131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:16]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason vék að ýmsum sjónarmiðum og leiðum varðandi stjórnskipun RÚV sem hann telur ekki gerð fullnægjandi skil í því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Ég vildi inna hv. þingmann eftir því hvort hann hefði mótað sér skýrar hugmyndir um hvaða leið hann vildi fara. Hann gerði í ræðu sinni, eins og raunar hefur borið á í umræðunni í dag, grein fyrir ýmsum hugmyndum sem hann kastaði fram, um hlustendaþing, einhvers konar akademíu í anda tillagna Frjálslynda flokksins, með beint kjör útvarpsstjóra og fleira þess háttar. Mig langaði til að inna hv. þingmann eftir því hvort hann hefði mótað sér skýrari afstöðu til hugmynda af þessu tagi. Hv. þingmaður virðist hafa nokkuð skýra mynd af því hverju hann er á móti. Hann er á móti því sem stendur í frumvarpinu en mig langar að kalla eftir því hvort hann geti gert grein fyrir því sem hann er fylgjandi.

Varðandi fjármögnun Ríkisútvarpsins þá þætti mér ánægjulegt ef hv. þingmaður gæti gert nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum og stefnu flokks síns í þeim efnum. Þar virðist í meginatriðum hið sama uppi á teningnum. Þeir vita hverju þeir eru á móti. Þeir eru á móti þeirri tillögu um nefskatt sem fram kemur í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. Hins vegar er ýmsum hugmyndum kastað fram. Hv. þm. Mörður Árnason vitnaði í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrr í dag þar sem gert var ráð fyrir einhvers konar tengingu við fasteign, að gjaldtakan yrði lögð á fasteignaeigendur eftir einhverjum mismunandi leiðum. Hv. þm. Jóhann Ársælsson virtist mér aftur á móti tala fyrir því að þetta yrði á einhvern hátt sett í almenna skattkerfið og fjármagn til Ríkisútvarpsins yrði (Forseti hringir.) ákveðið með fjárlögum.