131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:34]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Herra forseti. Það var einmitt vegna gagnrýni á þá þætti í frumvarpinu sem varða fjárhagslegt sjálfstæði og eflingu Ríkisútvarpsins fjárhagslega og faglega sem ég leitaði eftir stefnu Samfylkingarinnar sem mér var sagt í umræðunni í dag, eins og öðrum hv. þingmönnum, að væri að finna á þessu tiltekna þingskjali en þar er akkúrat enga stefnu að finna.

Ég lít þannig á að með þeim breytingum sem verið er að gera, og tek fram að við hljótum við meðferð málsins í menntamálanefnd, þeir þingmenn sem þar sitja, m.a. að kalla eftir viðhorfum starfsmanna Ríkisútvarpsins til breytinganna og fá fram þar allar upplýsingar um það hvort þeir telji að með þessu sé á einhvern hátt verið að rýra kjör þeirra.

Það kemur á hinn bóginn ekki á óvart að hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, skuli halda því á lofti að þeir séu betur staddir í Ríkisútvarpinu í því formi sem það er núna en í sameignarfélagi. En það hlýtur að koma á daginn við þinglega meðferð málsins. (Forseti hringir.)

Við vitum líka að tekjur Ríkisútvarpsins eins og þær eru samsettar hafa verið gagnrýndar í gegnum árin.