131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[22:57]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Tíminn er naumur, 10 mínútur, og vildi ég helst geta komið víða við en ætla að einskorða mig við tiltekna þætti. Fyrst ætla ég að víkja að hlutverki. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði réttilega að sumt í 3. gr. ríkisstjórnarfrumvarpsins um hlutverk og skyldur væri óljóst og þyrfti nánari skýringar við, vék að 13. efnisliðnum svo að dæmi sé tekið. Ég vík að þessu í ljósi ummæla hv. þm. Jónínu Bjartmarz hér fyrr í kvöld, en svo var að skilja á ummælum hennar að nú fyrst væru skýrar línur um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins. Og það er vissulega nóg um skilgreiningarnar í 3. gr., í 18 liðum, og ég ætla að tipla á þeim:

1. Að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

2. Að senda út til landsins alls efni, a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring.

3. Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar.

4. Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega.

5. Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.

6. Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri.

7. Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.

8. Að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs.

9. Að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs.

10. Að veita alla þá þjónustu sem unnt er með tækni útvarpsins og þjóðinni má að gagni koma.

11. Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar og útvarps utan höfuðborgarsvæðisins.

12. Að halda uppi nauðsynlegri öryggisþjónustu á sviði útvarps.

Síðan þessi 13. liður sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að, og svo áfram:

14. Að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að tilgangi félagsins verði náð, svo sem ritað mál, hljómplötur, hljóðsnældur o.s.frv.

15. Að sjá um að frumflutt dagskrárefni félagsins verði varðveitt til frambúðar.

16. Að standa fyrir, taka þátt í eða styðja tónleika og annað skemmtanahald.

17. Að ávaxta þá fjármuni félagsins sem lausir kunna að vera hverju sinni.

18. Að gera hvaðeina sem stjórn félagsins telur óhjákvæmilegt eða stuðlar að því að tilgangi félagsins verði náð.

Fínt. Víðtæk skilgreining á hlutverki Ríkisútvarpsins.

Svo var að skilja á hv. þingmanni Framsóknarflokksins, Jónínu Bjartmarz, að nú fyrst lægju fyrir skýrar línur um hlutverk Ríkisútvarpsins. En, herra forseti, í lögum um Ríkisútvarpið er flestar þessar skilgreiningar að finna. Allflestar þessar skilgreiningar er að finna í 3., 4. og 5. gr. útvarpslaga. Hér segir að Ríkisútvarpið skuli leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð — svipaðar skilgreiningar. Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi o.s.frv. Ég vék að þessu öllu áðan. Ríkisútvarpið skal m.a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir et cetera. Útvarpsefni skal miða við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, veita skal alla þjónustu sem unnt er með tækni útvarpsins sem þjóðinni má að gagni koma. Síðan eru áfram talin mjög svipuð efnisatriði og er að finna í þessu frumvarpi.

Við teljum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að á einu atriði þurfi sérlega að herða í þessari skilgreiningu á hlutverki Ríkisútvarpsins. Það lýtur að innlendu efni. Ríkisútvarpið og sérstaklega sjónvarpið hefur ekki sinnt þessari skyldu sinni í seinni tíð sem skyldi. Í frumvarpi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er sérstaklega vikið að þessu, alveg sérstaklega hert á þessu ákvæði. Við viljum bæta því inn í 3. gr. laganna.

Ég vík að þessu núna vegna þess að mér finnst menn fara mjög almennum orðum um mál og kynna þetta nýja frumvarp eins og hér sé að verða til einhver ný saga, það séu kaflaskil varðandi hlutverk Ríkisútvarpsins. Þessar skilgreiningar er allar eða allflestar að finna í núverandi útvarpslögum, þær eru þarna. Menn segja: Hér er þverpólitísk samstaða um að styrkja Ríkisútvarpið og efla það. Nú er komið að því að gera þetta. Hvað er að hjá Ríkisútvarpinu? Hvað er það sem er að?

