131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Sinfóníuhljómsveit Íslands.

644. mál
[23:58]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er verið að ræða mál sem er sérstakt og varðar ekki efniskjarna þess frumvarps sem menntamálaráðherra hæstv. hefur flutt um Ríkisútvarpið sf. Þess vegna ræðum við það sérstaklega og veitum því þá virðingu sem það á skilið.

Ég veit að ýmsir eru þeirrar skoðunar að varðveita eigi þessi tengsl milli Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Ríkisútvarpsins og ég virði það álit manna. Þetta eru sögulega merkileg tengsl vegna þess að Sinfóníuhljómsveitin, sem stofnuð er árið 1950, er að nokkru leyti sprottin upp úr gömlu útvarpshljómsveitinni sem Ríkisútvarpið hafði á að skipa. Um tíma hygg ég að það hafi verið þannig að Ríkisútvarpið hafi í raun og veru verið eigandi Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem má umorða, af því að nú er komið miðnætti og magískur tími, að Sinfóníuhljómsveitin sé kannski dóttir útvarpsins í sögulegum skilningi. En börnin verða einhvern tíma að flytja að heiman og í raun hafa þessi tengsl ekki verið virk undanfarin ár nema að mjög litlu leyti og nú er fyrir nokkru kominn tími til að skilja hér á milli að mínu áliti. Ég legg áherslu á að þessum tengslum sé haldið í öðru formi enda eru tónleikar þessarar snjöllu hljómsveitar sjálfsagt útvarpsefni og reyndar einnig sjálfsagt og gott sjónvarpsefni þótt sjónvarpinu hafi einhvern veginn ekki lukkast að skilja þá höfðun sem tónleikar geta haft í sjónvarpi.

Ég legg til að málið verði rætt í menntamálanefnd, óháð afdrifum þess frumvarps sem hér hefur verið lagt fram um RÚV sf., og heiti stuðningi mínum við afgreiðslu málsins í vor ef aðrir eru samþykkir þeirri vegferð.