131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:45]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég er full efasemda eftir að hafa hlustað á umræðu hv. þingmanna, og þá kannski sérstaklega stjórnarandstöðuþingmanna í dag um frumvarpið um Ríkisútvarpið, hvort nást muni almennt pólitísk sátt um Ríkisútvarpið. Ég held að ég sé alveg fullviss um það eftir að hafa heyrt m.a. orðastað hv. þm. Ögmundar Jónassonar við þingmenn m.a. úr Samfylkingunni. Þegar stjórnarandstaðan nær ekki einu sinni saman um málið er mér til efs að allur þingheimur geri það.

Það er líka rétt að ítreka að menn hafa talað um að skilgreiningin í frumvarpinu sé of víðtæk og auðvitað á hv. menntamálanefnd eftir að fara mjög ítarlega yfir það. Það er m.a. gert með það í huga að undirstrika sérstaklega það sem Ríkisútvarpið er að gera núna og verið er taka tillit til athugasemda ESA, að það þurfi að vera skýrt skilgreint í lögum hvað er almannaþjónustuhlutverk til þess að menn geti tekið það verksvið að sér ef það er ríkisútvarp sem stendur fyrir því. ESA er með ákveðnar kröfur og verið er að uppfylla þær með þessari almennu skilgreiningu.

Síðan má segja á móti að svigrúm Ríkisútvarpsins komi að því leyti til með að skerðast þegar settar eru fram kröfur af hálfu stjórnvalda um aukið menningarlegt hlutverk þess. Ef við förum t.d. BBC-leiðina munum við hugsanlega gera kröfur um að x mörg prósent, kannski 50% af dagskrá Ríkisútvarpsins, verði innlend dagskrá. Það hlýtur að skerða svigrúm Ríkisútvarpsins til annarra hluta eins og að kaupa bandarískar sápur o.s.frv. Það liggur í hlutarins eðli að ef við krefjumst þess að Ríkisútvarpið sinni betur menningarhlutverki sínu með því að krefjast aukinnar hlutdeildar í innlendri dagskrárgerð þá hlýtur svigrúmið að skerðast á öðrum sviðum.