi samið frumvarpið. Hæstv. menntamálaráðherra hefur verið ófáanleg til að upplýsa okkur um það. Ég held að sá leyndardómur sé ekki stór. Ég held að skýringin liggi í því að lengi hafi legið fullsamið frumvarp um Ríkisútvarpið sem hlutafélag í menntamálaráðuneytinu og að skýringin á því að menntamálaráðherra getur ekki sagt okkur frá því hver hafi samið það gæti verið sú að menn hafi hreinlega gleymt því í ráðuneytinu, vegna þess að það sé að stofni til orðið svo gamalt. (Gripið fram í.) Já, fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, hefur væntanlega komið að því en hverjir voru með honum er kannski gleymt og grafið.

Öll hugsunin í lagasetningunni er hugsun og uppbygging hlutafélagalaga. Síðan kemur þetta einkennilega fyrirbæri sameignarfélag. Eins og menn hafa bent á er og mun vera í vinnslu hjá hæstv. viðskiptaráðherra frumvarp sem skýrir hlutverk sameignarfélaga og væntanlega skýrir það hvernig einn aðili eins og ríkið getur átt sameignarfélag með sjálfu sér. Alla vega eru ákveðin rök fyrir því í málinu að fara sér hægt með afgreiðslu frumvarpsins, að ástæða sé til að bíða eftir því að við fáum ný lög um sameignarfélög. Þá getum við borið lagasetninguna saman við það og að samræmi sé á milli, enda hefur hv. Alþingi nokkra reynslu af því að lög sem það samþykkir geta í sumum tilfellum stangast á við önnur lög. Það væri miður ef við samþykktum frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf. ef það stangaðist á við ný almenn lög um sameignarfélög. Þetta er svona almenn viðvörun.

Það hefur komið fram í umræðunni að nokkrir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru mjög gagnrýnir á einstök atriði þessa frumvarps og telja að vinna þurfi einstakar greinar þess miklu betur í nefndum þingsins. Ég tel að það sé í rauninni fagnaðarefni að þeir skuli hafa lýst þeirri afstöðu hér og það gefur vonir um að hægt sé að bæta úr ýmsum hnökrum og verulegum ágöllum sem eru á frumvarpinu.

Það hefur verið hlutskipti Alþingis að fara yfir tillögur hæstv. ríkisstjórnar í fjölmiðlamálum og vægast sagt hafa ríkisstjórninni verið mislagðar hendur í þeim efnum og þingið hefur heldur bætt úr fyrir ríkisstjórninni. Það fer því kannski eins fyrir þessu frumvarpi og fyrri frumvörpum á fjölmiðlasviðinu að það verður hlutverk þingsins að reyna að koma þeim í betra horf.

Komið hefur fram hér, bæði frá hv. þm. Merði Árnasyni og tveimur eða þremur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að einn höfuðágallinn á frumvarpinu er hversu almennt hlutverk Ríkisútvarpsins er skilgreint. Það vantar sem sagt skýrari afmörkun á almannaútvarpshugtakinu. Nefnd hafa verið dæmi, bæði úr 10. tölul. 3. gr. og 18. gr., sem sýna vel að í raun og veru er hlutverk Ríkisútvarpsins samkvæmt frumvarpinu allt og ekkert. Það er held ég hvorki gott fyrir Ríkisútvarpið né einkamarkaðinn að afmörkunin sé svona óskýr. Við höfum sem betur fer, eins og hér hefur verið nefnt, fyrirmyndir í þessu efni, til að mynda eins og fram kemur í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar frá því í fyrra, þar er minnst á Prag-samþykktina frá 1994 um almannaútvarp og þar er skilgreining sem er miklu skýrari og afmarkaðri. Þó að við förum ekki yfir hana í heild sinni, þá er þar talað um að almannaútvarp eigi að endurspegla ólíka heimspekilega afstöðu og trúarviðhorf í samfélagi sínu í því augnamiði að auka gagnkvæman skilning og umburðarlyndi og hvetja til eðlilega samskipta í samfélagi fjölmenningar og margvíslegra kynþátta, stuðla með dagskrá sinni að því að betur og víðar sé metinn fjölbreytileiki hins þjóðlega og hins evrópska menningararfs, tryggja að umtalsverður hluti dagskrárefnis sé frumframleiddur, sérstaklega kvikmyndir og sjónvarpsleikrit og annað listrænt efni, gera sér grein fyrir nauðsyn þess að nýta sjálfstæða framleiðendur og starfa með kvikmyndageiranum og fjölga síðan dagskrárkostum hlustenda og áhorfenda með því að hafa í boði efni sem alla jafna stendur ekki til boða á markaðsstöðvunum.

