131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:37]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er það ekkert launungarmál að á sínum tíma taldi ég rétt að fara hlutafélagaleiðina varðandi rekstrarform Ríkisútvarpsins. Mér hefur aldrei verið það neitt launungarmál. Hér erum við að fara leið sem nálgast þær aðferðir, þá hugsun og þau tæki sem hlutafélagaformið hefur yfir að ráða. Engu að síður er sameignarfélagsformið þannig að það undirstrikar að sameignarfélagið Ríkisútvarpið verður í ótakmarkaðri eigu ríkisins. Það má kannski líka túlka það þannig að það hnykki enn frekar á ábyrgð ríkisins og því að Ríkisútvarpið eigi að vera í almannaþágu að fara þessa leið.

Ég ítreka af hverju hugur minn var sá að fara hlutafélagaformsleiðina og síðan núna þessa sameignarfélagaleið. Það var út af því að ég tel það einfaldlega rétt, líka sem fyrrum starfsmaður Ríkisútvarpsins. Ég tel ekki rétt að fara þá leið að draga starfsmenn Ríkisútvarpsins inn í yfirstjórn þess. Ég tel það bara ekki affarasælt. Ég tel þá leið sem við erum að fara, að skerpa á hlutverki Ríkisútvarpsins almennt og yfirstjórnarinnar, vera nauðsynlega til þess að Ríkisútvarpið geti lifað og dafnað áfram í því umhverfi sem það býr við. Það hefur ekkert með það að gera að ég lýsi yfir vantrausti á starfsmenn Ríkisútvarpsins, síður en svo. Ég tel þá leið sem er fólgin í hugmyndinni um hlutafélög og sameignarfélög vera þannig að það þurfi að nýta sér kosti þeirrar leiðar og ekki blanda starfsmönnum allt of mikið í þá stjórn sem fer með stjórn útvarpsins hverju sinni.