131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:48]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ráðherra en ég er líka þingmaður og ég ber mikla virðingu fyrir þinginu. Það er hv. menntamálanefnd sem fær frumvarpið til meðferðar og þá hefst í rauninni önnur tegund þinglegrar meðferðar þar sem leitað verður umsagna. Að sjálfsögðu mun hv. menntamálanefnd ráða ferðinni hvað það varðar og fara gaumgæfilega yfir alla hluti og allar ábendingar sem nefndinni berast þannig að málið verði sem faglegast og best unnið og m.a. fara yfir það sem ég gat um áðan.

Ég held að menn verði að átta sig á því að ekki verður bæði sleppt og haldið. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þingmanni í ræðu hennar áðan að við getum gert auknar kröfur og þess vegna erum við með Ríkisútvarp, af því að við getum gert auknar kröfur til Ríkisútvarpsins. Við gerum ekki sömu kröfur til Ríkisútvarpsins og til einkamiðlanna og því hljótum við að forgangsraða þeim kröfum gagnvart Ríkisútvarpinu. Það liggur í hlutarins eðli að við viljum fá eitthvað í staðinn fyrir það fjármagn sem veitt er til Ríkisútvarpsins. (Forseti hringir.) Og það er fyrst og fremst á menningarlega sviðinu sem ég sé hlut þess aukast enn frekar.