Þarna erum við nefnilega komin að kjarna málsins og styrk almannaútvarpsins. Það er hið menningarlega hlutverk. Það er hið þjóðlega hlutverk og það eru ýmiss konar verkefni sem einkamarkaðurinn hefur sýnt að hann er ekkert sérstaklega fær um að gegna og hefur ekki mikinn áhuga á að sinna. Það sem er í rauninni hlutverk okkar á Alþingi er að tryggja Ríkisútvarpinu fjárhagslegan grunn til þess að sinna hlutverki af þessu tagi. Það er mjög mikilvægt vegna þess að það er líka reynsla, og hefur komið fram í rannsóknum, að Ríkisútvarpið, þegar það stendur sig vel í þessu menningarlega og þjóðlega hlutverki, setur gæðastaðal sem hefur áhrif á fjölmiðlunina í öllu landinu, hefur mikil áhrif á einkamarkaðinn.

Takið eftir hvað fjölmiðlarnir hafa mikil áhrif hverjir á aðra. Við sjáum að Fréttablaðið ræður til sín fréttastjóra af útvarpinu og er í rauninni að gefa til kynna að það ætli sér að halda sig við fréttastaðal Ríkisútvarpsins. Við sjáum líka að Fréttablaðið hefur tekið mikið mið af Morgunblaðinu. Það var með ákveðna sérstöðu til að byrja með en tekur meira og meira mið af Morgunblaðinu um leið og Morgunblaðið, sem hefur orðið að sæta meiri samkeppni en það hefur nokkurn tímann áður orðið fyrir, er farið að laga sig að markaðsaðstæðunum og breyta á ýmsan hátt efnistökum sínum. Þannig hafa fjölmiðlarnir mikil og sterk áhrif hver á annan. Og einmitt á þeim sviðum sem Alþingi vill að Ríkisútvarpið ræki sérstaklega, og gefur því tækifæri til að rækja af myndarskap, getum við kannski haft sterkustu áhrifin á einkamarkaðinn og miklu meiri en að setja einhver boð og bönn fyrir þann markað.

Ég hef eins og aðrir hér miklar áhyggjur af 8. og 9. gr. um hið nýja útvarpsráð, Stjórn Ríkisútvarpsins sf. í 8. gr. og Starfssvið stjórnarinnar í 9. gr. Mér sýnist að það sé alls ekki skýrt afmarkað hvernig þessi stjórn á að vinna. Ég tek undir að á sumum sviðum er í raun og veru verið að veita þessari stjórn miklu meira vald en fyrrverandi útvarpsráði. Það helgast ekki síst af því að þetta nýja útvarpsráð getur tekið ákvarðanir um kaup og sölu hluta í öðrum félögum, nýja starfsemi á vegum félagsins og það getur lagt niður tiltekna starfsemi. Það þarf engan að spyrja þó að það leggi niður t.d. Rás 2, það eru bara tilfæringar innan húss. Það getur gjörsamlega breytt stefnu Ríkisútvarpsins með kaupum og sölu á nýjum fyrirtækjum á þeim markaði sem fyrir hendi er. Þarna er í raun og verið að leggja til að þessi stjórn geti breytt Ríkisútvarpinu í grundvallaratriðum á stuttum tíma án þess að nokkur fái rönd við reist. Það sýnir náttúrlega enn þá meira fram á nauðsyn þess að við mörkum Ríkisútvarpinu skýrari bás í heildarmynd fjölmiðlaflórunnar í landinu.

Þetta verður áfram ríkisstjórnarmeirihlutaútvarp eins og ætlunin er að skipa rekstrarstjórnina. Nokkrir hv. þingmenn hafa komið með tillögur um hvernig mætti breyta þessu þannig að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefði ekki svona ótvíræð forráð á Ríkisútvarpinu. Ég ætla ekki að fara að tíunda það en það er líka augljóst að til þess að útvarpsstjóri hafi eitthvert sjálfstæði gagnvart slíkri stjórn, hvernig sem hún er kosin, þá sýnist manni nauðsynlegt að ráða hann til einhvers tíma, þannig að hann sé ekki háður því að geta verið rekinn svo að segja innan ársins.

Ég vil svo nefna það sem nánast ekkert er komið að í þessu frumvarpi. Það er það sem komið hefur aðeins fram hjá hæstv. menntamálaráðherra að samhliða nýju lögunum verði gerður þjónustusamningur eða einhvers konar rekstrarsamningur við Ríkisútvarpið, væntanlega til einhverra ára, þar sem í rauninni væri skýrt hvernig það ætti að rækja hlutverk sitt, því varla kemst það yfir að gera allt sem það á að gera samkvæmt töluliðum 1–18 í 3. gr.

