131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:36]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz hjartanlega fyrir hennar greinargóða svar. Í því kom engin ábending fram um að í frumvarpinu væri eitt einasta atriði til þess fallið að efla stofnunina fjárhagslega, enda er ekkert slíkt atriði að finna í frumvarpinu og ég þakka hv. þingmanni hreinskilnina um það.

Sömuleiðis hitt að benda ekki á eitt einasta atriði í frumvarpinu sem er til þess fallið að gera starfsemi stofnunarinnar faglegri. Þvert á móti er ástæða til að óttast vaxandi pólitísk afskipti af starfseminni með tilkomu frumvarpsins. Ég verð þess vegna einfaldlega að segja það sem mína skoðun, virðulegur forseti, að frumvarpið um Ríkisútvarpið sem svo lengi hefur verið beðið eftir og svo miklar væntingar bundnar við er hvorki fugl né fiskur. Það er ekki barn í brók (Forseti hringir.) því að í því er ekki tekið á einu einasta af höfuðvandamálum stofnunarinnar.