131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:53]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að okkur beri að gæta að menningararfi okkar en ég er þess fullviss engu að síður að margir fleiri en starfsmenn Ríkisútvarpsins geti komið að slíkri þáttagerð. Það höfum við séð í gegnum tíðina á frjálsum útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Það efni er auðvitað mjög mismunandi, mismunandi metnaðarfullt, en ég hef séð marga mjög merkilega þætti sem einkaútvarps- og -sjónvarpsstöðvar hafa boðið upp á þannig að við getum ekki alhæft hvað þetta varðar.

Við komum áðan að menningararfinum. Hann liggur um allt land, m.a. í svæðisútvörpunum og auðvitað kostar þetta mikla peninga. Ég minnist þess að þegar mikil umræða var hér 1. apríl sl. — af því að hv. þingmaður vék að pólitíkinni í sambandi við útvarpið — sagði þessi hv. þingmaður að ráðherrarnir yrðu að koma inn í stofnunina til að taka þar á ákveðnum vandamálum. Þegar akkúrat var verið að ráða fréttastjórann sagði hv. þingmaður það hér í þessum ræðustóli. Þá var það í raun og veru ákall um það að framkvæmdarvaldið kæmi að rekstri útvarpsins og það þótti mér býsna sérkennilegt vegna þess að þetta er sjálfstæð stofnun og á að vera sem allra sjálfstæðust, og þar á fólk að hafa frelsi til að skapa.

En við erum sammála um það, eins og kom fram hér í fyrra andsvari — ég er alveg viss um það, og hv. þingmaður tekur undir það — að það er hægt að skera niður í yfirstjórninni og gera starfsemi þessarar stofnunar, sem okkur þykir svo vænt um sem raun ber vitni, miklu skilvirkari.