Væntanlega þarf að gera einhvers konar samning um það til einhverra ára hvernig á að túlka þetta. Við fáum ekkert að vita um hvað á að vera í þessum þjónustusamningi. Eins og frumvarpið liggur fyrir núna er alveg ljóst að þarna er í rauninni um rammann um dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins að ræða. Þar yrðu markaðar allar áherslur þess og skipting efnis og þess háttar. Spurningin er hvort ekki þurfi að gera kröfu um að meginhugmyndirnar sem menntamálaráðherra hyggst leggja til að verði í slíkum þjónustusamningi séu skýrðar á Alþingi og þær ræddar samhliða frumvarpinu.

Önnur spurning sem vaknar er sú: Hverjir eiga að gera þennan samning? Væri hér ekki rými til þess að almenningur kæmist að málunum, að við gætum haldið einhvers konar hlustendaþing, að einhvers konar akademía kæmi saman einu sinni á ári og væri ráðgefandi í dagskrárumræðu og gæti jafnvel verið falið að samþykkja þjónustusamning sem Ríkisútvarpið gerði við menntamálaráðuneytið? Þarna væri kominn vettvangur fyrir hlustendasamráð og fyrir umræðu um dagskrárstefnu sem gæti farið fram með ýmsum hætti og mætti jafnvel hugsa sér að sveitarstjórnir kysu til með reglulegu millibili. Ég held að það gæti verið mjög gagnlegt að slíkar umræður um dagskrárstefnu til lengri tíma yrðu gerðar almennari meðal þjóðarinnar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu eða virðist hafa algjörlega gleymst í hugmyndum hæstv. menntamálaráðherra.

Eins og ég hef áður nefnt og ég get tekið undir það sem hv. þm. Ásta Möller sagði áðan, að það vantar mikið á afmarkanir hér. Það gildir líka varðandi rétt Ríkisútvarpsins til þess að taka þátt í fyrirtækjum og stofna félög með öðrum og þess hátta. Ég get fallist á að í megindráttum á Ríkisútvarpið að hvetja og vera í samstarfi við aðila á einkamarkaði með því að kaupa af þeim efni, með því að leggja út verkefni, með því að styrkja með ýmsum hætti slíka starfsemi. Mér finnst a.m.k. útilokað að það sé eins og hér er, að annars vegar sé hlutverk Ríkisútvarpsins nánast allt og ekkert og hins vegar geti það tekið þátt í fyrirtækjarekstri nánast á hvaða degi sem er.

Ég tel að annaðhvort verði að afmarka hlutverkið og segja sem svo að eingöngu á sviðum sem taka til hlutverks Ríkisútvarpsins sé því heimilt að taka þátt í fyrirtækjarekstri eða að menn gengju það langt að segja að Ríkisútvarpið tæki aðeins þátt í rekstri sem tengdist veitustarfsemi, tæknimálum og þess háttar. Þarna er alla vega svið sem Alþingi þarf að taka mjög rækilega til skoðunar í sambandi við þetta frumvarp.

Ég tel einnig að í sambandi við auglýsingu á kostun sé ekki hollt að Ríkisútvarpið hafi fullkomlega frjálsar hendur. Ég vil ekki ganga svo langt að segja að það eigi að skerða möguleika Ríkisútvarpsins til að afla sér fjár með auglýsingum og kostun að neinu verulegu magni, en mér finnst þó að til greina komi að setja því ákveðin mörk, t.d. þannig að tekjur RÚV skuli að jafnaði ekki fara fram úr t.d. 20% af heildartekjum á auglýsingamarkaði ljósvakamiðla, að það komi fram af hálfu löggjafans að hann ætli sér að standa þannig að fjármögnun Ríkisútvarpsins að það þurfi ekki að leita út á einkamarkaðinn nema að ákveðnu marki. Það væri líka ákveðin tillitssemi við einkamarkaðinn sem við ætlum að fara að setja rammalöggjöf um að segja sem svo að honum verði markaður sinn bás til að keppa á og Ríkisútvarpinu líka ákveðinn bás og unir svo hvor aðilinn um sig glaður við sitt.

Það sem ég held að verði kannski eitt af því erfiða sem við eigum eftir að takast á við og megi hafa áhyggjur af er sjálf fjármögnun Ríkisútvarpsins, vegna þess að mér sýnist að tekjurnar af nefskattinum sem ríkisstjórnin leggur til geri ekki nema rétt svo að halda í horfinu hjá Ríkisútvarpinu. Það sem Ríkisútvarpið losnar við að greiða til Sinfóníuhljómsveitarinnar og sparar í rekstri auglýsingainnheimtu dugir nefnilega ekki nema rétt fyrir skuldbindingum vegna lífeyrisgreiðslna starfsmanna. Mér sýnist að fjármögnunarhugmyndirnar séu u.þ.b. status quo.