131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:28]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz segir að hún hafi hlustað eftir viðhorfum stjórnmálaflokkanna varðandi breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Reyndin er sú að við óskuðum eftir því að frumvörp okkar kæmu til umræðu samhliða þessu frumvarpi til að hv. þingmanni gæti orðið að ósk sinni. Ég man ekki betur en að hún legðist gegn því í dag.

Hún sagði jafnframt að auðveldara væri að gagnrýna og fara almennum orðum um mál en að setja fram markvissar tillögur. Það höfum við hins vegar gert í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í frumvarpi okkar, lagt fram markvissar tillögur.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í það þegar hún segir að þetta frumvarp komi til með að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins: Hvað er það nákvæmlega sem hún á við með því? Hún er þá væntanlega að vísa í breytt rekstrarform fyrirtækisins sem mörg okkar telja að muni veikja stöðu Ríkisútvarpsins.