131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:20]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í umræðum um fjölmiðlamál í dag var hugtakið „hlaðborð hugmynda“ afar oft notað. Það var talinn löstur á tillögum fjölmiðlanefndarinnar fyrri, sem skilaði skýrslu sinni fyrir rétt um ári, að hún hefði sett fram hlaðborð hugmynda sem síðan hefði verið hægt að velja úr. Ég verð að segja að þó að ég sé kannski einhverju nær um afstöðu hv. þm. Marðar Árnasonar eftir þetta svar hans áðan þá finnst mér afstaða Samfylkingarinnar í málinu fyrst og fremst vera einhvers konar hlaðborð hugmynda. Ég verð að segja að mér finnst afstaðan ekki ljós.

Það er ljóst að hv. þingmenn Samfylkingarinnar reyna að finna þessu frumvarpi margt til foráttu. Sumt af því finnst mér, verð ég að segja, harla langsótt, t.d. þegar mikið er gert úr meintum pólitískum afskiptum af stjórnskipun Ríkisútvarpsins, nái frumvarpið fram að ganga. Mér finnst menn horfa gersamlega fram hjá því að hið pólitíska vald er fjarlægt — eins og ég les frumvarpið — frá starfsemi Ríkisútvarpsins miðað við það sem nú er. Það er stigið skref í þá átt.

Það gerist á tvo vegu. Í stað þess að ráðherra skipi útvarpsstjóra eins og er í dag er þessi stjórn, sem vissulega á sér grunn í hinu pólitíska valdi á Alþingi. Hún velur útvarpsstjórann Hins vegar, sem skiptir ekki síður máli, er verksvið þessarar stjórnar þrengt miðað við störf útvarpsráðs í dag sem ég held að sé til þess fallið að draga úr pólitískum afskiptum af daglegri starfsemi fyrirtækisins.

Ég verð hins vegar að segja, bara til þess að hafa sagt það, (Forseti hringir.) að ég hef aldrei haft sömu áhyggjur af pólitískum afskiptum af Ríkisútvarpinu og hv. þingmenn Samfylkingarinnar virðast sumir hafa.