131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:17]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að ég virði ekki skoðanir annarra. Ég var hins vegar að benda á hina furðulegu mótsögn hjá Sjálfstæðisflokknum að skipa iðulega til áhrifa og stjórnar í stofnunum, setja yfir stofnanir menn sem eru andvígir stofnununum, andvígir opinberum rekstri. Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn var það breiður flokkur að hann gat leitað til fjölmargra einstaklinga sem ekki voru haldnir fyrirlitningu á opinberum rekstri eins og virðist vera að verða viðkvæðið núna. Maður heyrir í umræðunni að verið er að níða niður og gera lítið úr opinberum rekstri, það er línan nánast sem kemur frá Sjálfstæðisflokknum, fyrirlitning á opinberum rekstri, að það sé allra meina bót að komast út úr þeim farvegi, samvinnufarveginum, opinberum rekstri.

Varðandi réttarstöðu manna í fyrirtækjum hafa sumir ráðningarvald þar, geta ráðið fólk og rekið. Síðan höfum við smám saman verið að þróa með okkur kerfi sem skapar einhvern vísi að jafnræði með mönnum þannig að menn séu ekki beittir ofbeldi eða misrétti og búi við einhver tiltekin réttindi. Réttindin í þessu tilviki felast í því að sá sem hefur ráðningarvaldið og getur rekið menn þarf að gefa skýringar fyrir þeirri ákvörðun sinni. (Gripið fram í.) Út á það gengur málið. Menn eru að nema brott þau réttindi. Nákvæmlega þau réttindi.