131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:49]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Í raun og veru væri seinni ræða hæstv. menntamálaráðherra efni í aðra eins umræðu hér, því að þar hefur margt furðulegt komið fram. Ég vil segja í tilefni af orðaskiptum hennar við hv. þingmenn Kolbrúnu Halldórsdóttur og Ögmund Jónasson, að það sem helst virðist standa í vegi þessa frumvarps í gengum þingið núna er andstaða þingmanna Sjálfstæðisflokksins en ekki stjórnarandstöðunnar, ef marka má ræður hv. þingmanna Sigurðar Kára Kristjánssonar og Ástu Möller hér áðan.

Ég ætla ekki að tefja umræðuna mikið, ég sé ekki mikið gagn að því, en ég verð þó að spyrja hæstv. menntamálaráðherra aftur að því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði áðan: Eru það réttar upplýsingar sem fengust frá yfirmönnum í menntamálaráðuneytinu að menn geri ekki ráð fyrir neins konar jöfnunarákvæðum í sambandi við nefskattinn sem á að leggja á? Og er það rétt að setningar neðarlega á síðu 20 í frumvarpinu, í athugasemdum við 11. grein, séu leifar af fyrri gerð og eigi ekki að taka bókstaflega? Og þá spyr ég: Af hverju hefur menntamálaráðherra hæstv. ekki tilkynnt okkur það? Af hverju hefur þetta ekki verið prentað upp eða með einhverjum hætti gert á þinglegan hátt þannig að ekki þurfi að ræða það hér í andsvari við lokaræðu menntamálaráðherra í málinu?

Ég vil svo þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir hreinskilnina að segja strax nei við spurningunni um málamiðlun í stjórnarháttamálum, að tveir starfsmenn komi í stjórnina. Það lýsir vel sáttavilja menntamálaráðherra og ákafa hennar til að ná niðurstöðu í þinginu með þátttöku sem flestra.

Að lokum önnur spurning: Það er eins og það sé einhver nauðung að fyrirtæki af taginu RÚV sf. þurfi ekki að hlíta upplýsingalögum. Er það ekki einfalt að setja ósköp einfaldlega inn í lögin um Ríkisútvarpið sf. (Forseti hringir.) ákvæði um að það þurfi að hlíta þeim? Er málið nokkuð flóknara?