131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:45]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Út af því síðasta sem fram kom í andsvörunum verð ég að segja að mér finnst eins og farið sé að örla á h-inu í staðinn fyrir s-ið í framsóknarranninum úr því að hv. þingmaður sagði og hafði eftir framsóknarmönnum að þeir væru komnir á þá skoðun, a.m.k. sumir hverjir, að kominn væri tími til að losa sig við Ríkisútvarpið út af því máli sem byrjaði svo óbjörgulega og endaði 1. apríl.

Það er kannski ekki að undra að lent hafi í ógöngum hjá Ríkisútvarpinu þegar sá flokkur sem oftast og mest hefur talað um að það ætti að losa sig við það hefur farið með málefni þess í 14 eða 15 ár. Það er vonum seinna að fram komi frumvarp um einhverjar breytingar á Ríkisútvarpinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft undir ráðherrum sínum allan þennan tíma. En það er reyndar undarlegt afkvæmi sem hér verður til. Það hefur aldrei sést áður. Það þekkir enginn þetta sf.-fyrirbrigði sem á að vera hatturinn á þessari stofnun. Það er svo umhugsunarefni út af fyrir sig að stjórnarflokkarnir skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að finna þyrfti form fyrir rekstur Ríkisútvarpsins sem hvergi fyrirfinnst annars staðar. Ég átta mig satt að segja ekki á því hvers vegna það var gert en sennilega hefur styrinn staðið um hvort vera ætti hf. eða sf. á eftir Ríkisútvarpinu eins og það endaði í þessu frumvarpi.

Eins og ég sagði áðan hefur mörgum sjálfstæðismönnum ekki liðið vel með Ríkisútvarpið. Sumir þeirra hafa flutt frumvörp um að selja Ríkisútvarpið. En niðurstaðan virðist vera sú að þar á bæ hafi menn barið sig saman um að það skuli að vera almannaútvarp til framtíðar og samið um það við Framsóknarflokkinn að það skuli gert með þessum hætti sem þó vekur þá hugsun að verið sé að stytta leiðina yfir í hf. og hugsanlega sölu á Ríkisútvarpinu í framhaldi af því.

Ég ætla ekki að fara að ræða fréttastjóramálið út af fyrir sig en mér finnst full ástæða til að minna menn á að það mál kom upp vegna þess að hin pólitíska yfirstjórn á Ríkisútvarpinu er óviðunandi og hefur verið alla tíð. Það sem kannski mest er hægt að gagnrýna það frumvarp sem hér liggur fyrir er það að ekki er verið að leysa stofnunina undan þeim pólitísku vandamálum sem þar hafa verið. Mér er alveg sama hvað menn kalla þetta, sumir vilja kalla þetta einhvers konar rekstrarstjórn en þetta er ekkert annað en pólitísk yfirstjórn undir meirihlutavaldi þeirra flokka sem eru við völd á hverjum tíma sem hér er til stofnað. Gert er ráð fyrir að þessi stjórn geti skipt sér af öllum mögulegum hlutum. Það er ekki verið að leysa aðalvandamál Ríkisútvarpsins.

Ég held að hægt sé að ná samkomulagi um framtíð Ríkisútvarpsins ef menn leysa úr því hvernig stjórna eigi útvarpinu án þess að pólitísk afskipti séu þar uppi á borðum. Ég tel að það sé hægt og eigi fyrst og fremst að felast í því að velja útvarpsstjóra með þeim hætti að samkomulag sé um þá leið, annaðhvort að það sé einhvers konar aukinn meiri hluti fyrir vali útvarpsstjóra eða að menn setji almennar reglur um hvernig eigi að velja hann með tilteknum hætti eins og nefnt er í þingsályktunartillögu okkar.

Af því að ég nefni þá tillögu finnst mér dálítið hart að menn skuli gagnrýna hana hér einfaldlega vegna þess að í henni er gert ráð fyrir að fara svipaða eða sömu leið og menn mærðu hér í umræðunni í morgun þar sem verið var að ræða hvernig taka ætti á málum almennt á fjölmiðlamarkaðnum. Hér leggjum við til sömu vinnubrögðin og þá koma menn og heimta að við förum hina leiðina, komum með allt niðurnjörvað hvernig við viljum hafa þetta. Auðvitað gátum við það en við vitum að um þjóðarútvarp getur aldrei orðið friður öðruvísi en að víðtæk pólitísk sátt sé um rammann sem er utan um þann rekstur. Það er þess vegna sem niðurstaða okkar varð sú að leggja fram þessa þingsályktunartillögu sem er 400. mál þingsins.

Mér finnst að menn ættu ekki að loka sig inni í umræðunni um það þingmál sem við ræðum hér. Það er raunar ekkert mjög hættulegt þó að ýmislegt standi í því sem við vildum hafa öðruvísi ef viljinn til að ná pólitískri sátt um framtíð Ríkisútvarpsins er fyrir hendi og ef menn vilja leita að þeirri sátt. En ef menn eru búnir að gleyma því sem þeir lærðu hvað varðar öll fjölmiðlamálin og eru ekki tilbúnir að leita að pólitískri sátt geta menn auðvitað lent í sömu vandræðunum áfram. Ég get ekki spáð vel fyrir Ríkisútvarpinu ef menn ætla ekki að taka betur á stjórnunarvandamálum þess en þarna er til stofnað.