Í fyrsta lagi er það fjárskortur. Tekjur Ríkisútvarpsins hafa dregist saman um 15% að raungildi á undangengnum áratug. Vegna þess að ríkisstjórnin hefur staðið gegn beiðni útvarpsins um að hækka afnotagjöldin aftur og ítrekað er staðreyndin núna sú að við stöndum frammi fyrir 15% rýrari tekjum en fyrir tíu árum. Ríkisútvarpið hefur reynt að bregðast við þessum samdrætti með því að fækka starfsmönnum. Það eru 15% færri starfsmenn hjá Ríkisútvarpinu núna en fyrir tíu árum. Árið 1996 voru fastráðnir starfsmenn að meðaltali 378, en voru 320 á síðasta ári. Þetta er einn vandinn sem Ríkisútvarpið stendur frammi fyrir, þ.e. að tekjurnar hafa farið þverrandi. Við erum ekki með tillögur í þessu frumvarpi um að bæta fjárhaginn til frambúðar. Jú, það á að skera Sinfóníuna frá Ríkisútvarpinu sem ég tel reyndar vera mjög misráðið. Það er ekki búið að gera það dæmi allt upp. Væntanlega ætlar Ríkisútvarpið að nota efni Sinfóníunnar og þarf þá væntanlega að kaupa það. Ríkisútvarpsstöðvar á Norðurlöndum og víðar hafa farið út á þá braut að styrkja tengslin við stofnanir á borð við sinfóníuhljómsveitir og aðrar hljómsveitir. Ég tel að þetta sé misráðið hér. Þetta er einn vandinn, nokkuð sem hefur verið gagnrýnt á undanförnum árum.

Hver er hinn vandinn? Jú, hann er sagður stjórnunarlegs eðlis. Menn hafa þá horft til afskipta útvarpsráðs af mannaráðningum. Það er það sem menn hafa horft á. Þetta er einfaldlega hægt að laga með breyttu hugarfari. Það er svo einfalt mál. Við erum hins vegar með tillögur um það, raunhæfar tillögur og markvissar (Gripið fram í.) um hver skuli vera tengslin á milli fulltrúa almannavaldsins, þ.e. þingsins og stofnunarinnar. Þau eiga ekki að vera valdstjórnarlegs eðlis, heldur eiga að koma fram mismunandi viðhorf. Við erum með tillögur um hvernig eigi að taka á þessu.

Ég heyri alveg tóninn í mönnum hér, mörgum. Því miður hefur hann heyrst líka frá stjórnarandstöðuþingmönnum, frá þingmönnum Samfylkingarinnar. Mér finnst mjög miður þegar menn tala um það sem einhvern sérstakan vanda að Ríkisútvarpið skuli vera ríkisstofnun og að þar skuli vera starfsmenn ríkisins. Vita menn að hverju er verið að ýja? Menn eru að segja að vandinn sé kjör og réttindin sem fólkið hefur. Eða vilja menn hafa það þannig eins og gerðist á Stöð 2 þar sem fréttastjóri var rekin skýringalaust? Ég spyr: Var það vegna þess að hún þóknaðist ekki eigendum stöðvarinnar? Það var skýringalaust, umræðulaust. Inn í þennan heim vilja menn hverfa. Að setja alla stjórnsýsluna í Ríkisútvarpinu bak við lokuð tjöld. Út á það gengur þetta. Síðan að geta rekið fólk skýringalaust, það er eitt af því sem vinnst. Ég spyr þá þingmenn sem hafa talað um hið þunga ríkiskerfi og réttindi ríkisstarfsmanna: Hvað eiga menn nákvæmlega við? Hvaða réttindi þarf að taka af fólkinu?

Ef ég væri í stjórnarmeirihlutanum mundi ég býsnast mjög varlega yfir lífeyrisréttindum starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ég mundi tala mjög varlega um það í þessum sal ef ég kæmi úr stjórnarmeirihlutanum, þeim hluta þingsins sem hyglir sjálfum sér og hefur tekið til sín lífeyrisréttindi langt umfram það sem gerist í landinu almennt, langt umfram það sem gerist hjá starfsmönnum ríkisins.

Það sem þetta frumvarp gengur út á er að hafa réttindi af starfsfólkinu, geta rekið það skýringalaust, rekið og ráðið skýringalaust, án nokkurra afskipta og haft síðan réttindi af fólki. Rýrt kjörin. Út á það gengur þetta frumvarp. Ég frábið mér almennar yfirlýsingar út í loftið um að þetta kerfi sé þungt í vöfum án þess að menn geri þá nánar grein fyrir því nákvæmlega hvað þeir eiga við. Hvað er það sem er þungt í vöfum? Er það ráðningaröryggi manna? Eru það lífeyrisréttindin? Hvað er það?

Ég hef ekki fengið svör frá hæstv. menntamálaráðherra um lífeyrisréttindi nýráðinna starfsmanna — hvert fara þeir? (Forseti hringir.) Hver verða lífeyrisréttindi nýráðinna starfsmanna hjá Ríkisútvarpinu ef þessi lög ná fram að ganga? (Forseti hringir.) Ég óska eftir svari við því.