131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:15]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður ekki sýna skoðunum annars fólks nægilega mikla virðingu. Ég ber virðingu fyrir skoðunum hans, ég þekki þær nákvæmlega og gæti meira að segja haldið ræðurnar fyrir hann. Þegar menn eru valdir í útvarpsráð sem hafa aðrar skoðanir en hv. þingmaður eru þeir ekkert verri fyrir það.

Varðandi það að ráða menn og reka virðist hv. þingmaður ekki skilja að þegar atvinnurekandi ræður mann í vinnu er það vegna þess að hann vill hafa gagn af manninum í einhverjum skilningi. Það getur vel verið að hv. þingmaður sem formaður BSRB telji að enginn opinber starfsmaður sé til gagns. Ég er á allt annarri skoðun. Ég held að það sé bráðduglegt fólk og menn ættu alls ekkert að reka það, með eða án skýringa. Yfirleitt eru atvinnurekendur ánægðir með fólk sitt og vita nákvæmlega að fyrirtækin byggja á starfsmönnunum. Þeir vita það nákvæmlega. Menn eru ekki að reka menn að gamni sínu si svona. Oft getur verið mjög erfitt að koma með skýringar, það getur verið sárt að þurfa að útskýra fyrir viðkomandi starfsmanni af hverju hann brást.

Ég lít ekki á það sem hlunnindi að vera starfsmaður einhvers staðar. Þetta eru kaup kaups. Maður ræður sig í vinnu og hinn borgar honum laun og báðir eiga að hafa hag af því, bæði fyrirtækið og starfsmaðurinn. Þetta á við um opinbera starfsmenn nákvæmlega eins og aðra, þeir eru alveg jafnmikilvægir og nytsamir og aðrir starfsmenn. Þeir eru vel sinna peninga virði og menn eru ekki að segja þeim upp að gamni sínu alla daga.