131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:45]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mikið held ég að starfsmönnum leikfélaga og annarra þyki gaman að hlusta á það að þeir séu ekki faglegir, og að fagmennska sé bara uppi í RÚV. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að almenningur sé sama sinnis og hún um t.d. fagmennsku fréttastofu RÚV síðustu tvær vikurnar, af fréttaflutningi af ákveðnu máli sem hv. þingmaður stóð líka hér að, ákveðnu einelti gagnvart einum manni sem sótti í sakleysi sínu um stöðu hjá RÚV og var flæmdur í burt. Fréttaflutningurinn var þvílíkur að maður þarf sérstaklega lituð gleraugu til að segja að hann hafi verið faglegur og hlutlaus.