131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:03]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Íslenska þjóðin getur vel tekið afstöðu til þess að kjósa í slíkt embætti. Ég efast ekkert um það. Hún hefur sýnt fullkomið sjálfstæði gagnvart því að kjósa t.d. forseta. Stjórnmálaflokkarnir hafa aldrei komist upp með að ráða því. Ég held að það kæmi alveg til greina að velta þessu fyrir sér. Hin leiðin er miklu einfaldari í sjálfu sér, að hafa ákvæði um að aukinn meiri hluta þurfi til þess að ráða útvarpsstjóra og að hann fái víðtækt vald. Þetta með fréttastjórann kæmi þá aldrei upp vegna þess að útvarpsstjóri hefði þessi völd í sínum höndum. Ég tel að útvarpsstjóri sem hefði vald með þeim hætti sem þarna væri um að ræða og væri ekki truflaður af afskiptum útvarpsráðs eins og útvarpsstjóri hefur verið og var í þessu máli sem hv. þingmaður nefndi, hefði full tök á því að stjórna sinni stofnun og ráða sína starfsmenn án þess að þar væri allt logandi í illdeilum eins og verið er að vitna hér til. Alla vega er klárt að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir á blöðum og hefur orðið til í samkomulagi milli stjórnarflokkanna leysir ekki útvarpið úr þeim pólitísku vandamálum sem hafa verið þar. Það finnst mér vera uppgjöf og að þannig megi menn ekki skilja við þetta mál.