131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:38]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég óska eftir að forseti hugleiði bón hv. þm. Jónínu Bjartmarz því að eina leiðin til að gera það eins og málum er nú komið er að fresta umræðunni og taka upp umræðu um mál nr. 400 — við ræðum nú mál nr. 643 — tillögu til þingsályktunar um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp, sem ég flyt ásamt fimm öðrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar.

Það er undarlegt að hv. þingmaður skuli leyfa sér að koma upp að þessu máli óræddu og kalla eftir stefnu Samfylkingarinnar sem hún hafi ekki fundið í þessum málum. Í tillögugreininni og einkum í greinargerðinni er að finna þann ramma, þann grunn sem gæti t.d. orðið mönnum að miklu gagni í framhaldsvinnu um frumvarpið. Ég spyr: Hvaða stefnu vantar hv. þingmann? Hér kemur allt saman fram sem þarf að koma fram.

Þegar menn setjast niður í nefnd eða semja frumvarp (Forseti hringir.) koma menn sér saman um ákveðnar leiðir. Við höfum af ásettu ráði ekki viljað festa það niður til þess að geta náð samkomulagi m.a. við Framsóknarflokkinn um það.