131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[23:51]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ósköp einfalt hvað þau atriði varðar sem hv. þingmaður kom inn á. Hv. menntamálanefnd fer auðvitað gaumgæfilega yfir þessar athugasemdir. Ég var einfaldlega að lýsa skoðun minni. Ég tel ekki rétt að starfsmenn séu í stjórninni. Að sjálfsögðu geta þeir haft sín áhrif en ég tel ekki rétt að starfsmenn Ríkisútvarpsins séu í yfirstjórninni, sérstaklega þegar við höfum í huga að þetta er rekstrarstjórn sem m.a. á að hafa yfirlit og eftirlit með rekstri félagsins og að sjálfsögðu þar með talið rekstri sem starfsmenn koma að.

Ég tel því ekki rétt að fara þá leið, enda er það ekki nútímalegt, ef þannig má að orði komast, að fara slíkar leiðir og ekki til hagsbóta fyrir félagið sem slíkt að mínu mati.

Ef ég skildi hv. þm. Mörð Árnason fyrir hönd Jóhönnu Sigurðardóttur rétt, þá er rétt að undirstrika það sem stendur í frumvarpinu eða athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Almennt mætti þó miða við að haga skattlagningunni þannig að hvert þriggja manna heimili yrði nokkurn veginn jafnsett eftir sem áður, sem mundi þýða að gjaldið lækkaði fyrir fámennari heimili, en hækkaði fyrir heimili þar sem fullorðnir einstaklingar 16 ára og eldri væru 4 eða fleiri.“

Hv. þingmaður verður að leiðrétta mig ef hann er ekki að meina þessa setningu, því það er ósköp skýrt sem þarna kemur fram að ef þetta kemur til með að hafa áhrif á þessa fjóra eða fleiri sem eru í heimili þá er það út af því að þeir hafa allir tekjur yfir 855 þús. kr. eða meira. Þetta er ósköp skýrt. Þar sem fjórir, fimm eða sex eru í heimili fer þetta eftir tekjum viðkomandi einstaklinga. Það er ekki ætlunin að vera með einhver jöfnunarákvæði. Þetta er skýrt, þeir einstaklingar sem eru með 855 þús. kr. og meira í tekjur og eru á bilinu 16–70 ára koma til með að greiða nefskattinn.