Það má auðvitað ræða margt um hvernig fjármagna eigi Ríkisútvarpið. Það hefur komið skýrt fram að ekki er verið að leysa úr fjárhagsvanda stofnunarinnar með því sem hér er lagt til og menn geta ekki skilið við málin með þeim hætti. Menn hljóta að þurfa að ganga þannig fram að það sé alveg á hreinu hvað menn ætla sér varðandi fjármögnunina. Þegar menn ætla að breyta úr afnotagjöldum yfir í skatt þá held ég að menn hljóti að verða að skoða þá leið að breyta þeim alfarið í skattlagningu, þ.e. fjármagna þetta alfarið með skattlagningu. Hvers vegna að búa til sérskatta sem eru þó ekki sérskattar fyrir Ríkisútvarpið, sem byggjast ekki á því að menn noti Ríkisútvarpið, sem byggjast á einhverju öðru? Byggjast á því að þetta séu sjálfstæðir skattaðilar, byggjast á því sem sett er fram í frumvarpinu um tekjustofnana. Mér finnst að menn hljóti þá líka að verða að bera saman hvort ekki sé alveg eins gott að ganga alla leið, taka þetta fé af almennum skattstofnum og koma síðan á þjónustusamningi til langs tíma. Taka þessa fjármuni af fjárlögum og hafa reglu um hvernig á að sjá til þess að búið verði að gera nýjan þjónustusamning það löngu áður en hinn rennur út að það hafi ekki truflandi áhrif á rekstur útvarpsins. Ég gæti vel hugsað mér að þjónustusamningurinn væri til fjögurra ára og að nýr samningur ætti að liggja fyrir ári áður en hinn fyrri rennur út. Þannig geta menn unnið að þessum málum.

Auðvitað verða menn að vita hvað þeir ætla sér með Ríkisútvarpinu. Ég ætla að nefna hér 12. gr. frumvarpsins, kannski hef ég misst af einhverju í dag en hefur verið útskýrt hvað menn meina með því sem þar stendur? Þar segir:

„Nú óska stjórnvöld eftir því að Ríkisútvarpið sf. leggi í framkvæmdir eða rekstur til almannaheilla í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að ekki skilar arði, og skal þá gera um það samning milli ríkisstjórnarinnar og Ríkisútvarpsins sf.“

Hvað eru menn að tala um? Er verið að tala um landshlutaútvörpin? Eru þau landshlutaútvörp sem eru starfandi núna utan við það sem stendur þarna? Er bara átt við það ef Ríkisútvarpið ætlaði sér að veita meiri þjónustu en það veitir núna á einhverjum öðrum landsvæðum? Ég tel að það væri gott að menn fengju að vita nokkuð betur hvað hér er á ferðinni því að ég held að það sé mjög erfitt að finna út hvað af því sem Ríkisútvarpið er að gera skilar arði, að það geti orðið svolítið erfitt að finna út úr því. En hér virðist fyrst og fremst vera átt við eitthvað sem Ríkisútvarpið tæki upp á að gera til viðbótar við það sem það hefur verið að gera og þá á að skoða það út frá því hvort það skili arði. Verða þá allar nýjungar í rekstri Ríkisútvarpsins metnar út frá því hvort þær skili arði? Ég held að það geti orðið býsna flókið og mér finnst einhvern veginn að það boði ekki endilega gott hvað varðar þjónustu á landsbyggðinni af því að byggðasjónarmið eru þarna sérstaklega tilgreind.

Ég nefndi áðan að mér fyndist hið nýja útvarpsráð hafa öll völd í sínum höndum. Það ræð ég bara af orðalaginu í 9. gr. frumvarpsins þar sem stendur m.a. að það gefi út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í útvarpi. Síðan stendur í athugasemdum við frumvarpið, í 9. tölulið í kaflanum Meginefni frumvarpsins:

„Útvarpsráð verður lagt niður og þar með hætt afskiptum þess af dagskrá, sbr. nú 8. gr. laga um Ríkisútvarpið.“

Mér finnst þetta orðalag stangast á við það sem stendur í greininni. Og ég tók eftir því að hv. þm. Dagný Jónsdóttir svaraði í andsvari í dag að hún teldi að menn læsu meira í þetta en átt hefði að gera samkvæmt hennar skilningi. Ég ætla bara að að vona að það sé rétt, að það sé ekki meiningin að það útvarpsráð sem nú er ætlað að setja á laggirnar fari ekki að stjórna fréttum eða fréttaflutningi og setja um hann einhverjar sérstakar reglur.

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu. Ég tel að félagar mínir hafi gert fullkomlega grein fyrir hvaða vilja og stefnu við höfum mælst til að unnið yrði að til að koma Ríkisútvarpinu út úr þeim vanda sem það er í. Stjórnarliðar ættu í fullri alvöru að muna eftir því sem fram fór á fundum Alþingis fyrr í dag þar sem menn töluðu um pólitíska niðurstöðu sem náðist eftir gott starf, samstarf. Ef ástæða hefur verið til að ná saman um fjölmiðlamarkaðinn og hvernig taka ætti á málefnum þar, sem við ræddum fyrr í dag, þá held ég að öllum eigi að vera ljóst að ekki þurfi síður og reyndar miklu fremur pólitíska samstöðu um Ríkisútvarpið sem slíkt. Ég hvet eindregið til þess að menn leiti hennar, festi sig ekki í þeirri niðurstöðu sem hér er lögð fram og hefur orðið til með samningum milli stjórnarflokkanna.