131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:30]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er snjöll tillaga hjá hv. þm. Pétri Blöndal og frumleg sýn. Ég tel reyndar að margt væri betra á Ríkisútvarpinu ef starfsmenn hefðu fengið að ráða þar meira en þeir hafa gert, án þess að ætla nú að fara út í túlkanir á fréttastjóramálinu. Ég held að við ættum kannski að gera það annars staðar en í stuttu andsvari.

Hins vegar um pólitíkina — ég þakka fyrir þá spurningu, ég held að hún sé mjög þörf. Ég reyndi í upphafi ræðu minnar áðan að koma einmitt inn á þetta, sem mér finnst vera misskilningur hjá hv. þm. Pétri Blöndal og Birgi Ármannssyni og fleirum, að það er auðvitað þannig að það er beinlínis hlutverk okkar sem erum hér kjörin á þing og ekki síður þeirra sem veljast í ráðastöður hjá framkvæmdarvaldinu að sjá um almenna stefnumótun á þessu sviði eins og öðrum. En við verðum að virða það sem heitir fagleg mörk í þessu efni. Það er kominn tími til að stjórnarþingmenn geri sér grein fyrir því að blaðamennska, fréttamennska, dagskrárgerð og fjölmiðlastörf eru ákveðin fög sem lúta sínum eigin faglegu lögmálum. Það sem okkur ber að gera er að láta fagmennina í friði, (Gripið fram í.) láta þá vinna innan almennrar stefnumótunar, veita þeim skilyrði til þess að starfa við gott almannaútvarp. Hlutverk okkar er, fyrir utan það að veita þessi skilyrði, að fylgjast með almennri stefnumótun á þessi sviði, að setja reglur um það sem þarf að setja reglur um, nýtt sem kemur upp á, sem t.d. er flutningsskylda og flutningsréttur á hinu stafræna sviði við þessa nýju hætti sem skapast. En við eigum ekki að vera með nefið ofan í hálsmálinu á fagmönnunum sjálfum.